Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:27:08 (6025)

2002-03-12 14:27:08# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við spurningum mínum. Í upphafi máls míns áðan nefndi ég nokkrar staðhæfingar frá starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu, stór orð án þess að gera þau að mínum. Þau lýsa slæmu ástandi sem stjórnendur spítalans hafa að miklu leyti tekið undir í fjölmiðlum.

Hæstv. ráðherra fer fram á að menn sýni þessu skilning, verið sé að flytja og breyta. En það er erfitt fyrir sjúklinga sem eru fárveikir við óviðunandi aðstæður, t.d. á göngum eða skolherbergjum eða eru á biðlistum kvaldir og þjáðir, að þeir sýni þessu skilning.

Hæstv. ráðherra talaði um að rýmkast mundi um þegar barnaspítalinn yrði tekið í gagnið. Það verður í nóvember ef marka má orð stjórnenda spítalans. Ég spyr: Verður þetta ástand næstu 8--10 mánuði ef það á ekki að lagast fyrr en í nóvember? En allir voru sammála í umræðunni um að það væri orðið mjög áríðandi að taka á þessum málum.

Ég vil ítreka þá ósk og kröfu Samfylkingarinnar sem kom fram í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að ráðherra skili Alþingi skýrslu um ástandið fyrir þinglok, ástandið á Landspítalanum, ástandið í heilsugæslunni og ástandið í öldrunarþjónustunni.

Að lokum vil ég ítreka að þessi umræða er ekki til að draga úr trausti á heilbrigðisstarfsmönnum eða heilbrigðisþjónustunni, heldur til þess að auka og tryggja öryggi sjúklinga og góðan aðbúnað þeirra og ég vona að það verði árangurinn af þessari umræðu.