Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:21:13 (6070)

2002-03-12 17:21:13# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Nú ræðum við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, með síðari breytingum. Komið hefur fram í máli hæstv. landbrh. sem fylgir frv. úr hlaði að markmið þessarar lagasmíðar sé að búnaðargjaldið eigi að greiðast af framleiðslunni en ekki þegar búið er að bæta ýmsum kostnaði á framleiðsluna, eins og t.d. heildsöluálagningu eða smásöluálagningu eða öðrum kostnaði sem kemur á landbúnaðarvörur.

Þá er gert ráð fyrir í frv. að ekki sé hægt að leggja sama gjaldið tvisvar á sömu framleiðsluna. Þetta er því í réttlætisátt.

Þetta búnaðargjald rennur eftir því er ég kemst næst til Bændasamtakanna og í búnaðarsamböndin, eins og kom fram, í búgreinafélög, Bjargráðasjóð landbúnaðarins og Lánasjóð landbúnaðarins. En þá vakna spurningar, herra forseti, sem ég vil beina til hæstv. landbrh. hvort hafi verið hafi í umræðunni við samningu laganna að jafna þessa greiðslu til búnaðarsambandanna. Við getum séð fyrir okkur svæði, herra forseti, þar sem er mikill landbúnaður og gífurlega mikill vöxtur verður í við skulum segja t.d. í kjúklingarækt og eggjaframleiðslu og það komi töluvert fjármagn í það. Þá hlýtur viðkomandi búnaðarsamband að fá töluvert fé. Spurningin er hvort það hafi verið í umræðunni að það gjald sem rennur til búnaðarsambandanna jafnist út á milli búnaðarsambandanna, að það fari eftir fjölda þeirra, því að þó að um sé að ræða minni búnaðarsambönd standa þau í ýmiss konar starfsemi sem er kannski ekkert miklu minni starfsemi en hjá þeim stærri sem eru svo heppin að vera staðsett á svæðum þar sem mun meira fjármagn kemur til vegna innheimtu þessa gjalds.

Það kemur fram, herra forseti, að hæstv. landbrh. aðhyllist jafnaðarmennsku og hann vill láta eitt yfir alla ganga í þessu sambandi og að ekki sé verið að láta suma greiða tvisvar sama gjaldið eða af sömu vöru og tel ég það vera vel. Líka að ekki sé verið að hækka þetta gjald, hafa gjaldið hærra á sumar afurðir en á aðrar.

Frumvarpið fer vænti ég til hv. landbn. og ég á von á því að það fái góða umfjöllun þar og sjálfsagt verða brúsapallsumræður, eins og hæstv. landbrh. talar um í líkingamáli, í þinginu um hin ýmsu gjöld sem lögð eru á landbúnaðinn og til hvers þau eru og hverjir fá þá fjármuni og hvernig moðað er úr þeim fyrir hvern og einn.