Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:26:22 (6071)

2002-03-12 17:26:22# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér sýnist að það sem verið er að lagfæra með frv. þessu um breytingu á lögum um búnaðargjald, sé í raun og veru sjálfsagt mál, þ.e. að tryggja það betur en kannski er gert í núgildandi lögum að búnaðargjald greiðist eingöngu af framleiðslu en ekki af öðrum þáttum eins og kannski sölukostnaði vöru eða einhverri umsýslu með hana. Það er þannig sem lögin hljóða og sú hefur framkvæmdin átt að vera að þessi gjaldstofn miðaðist við verðmæti vörunnar á framleiðslustigi eða eftir framleiðslu en kostnaður sem þar bættist við myndaði ekki stofn til greiðslu búnaðargjalds.

Sama gildir um hitt atriðið, að koma í veg fyrir að einhvers konar uppsöfnun geti orðið, ef svo má að orði komast, í gjaldstofninum og aldrei sé lagt á gjald nema einu sinni á sama stofninn. Ég hef að vísu ekki heyrt af því miklar sögur að þarna hafi verið gölluð framkvæmd á en það kann þó að vera með hliðsjón af því sem hér er vísað til, m.a. varðandi skattalega meðferð hlutanna, að nauðsynlegt sé að gera þessar breytingar til að taka af allan vafa í þessum efnum.

En það sem ég vildi aðeins gera að umtalsefni, herra forseti, úr því að málefni sem varða búnaðargjaldið eru til umfjöllunar á annað borð, er ósköp einfaldlega framtíð þessa fyrirkomulags og það er gjaldtakan sem slík og þá sérstaklega sá þáttur hennar sem enn rennur til Lánasjóðs landbúnaðarins og myndar tekjustofn til niðurgreiðslu vaxta hjá þeim sjóði. Ég spyr m.a., herra forseti, að því gefna tilefni að á nýafstöðnu búnaðarþingi var samþykkt ályktun þar sem skorað er á Alþingi að taka lög um búnaðargjald, þ.e. þau hin sömu og við erum með í höndunum, til endurskoðunar og breyta þeim þannig að gjaldið verði lækkað í 2% af þessum álagningarstofni, framleiðsluverðmæti búnaðargjaldsskyldra búvara.

Frumvarpið sem hér er flutt kemur ekki inn á þetta atriði. Að vísu er hér um 10 punkta lækkun á gjaldinu að ræða úr 2,65% í 2,55% en ljóst er að þar er ekki á ferðinni sú lækkun sem búnaðarþing var að álykta um, sem gerði ráð fyrir að gjaldið lækkaði niður í heil 2% og væntanlega að það yrði fyrst og fremst Lánasjóður landbúnaðarins sem yrði þá af tekjum vegna þeirrar lækkunar. Mér þykir ekki trúlegt að menn telji að aðrir aðilar þarna séu vel aflögufærir þó að það kunni að koma til greina að t.d. Bjargráðasjóður þyldi einhverja lækkun en a.m.k. hef ég engar fregnir haft af því að Bændasamtökin eða búnaðarsamböndin telji sig aflögufær til að taka þátt í lækkun þessara tekjustofna sinna sem búnaðargjaldið er.

[17:30]

Herra forseti. Þetta mál er býsna stórt vegna þess að hin félagslega uppbygging landbúnaðarins, ef svo má að orði komast, í gegnum sameiginlegan fjárfestingarlánasjóð, áður Stofnlánadeild landbúnaðarins, nú Lánasjóð landbúnaðarins, hefur auðvitað byggt á þeirri millifærslu, þeirri gjaldtöku sem búnaðargjaldið er. Þær tekjur hafa gert sjóðnum kleift að greiða niður vexti svo munar talsverðum fjárhæðum. Vaxtakjörin eru þar af leiðandi nokkrum prósentustigum lægri en ef um fulla markaðsvexti væri að ræða. Ætli vextir séu ekki einhvers staðar í kringum 3% núna af þeim lánum sem eru með niðurgreiddum vöxtum. Þeir hafa að vísu hækkað undanfarin ár vegna þess að dregið hefur úr tekjum stofnlánadeildar og síðan lánasjóðsins af þessum sökum. En þannig eru vextirnir í staðinn fyrir 6--7% sem vænta mætti af verðtryggðum lánum ef markaðsvextir væru þarna á ferðinni.

Ég verð að segja eins og er, að maður er dálítið hugsi yfir því þegar ályktanir berast frá búnaðarþingi um að ganga enn lengra í þessa átt og draga úr tekjuöflun sem runnið hefur til þessa sameiginlega fjárfestingarlánasjóðs greinarinnar.

Nú má að sjálfsögðu horfa á þetta frá þeim sjónarhóli að gott sé að þessi gjaldtaka lækki þannig að framleiðslukostnaður sé sem minnstur og það leggist sem minnst ofan á vöruverðið á því stigi. En þá verða menn líka að horfa á hina hliðina, að hin hagstæðu lán sem bændum sem standa í uppbyggingu og fjárfestingum hafa staðið til boða upp að vissum stærðarmörkum í búskap sínum hafa skipt gríðarlega miklu máli fyrir þessa atvinnugrein. Nógu erfiður er þröskuldurinn sem kynslóðaskipti í landbúnaði þurfa að klofast yfir í dag þó að ekki bættist við að fjárfestingarlánin yrðu dýrari og erfiðara að ráðast í þær framkvæmdir sem oft eru samfara kynslóðaskiptum og nýju uppbyggingarskeiði á bújörðum. Þar hefur vaxtaniðurgreiðslan skipt miklu máli og sú millifærsla sem þar er á ferðinni hjálpað til. Hún felur í raun og veru í sér að rótgrónir bændur með uppbyggð bú sem ekki standa í miklum fjárfestingum taka í gegnum greiðslu búnaðargjaldsins, þann hluta sem rennur til lánasjóðsins, þátt í að greiða niður fjárfestingarkostnað hinna sem standa í fjárfestingum og uppbyggingu hverju sinni. Þannig styðja kynslóðirnar við bakið hver á annarri. Þetta er að mínu mati fyrirkomulag sem á margan hátt er til fyrirmyndar, er félagslegt og hefur þjónað þessari stétt vel. Menn verða að huga að öllum endum, köntum og hliðum málsins áður en hrapað er að breytingum í þessum efnum.

Staðreyndin er auðvitað sú að ef mikið lengra verður gengið á þessari braut, að lækka þann hluta gjaldsins sem rennur sem tekjustofn til lánasjóðsins, fer hver að verða síðastur að viðhalda því fyrirkomulagi. Þá munu án efa koma upp raddir um að réttast væri bara að hætta þessu alveg vegna þess að tekjurnar væru orðnar svo litlar að það taki því ekki að standa í þessu og halda utan um millifærsluna sem þarna er á ferðinni.

Mér finnst óeðlilegt annað, herra forseti, en þessi mál beri á góma úr því að svona stendur á. Alþingi hefur í höndunum frv. til laga um breytingu á lögum um búnaðargjald. Sömuleiðis höfum við í höndunum glænýja ályktun frá búnaðarþingi þar sem skorað er á þingið að taka þessi mál til skoðunar. Það má vel vera að í þessu frv. séu fólgin ákveðin skilaboð um að hæstv. ráðherra hyggist flýta sér rólega í þessum efnum og aðhafast ekki, a.m.k. ekki á þessu þingi. Það hlýtur að teljast verjanlegt út frá þeim sjónarmiðum að menn vilji í öllu falli skoða málin en hitt er ljóst að menn hljóta að taka alvarlega ályktun búnaðarþings af þessu tagi og taka hana til skoðunar. Það er ekki þar með sagt að löggjafinn sé bundinn af henni eins og hún kemur fyrir. Því ræður að sjálfsögðu Alþingi sem skipar þessum málum með lögum. En ég hygg að venjan sé að hlusta á það sem kemur frá atvinnugreininni þegar um afgerandi stefnumótandi ályktun af þessu tagi er að ræða.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað heyra hvað hæstv. ráðherra hefur um þetta mál að segja á þessu stigi. Er það viðhorf hans að bíða eigi með þessar breytingar og halda þeim aðgreindum og afgreiða þetta frv. eins og það kemur hér fyrir? Eða er ætlunin að hv. landbn. taki þetta hvort tveggja til skoðunar, þá mögulega með það í huga að gera einhverjar frekari breytingar á þessu þingi umfram það sem frv. gerir ráð fyrir?