Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:40:27 (6074)

2002-03-12 17:40:27# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:40]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, með síðari breytingum. Búnaðargjald er greitt af framleiðslu á búvörum en í þessu frv. er verið að leiðrétta gjaldið, ef ég skil það rétt, þannig að gjald verði ekki greitt af sömu vöru nema einni sinni. Reiknað er með að heildsöluverð myndi gjaldstofninn. Af frv. má skilja að koma eigi í veg fyrir, eins og ég nefndi áðan, tvísköttun og það er vel. Það er ástæða til að fagna því ef vel er gert.

Innheimtuhlutfall fyrirframgreiðslu búnaðargjalds og skatthlutfall gjaldsins er skv. þessu frv. sett í sömu prósentu, þ.e. áætlað er að það verði 2,55%, eins og frv. er fram lagt, hvort heldur um fyrirframgreiðslu eða skatthlutfall er að ræða. Eins og ég skil búnaðargjald var það endurnýjað til þjónustu við landbúnaðinn sem eins konar þjónustugjald en hluti af því rennur til Lánasjóðs landbúnaðarins og þar þyrftu menn kannski að skoða hlutina upp á nýtt. Í því sambandi má vitna til samþykktar nýafstaðins búnaðarþings.

Að þessu sögðu, herra forseti, er ástæða til að velta fyrir sér hversu mörg gjöld eru lögð á framleiðendur búvara. Eftir því sem ég man best er t.d. lagt verðmiðlunargjald á lambakjöt. Það var 7 kr. en hefur sennilega lækkað niður í 5 kr. Verðmiðlunargjald er innheimt á heildsölustigi af afurðum nautgripa og sauðfjár og telst til heildsölu- og dreifingarkostnaðar, sé það ákveðið af verðlagsnefnd búvöru. Þannig er þetta gjald ákveðið. Mig minnir að gjaldið hafi átt, ef ég man rétt --- ráðlegt væri að spyrja hæstv. landbrh. hvort það sé ekki rétt --- að virka sem jöfnun á flutningskostnaði að afurðastöð, þ.e. verðmiðlunargjaldið. Fróðlegt væri að fá að vita hjá hæstv. landbrh. hvort hann hefur í landbúnaðarkolli sínum, ef þannig má að orði komast, samantekt á þeim gjöldum sem bóndi með blandað bú, sauðfé, hross, kýr og garðyrkju gæti þurft að standa undir. Ég veit að þetta er flókið mál en ég hef grun um að gjöldin sem leggjast á bóndann séu af ýmsu tagi og ástæða sé til að fara yfir þá þætti.

Ég hygg að mörgum sé farið eins og mér, að gera sér ekki að fullu grein fyrir hversu margir kostnaðarliðir falla á framleiðsluna hjá bændum. Ég held að bændur, sem framleiðendur og neytendur, þurfi ásamt öðrum neytendum að fá glöggt yfirlit yfir það sem greitt er til bænda og hver skattlagningin á framleiðandann í heild er, m.a. á einstakar greinar ekkert síður en eilíflega að draga fram þann stuðning sem reiknaður er til landbúnaðarins í heild sinni. Aftur sjást sjaldan þau gjöld sem lögð eru á framleiðsluna fyrir utan þá skatta sem koma þar að auki, ýmiss konar neysluskattar sem bændur verða fyrir.

Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég tel að það sé til bóta og vil ítreka það. Vonandi verður hægt að komast að samkomulagi um jafnvel enn betri stöðu ef því er að skipta, ef menn telja að það komi til greina. Spurningarnar sem ég lagði fram lúta að þeim kostnaði sem er lagður á framleiðendur, ég tala ekki um þá sem reka blönduð bú.