Líftækniiðnaður

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:02:50 (6082)

2002-03-12 18:02:50# 127. lþ. 95.14 fundur 548. mál: #A líftækniiðnaður# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:02]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Málið var unnið í ágætu samstarfi við umhvrn. þannig að enginn ágreiningur er á milli ráðuneyta um að stjórnsýsluþátturinn heyri undir iðnrn. þó svo að kveðið sé á um það, eins og kom fram hjá hv. þm., að samstarf sé skilyrt við umhvrn. á ákveðnum sviðum.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er þetta mjög í samræmi við það sem þekkist erlendis en ég tel samt alveg sjálfsagt að iðnn. kanni það frekar og fari ofan í það mál en þetta eru a.m.k. þær upplýsingar sem við höfum í ráðuneytinu.

Ég held að mjög mikilvægt sé að koma þessu máli fram og lögfesta stjórnsýsluþáttinn, ekki síst vegna þess að við bindum miklar vonir við þessa atvinnugrein og trúum því að hún geti skapað mörg störf til frambúðar og þar af leiðandi og ekki síst vegna þess sem hv. þm. nefndi og varðar sýnatöku og þann mikilvæga þátt að við Íslendingar höldum þar rétt á málum því að þarna eru vissulega mikil verðmæti. Með því að hafa ekki löggjöfina skýra og klára eigum við á hættu að tapa verðmætum og ég held að það sé kannski grundvallaratriðið í málinu öllu.

Þetta mál eins og öll önnur verður auðvitað skoðað í nefnd en ég tel að bætt hafi verið úr hvað varðar frv. frá því að það var lagt fram fyrst og það hafi verið þrengt, eins og kom fram í máli mínu áðan, að iðnaðarhagsmunum og það er nú sá málaflokkur sem við förum með í iðnrn. Auk þess förum við með mál sem varða nýsköpun og það held ég að séu kannski aðalrökin fyrir því að málið sé vistað hjá okkur.