Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:14:28 (6088)

2002-03-12 18:14:28# 127. lþ. 95.15 fundur 605. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur o.fl.) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli sem starfandi félmrh. fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Frumvarp þetta var lagt fram á 126. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Eftir umfjöllun um það á þinginu var það tekið til endurskoðunar í félmrn. og hefur sætt nokkrum breytingum frá upphaflega frv.

Frumvarpið er m.a. lagt fram til innleiðingar á tilskipun nr. 93/104 frá EB um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Lagt er til að lögfestar verði meginreglur tilskipunarinnar sem gera aðildarríkjum skylt að tryggja starfsmönnum rétt á:

a. 11 klst. samfelldum daglegum hvíldartíma,

b. hvíldarhléi ef daglegur vinnutími er lengri en 6 klst.,

c. samfelldum 24 klst. hvíldartíma í viku hverri sem tengist daglegum hvíldartíma,

d. að virkur vikulegur vinnutími sé takmarkaður og að meðalvinnustundafjöldi fari ekki yfir 48 klst., að yfirvinnu meðtalinni,

e. árlegu fjögurra vikna launuðu orlofi,

f. að venjulegur vinnutími næturvinnustarfsmanns fari ekki að jafnaði yfir 8 klst. á hverju 24 klst. tímabili og að þetta viðmið sé hámark ef starfi fylgir mikið andlegt eða líkamlegt álag,

g. ókeypis heilsufarsskoðun næturvinnustarfsmanna og, sé þess kostur, tilfærslu í dagvinnustörf ef rekja má heilsufarsvandamál þeirra til næturvinnu.

[18:15]

Heimilt er þó að veita undanþágur frá meginreglu vinnutímatilskipunar. Slíkar heimildir byggjast m.a. á því að skipulag vinnutíma í ákveðnum starfsgreinum er eða kann að verða með þeim hætti að æskilegt sé að heimila tiltekinn sveigjanleika við breytingu þeirra.

Nokkrar starfsgreinar eru sem fyrr segir sérstaklega undanþegnar gildissviði vinnutíma tilskipunar. Þær eru:

a. flutningar á landi, sjó, í lofti, með járnbrautarlestum og á skipagengum vatnaleiðum,

b. veiðar og önnur vinna á sjó,

c. læknar í starfsnámi.

Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum taka almennt ekki til starfsemi á sjó og í lofti og er því ekki mælt sérstaklega fyrir um undanþágur varðandi þá starfsemi í frv. þessu. Hins vegar er lagt til að ákvæði frv. um vinnutíma gildi ekki um þá sem starfa við flutning á vegum og falla undir reglugerð dómsmrn. um akstur á hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og í flutningi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þá er lagt til að meginreglur um daglega lágmarkshvíld og vikulegan frídag sem tengist daglegum hvíldartíma muni gilda áfram um lækna í starfsnámi en að ekki verði mælt fyrir um vinnutíma þeirra að öðru leyti í frv.

Flest ákvæði um vinnutíma hér á landi er að finna í kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins en þó eru nokkur ákvæði um þetta efni í gildandi löggjöf. Byggist löggjöf um vinnutíma einkum á því að vernda starfsmenn gegn óhóflega löngum vinnutíma með því að tryggja þeim lágmarkshvíld.

Frv. þetta er enn fremur lagt fram til innleiðingar á tilskipun nr. 89/391 frá EBE um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum. Markmið heilsuverndar starfsmanna er að fyrirbyggja óþægindi, sjúkdóma eða slys sem rekja má til atvinnu fólks ásamt því að auka þekkingu atvinnurekenda og launafólks á áhættuþáttum í vinnuumhverfi. Þá er ekki síður tilgangurinn að draga úr fjarvistum starfsmanna og atvinnurekenda vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi, viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað og laga störfin að þeim starfsmönnum sem gegna þeim. Þessum markmiðum verður helst náð með áhættumati, fræðslu og ráðgjöf og heilsufarsskoðun. Er mælt með því í frv. að atvinnurekendur geri eða láti gera skriflegt áhættumat sem taki til þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta skapað áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna. Enn fremur er kveðið á um að atvinnurekendur skuli vinna að forvörnum og heilsuvernd innan fyrirtækja sinna. Krefjist gerð áhættumats áætlunar um forvarnir eða ráðstafanir um öryggi og heilsuvernd starfsmanna færni sem atvinnurekendur eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila.

Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði sem banni innflutning og markaðssetningu á vélum, tækjum eða öðrum búnaði sem fullnægi ekki skilyrðum um öryggi og tilskildar merkingar og/eða yfirlýsingar um öryggi sem sett eru samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.

Hér er einkum verið að vísa til samnings um Evrópska efnahagssvæðið en þó nokkrar gerðir Evrópubandalagsins sem teknar hafa verið upp í samninginn kveða á um samræmingu laga aðildarríkjanna um öryggi og heilsuvernd í tengslum við ýmsar vélar, tæki og annan búnað. Er hér einkum um að ræða svokallaðar nýaðferðargerðir. Í því skyni að tryggja að reglunum sé fylgt eftir er kveðið á um bann við markaðssetningu og notkun tækja sem fullnægi ekki þeim skilyrðum sem sett hafa verið um öryggi og merkingar innan svæðisins.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðum laganna til viðbótar við það sem að framan greinir, svo sem ákvæði um dagsektir, stjórn Vinnueftirlits ríkisins, tekjur Vinnueftirlitsins o.fl. Þá er lögð til smávægileg breyting með hliðsjón af tilskipun nr. 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.