Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 14:59:16 (6147)

2002-03-13 14:59:16# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Drífu Hjartardóttur fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli fyrir dreifbýli landsins.

Við höfum verið með þessar tölur á borðinu að þrífösun á landsnetinu öllu mundi kosta 9--10 milljarða. Við höfum séð það áður en nefndin hlýtur núna að hafa fengið einhverja ábendingu um að hún ætti að vinna að forgangstillögum sem yrðu þá upp á þessa 1,2 milljarða. Ég vil í þessu samhengi spyrja hæstv. iðnrh. vegna tillagna nefndarinnar sem okkur verða væntanlega sýndar innan tíðar: Ber að skilja það svo að hæstv. ráðherra hafi falið nefndinni að vinna að forgangsröðun og tillögugerð um að þrífasa til þeirra sem þurfa á því að halda núna? Er hæstv. ráðherra þá fallin frá því, eða hæstv. ríkisstjórn, að stefna að því að þrífasa allt landsnetið í dreifbýlinu?

Þetta eru mikilvægar spurningar vegna þess að framþróun dreifbýlisins getur byggst á því að allt landsnetið sé þrífasað.