Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:00:32 (6148)

2002-03-13 15:00:32# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:00]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka þessa fyrirspurn og þau svör sem við fengum við henni. Hér höfum við dæmi um nefnd sem skilar niðurstöðum, af því að við vorum að ræða um nefndir áðan sem ekki skiluðu niðurstöðum, en hér er órækt vitni um það að nefndir geta skilað góðum niðurstöðum. Um er að ræða mjög brýnt hagsmunamál fyrir landsbyggðina, fyrir iðnrekstur á landsbyggðinni, fyrir landbúnað og margt fleira.

Þess eru dæmi að bændur hafa greitt sérstaklega fyrir þrífösun og það verður að gæta að því að ekki verði um mismunun að ræða í þessum efnum, að sumir greiði og aðrir ekki. Auðvitað er líka um heilmiklar fjárhæðir að ræða. Þess vegna er mjög brýnt að forgangsraða og einnig að þar sem línur liggja og búið er að þrífasa og stutt í næstu býli, að menn þurfi ekki að bíða lengi eftir því að fá þriggja fasa rafmagn á bændabýli hér á landi.