Þriggja fasa rafmagn

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 15:05:22 (6152)

2002-03-13 15:05:22# 127. lþ. 97.3 fundur 423. mál: #A þriggja fasa rafmagn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur vakið máls á. Það eru tvö atriði sem ég vildi koma inn á sem ekki hafa verið nefnd í umræðunni fyrir utan þrífösunina sem er auðvitað afskaplega mikilvæg eins og við vitum fyrir landsbyggðina, en það eru gæði rafmagns. Það eru orð sem við erum kannski ekki vön að tala um, þ.e. gæði rafmagns, en þá á ég við að það er afskaplega mikilvægt að spenna sé með þeim hætti sem hún á að vera. En því miður er brotalöm í því að spennan sé eins og hún á að vera samkvæmt stöðlum. Það getur farið afskaplega illa með tæki og búnað ef spenna er ekki í lagi.

Annað mál sem ég vildi aðeins koma inn á og það er varðandi afhendingu til Rariks frá byggðalínu. Á Suðurlandi háttar þannig til að þar er byggðalínan við virkjanir en kaupendur raforku á Suðurlandi þurfa í mörgum tilfellum að taka á sig tapið sem verður frá virkjunum til afhendingarstaða þar sem byggðalínan er svo langt frá kaupstöðum á Suðurlandi.