Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:38:57 (6219)

2002-03-19 13:38:57# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Afgreiðsla þessa máls er með endemum. Það er skömm að því fyrir Alþingi að það skuli nú endurtaka afgreiðsluna frá því í Fljótsdalsvirkjun sálugu við lok ársins 1999. Málin hafa bæði verið þvinguð í gegnum þingnefndir og þingmönnum í báðum tilfellum hefur verið neitað um að hitta fulltrúa Norsk Hydro sem halda á örlagakortum í málinu.

Herra forseti. Ég fullyrði að formaður iðnn. hefur komið í veg fyrir eðlilegt samtal gesta nefndarinnar og nefndarmanna með því að boða hóp gesta fyrir nefndina á sama tíma og gestir hafa jafnvel vegist á í orðum eins og á málfundi. Sú sem hér talar gagnrýndi líka vinnubrögð umhvrn. þar sem meiri hlutinn sýndi engan áhuga á því að fara ítarlega ofan í málið. Þannig sá meiri hluti umhvn. ekki einu sinni ástæðu til að skoða skýrslu sem samin var af sérstökum hópi skipuðum af verkefnisstjórn rammaáætlunarinnar um gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð né heldur skýrslu Þjóðhagsstofnunar um efnahagslega þýðingu þjóðgarðs á svæðinu. Einungis voru kallaðir þrír aðilar fyrir umhvn. og svo sem ekkert gert með álit þeirra í umsögn meiri hluta umhvn. til iðnn.

Svo tekur steininn úr, herra forseti, þegar virðist stefna í að málið verði tekið fyrir og afgreitt á Alþingi meðan sá orðrómur fer fjöllunum hærra að Norsk Hydro vilji fresta byggingu álvers í Reyðarfirði. Vinsti hreyfingin -- grænt framboð gerir kröfu um að málið verði ekki tekið á dagskrá Alþingis fyrr en ljóst er hvort af byggingu álvers í Reyðarfirði verður eða ekki. Það er algerlega óásættanlegt að hér skuli eiga að samþykkja heimild til iðnrh. til að veita starfsleyfi fyrir stærstu virkjun sem komið hefur á teikniborð íslenskra verkfræðinga, til þess að Landsvirkjun geti vaðið upp á hálendið og rifið það í sig með gröfukjöftum og ýtutönnum, áður en vitað er hvort Norsk Hydro eða íslenskir lífeyrissjóðir ætli að fjármagna álverksmiðju á Reyðarfirði. Getur hæstv. ríkisstjórn svarað því hvort frétt Morgunblaðsins frá því á föstudaginn er rétt? Er það rétt að Norsk Hydro vilji fresta framkvæmdum við álver (Forseti hringir.) og er það rétt að Norsk Hydro sé ekki tilbúið til að semja um nýja tímaramma? Við eigum rétt á þessum (Forseti hringir.) svörum.