Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:45:09 (6243)

2002-03-19 15:45:09# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hóf mál sitt á því að segja að það væri óvenjulegt að vera að ræða á Alþingi um laun stjórnar í hlutafélagi. Það lá í orðunum að þinginu kæmi þetta nú ekki mikið við. Þetta er andinn. Þetta er hugarfarið sem hefur einkennt þetta frá byrjun, að um leið og búið sé að háeffa fyrirtækin þá bara eigi menn þau bara sjálfir og geri það sem þeim sýnist. Og þeir hafa svo sannarlega gert það sem þeim sýnist í Landssímanum, herrarnir, síðan þeir háeffuðu hann.

Herra forseti. Þetta er eins og þyrnikóróna ofan á þetta hroðalega smíðisverk, þetta síðasta afrek að tvöfalda laun stjórnar Landssímans og setja stjórnarformanninn, þá mætu manneskju, á nokkurn veginn þingfararkaup fyrir að sinna því í hjáverkum að stjórna þessu fyrirtæki. Öryrkjar og aldraðir sem búa einir í þessu landi og hafa ekki aðrar tekjur er ætlað að draga fram lífið af 75--80 þús. kr. á mánuði og af því borga þeir skatta. Fjórföld slík laun fær stjórnarformaðurinn fyrir að gera þetta viðvik í hjáverkum. Þetta sýnir hugarfar, viðhorf til lífskjara og launamunar í þessu landi sem ég hvet þjóðina til að taka eftir.

Það verður að spyrja að því, herra forseti, og fá svör, ekki undanbrögð: Verða laun annarra stjórna, nefnda og ráða endurskoðuð með sama hætti? Var þetta gert með samþykki forsrh. sem taldi fyrir nokkrum vikum að þær 150--180 þús. kr. sem þá voru greiddar væru rífleg þóknun til stjórnarformannsins? Svo sagði ráðherra að verkefni stjórnarinnar væru svo vandasöm og að einkavæða ætti fyrirtækið. Ég heyrði formann stjórnarinnar, hinn nýskipaða, segja: ,,Það er okkur óviðkomandi. Það eru aðrir sem gera það.`` Þarna er einhver misskilningur á ferðinni. En kostulegastur var nú rökstuðningur ráðherrans um að kostnaðurinn mundi lækka vegna þess að góðráðin hans Friðriks hefðu verið svo dýr. Er hér búið að finna upp einhvers konar nýja öfuga eftirmannareglu?