Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:51:48 (6246)

2002-03-19 15:51:48# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Sú ákvörðun að selja Landssímann ef ásættanlegt tilboð fæst frá kjölfestufjárfesti stendur enn þó svo að hún hafi verið lögð á ís um tíma vegna þeirra hremminga sem fyrrverandi stjórn Símans gekk í gegnum. Laun fyrrverandi stjórnar þóttu mörgum launamönnum vera ásættanleg, sérstaklega með tilliti til þess að öll sérfræðivinna og ráðgjöf var aðkeypt. Fyrrverandi stjórn var auk þess haldið til hliðar við mikilvægar ákvarðanatökur og gat því ekki uppfyllt tilskilda stjórnarábyrgð.

Herra forseti. Engum kom á óvart að skipt yrði um fulltrúa í stjórn Landssímans við þessar aðstæður. En ég leyfi mér að fullyrða að sú ákvörðun að hækka laun stjórnar um meira en helming, þ.e. laun stjórnarmanna úr 65 þús. í 150 þús. kr. á mánuði og laun stjórnarformanns úr 150 þús. í 300 þús. kr. á mánuði, hefur vakið furðu og hneykslun hjá þjóðinni.

Frá því um áramót hefur staðið yfir barátta launþegasamtakanna og ríkisstjórnarinnar, fyrirtækja og sveitarfélaga í landinu, við að halda verðbólgu undir rauða strikinu svokallaða svo við missum ekki efnahagslífið úr böndum. En, herra forseti, eru laun stjórnar Landssíma Íslands ekki ísköld gusa framan í allt það fólk sem hefur lægra kaup en laun hvers stjórnarmanns, fólk sem leggur á sig töluverða vinnu og erfiði við að leggja sitt af mörkum til að halda þeim stöðugleika í efnahagslífinu sem þjóðarbúinu er nauðsynlegur? Hvaða skilaboð eru þetta til annarra stjórnarmanna í mikilvægum opinberum stofnunum, t.d. Landspítala -- háskólasjúkrahúsi? Eru stjórnir þessara stofnana ekki að sinna sínum störfum? Ber þeim ekki að fá sömu eða sambærileg laun og stjórnarmenn í Landssíma Íslands?

Herra forseti. Það hefur ekki komið nægilega skýrt fram hvort nýja stjórnin eigi að sinna frekari stjórnunarskyldu en fyrri stjórnir eða hvort stjórnarmenn eigi að leggja til sérfræðivinnu án sérstakrar þóknunar.