Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:58:49 (6249)

2002-03-19 15:58:49# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort þessi síðasta ræða málshefjanda var hugsuð sem sérstakt ákall um hækkanir hjá stjórnum og ráðum á vegum ríkisins. Hana mátti skilja sem svo að hv. þm. teldi það afar nauðsynlegt og tíundaði hann nokkur fyrirtæki m.a. eða stofnanir sem þyrfti að líta sérstaklega til og vakti athygli á því að þar sætu hv. þm. í stjórnum. Málflutningurinn er nú afar sérkennilegur vægast sagt.

Ég tek undir með hv. þm. að Síminn hefur staðið sig afskaplega vel í þjónustuhlutverki sínu. Verðlag á símþjónustu er með því allra lægsta sem við þekkjum. Þess vegna taldi ég m.a. afar mikilvægt að velja öflugt og gott fólk til þess að takast á við það erfiða umhverfi sem við að sjálfsögðu við stöndum frammi fyrir hjá þessu fyrirtæki. Það er ekkert einfalt. Það er komin samkeppni og við verðum að reikna með því að svo verði áfram og að hún vaxi.

Ég sagði hér að það þyrfti að bæta ímynd Landssímans. Ég vænti þess að það komi ekki neinum á óvart þó ég nefni það. Það hefur ekki verið svo lítið rætt um þetta fyrirtæki hér og stjórnarandstaðan hefur reynt draga upp dökka mynd í kringum fyrirtækið, dökka mynd. (JB: Ekki á starfsmenn eða þjónustu hans.) Hv. þm. getur gert tilraun til þess að draga í land með það. Viðvik í hjáverkum, kallaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verkefni stjórnarformanns Símans.

Ég er mjög undrandi á svo alvarlegum ummælum um mikilvæg verkefni stjórnarformanns þessa fyrirtækis. Viðvik í hjáverkum! Ég lít svo á að verkefni stjórnarformanns Símans sé afar mikilvægt og ég tel eðlilegt að greiða vel fyrir þau störf sem þar eru (Forseti hringir.) og verða unnin. (Gripið fram í.) Hv. þm. getur ekki kallað hér fram í og ætlast til þess að ég svari þegar komið er rautt ljós. En ég heyri á öllu að hv. þm. stjórnarandstöðunnar, m.a. Vinstri grænna, hafa ekki mjög góðan málstað (Forseti hringir.) að verja þegar þeir reyna að gera tortryggilegt að við höfum kallað til gott fólk til þess að veita forustu þessu stóra og öfluga fyrirtæki okkar Íslendinga.