Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 18:53:01 (6293)

2002-03-19 18:53:01# 127. lþ. 99.11 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að ráði, aðeins bæta við nokkrum orðum.

Mér rennur blóðið til skyldunnar þegar hér kemur á dagskrá till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi eins og fleiri hv. þm. Ég held að ég hafi orðið fyrstur til að hreyfa hér á Alþingi í formi þáltill. þeirri hugmynd að gerð yrði umferðaröryggisáætlun eða framkvæmdaáætlun um umferðaröryggismál. Ég hafði þá kynnst á hinum Norðurlöndunum hvernig þar var að verki staðið.

Síðan hefndist mér auðvitað fyrir með því að ég var settur í fyrstu nefndina sem vann tillögur eða lagði drög að fyrstu áætluninni og hef því reynt að fylgjast með því hvernig síðan hefur til tekist og fram hefur undið. Það verður að segjast eins og er, að sumpart hef ég orðið fyrir vonbrigðum og sumpart ekki. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. dómsmrh. og greinargerð tillögunnar að nokkur árangur hefur náðst í því að fækka eða a.m.k. halda í horfinu alvarlegum slysum. Að því var líka stefnt. Markmiðin voru í byrjun og hafa síðan verið að ná fram verulegri fækkun alvarlegra umferðarslysa. Segja má að með tilliti til þess hversu mikið umferðin hefur aukist og þyngst sjáist þar nokkur árangur en á hitt verður líka að horfa að á einu sviði hefur þessi árangur alls ekki náðst, nema síður sé. Banaslysum hefur ekki fækkað. Þeim hefur þvert á móti fjölgað. Það hafa komið slæm ár, t.d. síðast og ekki byrjar þetta ár gæfulega. Þegar það er skoðað þá er eiginlega erfitt að horfa fram hjá því að um tölfræðilega marktæka aukningu er þar að ræða, a.m.k. alls ekki fækkun.

Það kann að vera að þessu valdi tilteknar breytingar sem menn velta fyrir sér í umferðinni, að bættur öryggisbúnaður, aukin notkun öryggisbelta og púða valdi því að dregur úr alvarlegri skaða í fleiri slysum. Eftir standa þó þau sem við hljótum að telja alvarlegust af öllum þar sem mannslíf beinlínis tapast. Þar verður að taka verulega á. Ég hef ekki skoðað nýlega tölfræðina um samsetningu þeirra sem í þessum slysum lenda en sú var tíðin að ég gerði það og fylgdist með því nokkur ár í röð. Þá stóð náttúrlega upp úr og æpti á hin háa tíðni yngstu ökumannanna, 17 og 18 ára ökumanna sem lentu í slysum. Þannig er, herra forseti, svo sannarlega verk að vinna.

Ég gagnrýni það ekki í sjálfu sér að menn setji sér háleit markmið þótt vissulega hrökkvi maður við að sjá þessa tölu, um 40% fækkun alvarlegra umferðarslysa miðað við fjölda slysa nú eða á síðasta ári og þar síðasta. Þarna er þó um að ræða 10 eða 11 ára tímabil. Ég gagnrýni það ekki að menn setji sér háleit markmið en hitt er jafnljóst að menn verða þá að leggja til grundvallar slíku aðgerðir. Það verður að gefa þessum áætlunum inntak og láta fylgja þeim fjármuni og aðgerðir sem geri það trúverðugt að menn séu í alvöru að reyna að ná þessum markmiðum, ella er sú hætta fyrir hendi að menn hætti að taka mark á því sem sett er niður á blað með þessum hætti. Ef það verkar svo fjarlægt og langt frá því að geta náðst, og skorti jafnvel á trúverðugleikann hvað það snertir að menn séu virkilega að reyna að vinna að þessum markmiðum, má efast um gildi og skynsemi þess að setja svona markmið fram.

Þessa fyrirvara, herra forseti, held ég að ég hljóti að verða að slá þegar ég sé þessa háu tölu birtast hér meðan ekki er beinlínis tekið á neinu með markvissum hætti, þ.e. í formi þess að leggja til aukna fjármuni og taka betur á í sambandi við umferðarmannvirki þar sem slys verða, t.d. að gera sérstaka áætlun um að útrýma einbreiðum brúm á helstu þjóðvegum, aðgerða til að halda niðri hraða með aukinni gæslu o.s.frv. Að öðrum kosti leita þessar efasemdir á mann og ég verð að segja að það hefði að mörgu leyti verið æskilegt að þessu hefði fylgt beinhörð framkvæmdaáætlun, tímasett og með fjárhagslegan bakgrunn sem hefði falið í sér úrbætur af þessu tagi, beinar aðgerðir á þessum sviðum þar sem menn binda helst vonir við að ná megi árangri í að fækka slysum. Ég held líka að fræðslan, ökukennsla, þjálfun og annað í þeim dúr verði að fylgja með. Þá hluti verður að taka mjög föstum tökum.

Kostirnir við það, herra forseti, að vinna samkvæmt svona stefnumótun og áætlunum og setja sér markmið eru m.a. þeir að menn fylgjast stöðugt með, eru stanslaust minntir á og eru stanslaust að mæla sig við markmiðin og hvernig það gengur. Það hefur gildi í sjálfu sér að menn slái aldrei slöku við og umferðaröryggismálin séu alltaf á dagskrá. Það er nákvæmlega eins með þau og mörg önnur sambærileg verkefni sem í eðli sínu eru forvarnatengd með vissum hætti, að þau þurfa stöðugt að vera á dagskrá og mega aldrei gleymast. Ég tel auðvitað kostina miklu meiri en gallana við að vinna að málum með þessum hætti.

Þessar athugasemdir, herra forseti, ætla ég að láta nægja af minni hálfu að svo stöddu.