Lyf sem falla út af sérlyfjaskrá

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:29:07 (6308)

2002-03-20 14:29:07# 127. lþ. 101.3 fundur 447. mál: #A lyf sem falla út af sérlyfjaskrá# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr hvort ég hafi í hyggju að grípa til aðgerða vegna þess viðbótarkostnaðar sem leggst á lyf sem fallið hafa út af sérlyfjaskrá en eru áfram í notkun. Ýmsar ástæður hafa orðið þess valdandi á undanförnum árum að þekkt gömul og rótgróin lyf, innlend sem erlend, hafa verið tekin af markaði. Ýmist er það vegna þess að innlendi markaðurinn er lítill, framlegð af sölu lyfjanna er lítil sem engin eða að framleiðendur þeirra hráefna sem notuð hafa verið til framleiðslunnar hafa hætt framleiðslu þeirra.

Ráðuneytið hefur lýst sig fúst til að koma til móts við innlenda framleiðendur eftir því sem unnt er til að halda umræddum lyfjum á markaði án þess að dregið verði úr þeim kröfum sem til lyfja eru gerðar. Á meðan þessi mál eru ekki til lykta leidd hafa verið veittar undanþágur á heimild til innflutnings á þessum lyfjum. Slíkt leiðir til hærri kostnaðar en erlendir framleiðendur þessara lyfja hafa hvorki léð máls á markaðssetningu þeirra hérlendis né samstarfi við innlenda framleiðendur sökum smæðar markaðarins og þess kostnaðar sem því fylgir að sækja um markaðsleyfi fyrir lyf.

Ýmsir aðilar hafa vakið athygli ráðuneytisins á þessu máli og við höfum í heilbr.- og trmrn. unnið að lausn þess í samstarfi ráðuneytisins og Lyfjastofnunar. Hv. fyrirspyrjandi tilgreindi nokkur lyf í ræðu sinni og minnist á þau í fyrirspurninni í þessu sambandi.

Við viljum vinna að lausn þessa máls í samstarfi við Lyfjastofnun eins og ég sagði áður.