Skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 14:58:31 (6320)

2002-03-20 14:58:31# 127. lþ. 101.6 fundur 542. mál: #A skýrslur rannsóknarnefndar sjóslysa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er nauðsynleg og gagnleg. Varðandi það hvers vegna dregist hafi að koma skýrslunum út liggur það alveg fyrir að vinnu við skýrslurnar og frágangi var ekki lokið. Það er skýringin. Við höfum lagt á það áherslu, eins og fram kom í svari mínu áðan, að ljúka þessu. Þetta er sem sagt alveg á næsta leiti þannig að það eru engar aðrar skýringar á því.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við nýtum okkur upplýsingatæknina í sambandi við slíkar skýrslur. Hins vegar viljum við hafa bók í hönd þegar við lesum svona langt efni og mikið þannig að ekki verður undan því vikist að prenta skýrslur rannsóknarnefndarinnar. Með því að hafa rafræna útgáfu eru samt möguleikar á því að skýrslurnar birtist um leið og þær eru tilbúnar þannig að hvert eitt slys sem fjallað er um af hálfu nefndarinnar getur þá birst á heimasíðu um leið og þeirri vinnu er lokið og ekki er þörf á að bíða eftir því að öll skýrslan sé frágengin og prentuð. En auðvitað kemur síðan að því að útgáfan sér dagsins ljós.

Ég held að þetta horfi til mikilla bóta, og þeir ágætu starfsmenn sem nú hafa tekið þarna við störfum leggja sig fram um að sinna þessu eins og á að vera.