Aukið lögreglueftirlit

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:36:54 (6334)

2002-03-20 15:36:54# 127. lþ. 101.9 fundur 557. mál: #A aukið lögreglueftirlit# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég bið hv. þm. að kynna sér betur svarið sem ég flutti áðan. Ég verð að segja að hv. þm. hlýtur að átta sig á því að það þarf að byggja slíka stefnumótun á ákveðnum tölfræðilegum upplýsingum, þróun á fjölda afbrota, fjölda íbúa o.s.frv. Ég þekki ekki þessar frásagnir hv. þm. úr hennar kjördæmi, Reykjanesi, um óánægju í sambandi við löggæslu. Þar hefur lögreglan einmitt tekið sig sérstaklega á og verið með umferðarátak í gangi og ég hef ekki orðið vör við annað en að lögreglan væri mjög sýnileg þar. Það hefur ekki farið fram hjá fólki sem hefur fylgst með fréttum að undanförnu að lögreglan hefur náð mjög góðum árangri í störfum sínum. Þar má m.a. nefna viðamiklar rannsóknir erfiðra mála eins og manndrápsmála og það er mat mitt að lögreglan sé mjög vel í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem henni ber að sinna lögum samkvæmt.

Það breytir því ekki að við þurfum stöðugt að fylgjast með því og vera við því búin að bregðast við ef nýjar ógnir birtast eða þörf fyrir aukna löggæslu skapast.

Í þessu sambandi má líka nefna að á síðasta ári var gerð umfangsmikil skoðanakönnun um viðhorf almennings til lögreglunnar í Reykjavík. Kom þá fram að meiri hluti íbúa í Reykjavík er ánægður með þjónustu lögreglunnar í því hverfi sem þeir búa, og viðhorfið sem fram kom til lögreglunnar í könnuninni var almennt jákvætt. Lögreglustjórar og lögreglumenn standa frammi fyrir því á hverjum degi að þurfa að bregðast við breyttum aðstæðum og skipuleggja löggæslu í samræmi við nýjustu upplýsingar. Þeir leita ýmissa leiða, auk þess að sinna hefðbundnu lögreglueftirliti, til að takast á við vandamál sem skapast í íbúðahverfum. Má þar nefna samstarf við bæjaryfirvöld en lögreglan í Garðabæ tók upp nána samvinnu við bæjaryfirvöld til að takast á við tiltekin unglingavandamál sem þar komu upp fyrir nokkru. Náin samvinna er á öðrum sviðum og er einnig í undirbúningi milli bæjaryfirvalda og lögreglunnar í Garðabæ. Það er því óhætt að undirstrika það sem ég sagði áðan að lögreglustjórar og lögreglumenn eru sífellt að bregðast við því þegar aukin þörf skapast á lögreglueftirliti. Þeir sinna þar með skyldu sinni samkvæmt lögum og standa sig ákaflega vel í sínum erfiðu störfum.