Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:44:26 (6346)

2002-03-21 10:44:26# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er sjálfsagt mál að auglýsa heimasíðu hæstv. ráðherra og mér er það ljúft og skylt. En það er rétt að menn hafi í huga að sú Valgerður sem stendur að heimasíðunni valgerdur.is er jafnframt Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. iðn.- og viðskrh. og þar sameinast í einni og sömu manneskjunni þetta allt saman. Þar af leiðandi er það sem hæstv. ráðherra setur með þessum hætti á heimasíðu sína opinber yfirlýsing, opinbert mál, það fer ekki hjá því.

Athyglisvert er að hæstv. ráðherra fer jafnhörðum orðum og raun ber vitni um vaxtaokur bankanna, að vaxtaokrið sé að sliga heimili og atvinnulíf, en þetta er ráðherra bankamála sem þarna talar og meira en það, þetta er sá ráðherra sem fer með eignarhlut ríkisins sem á meiri hluta í tveimur af þremur stærstu bönkum þjóðarinnar. Er þá ekki hæstv. ráðherra farinn að höggva dálítið nærri sjálfum sér að gefa út yfirlýsingu af þessu tagi um að það sé hvorki meira né minna að gerast en það að vaxtaokrið sé að sliga heimili og atvinnulíf? Það er nokkuð mikið sagt, er það ekki?

Varðandi gengið vekur það auðvitað sérstaka athygli að viðskrh. þjóðarinnar fer fram og til baka yfir það hversu mikil vandamál því séu samfara að vera með krónuna, hvað hún sé veik og hvað það sé erfitt en minnist ekki einu einasta orði á að það geti haft kosti að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og þau hagstjórnartæki sem honum tengjast til þess að mæta sveiflum í atvinnulífinu, til þess að tryggja hér fulla atvinnu á tímum niðursveiflu í hagkerfinu o.s.frv. Auðvitað hefur hvort tveggja bæði kosti og galla, það er ljóst. En mér finnst það sérkennilegt að hæstv. iðnrh. skuli með yfirlýsingum af þessu tagi auðvitað veikja tiltrú manna á gjaldmiðlinum því að það er óhjákvæmileg afleiðing af tali af þessu tagi þegar ráðherra á í hlut.