Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:52:49 (6350)

2002-03-21 10:52:49# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:52]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég held að við gerum öll þá kröfu til hæstv. viðskrh., þó hún heiti nú því ágæta nafni Valgerður, að persóna hennar verði ekki slitin frá embætti hennar. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi neinn áhuga á því að vera tvær persónur.

Það er í sjálfu sér alvarlegt mál þegar hæstv. viðskrh. í ríkisstjórn kemur með yfirlýsingar varðandi stöðu krónunnar sem geta veikt hana. Hæstv. ráðherra segir í vefgrein sinni, með leyfi forseta:

,,Vægi gjaldmiðils er spurning um öryggi og traust.``

Hverjir gefa gjaldmiðli öryggi og traust? Er það ekki m.a. ríkisstjórnin? Ólíkt hafast menn að. Hæstv. forsrh. hefur æ ofan í æ verið að tala kjark í íslensku krónuna og hefur sumum fundist hann gera það um of, að hann setti upp sólgleraugu. En það er þó virðingarvert að hann hefur staðið vörð um krónuna. Því ef við tökum upp evru, missum við stjórn á okkar eigin krónu. Eina stjórntækið sem við höfum varðandi efnahagslífið verður þá atvinnan og atvinnuleysið.

Virðulegi forseti. Mér sýnist að hæstv. forsrh. eigi að athuga hvar hans tímasprengja er. Ég lít svo á og sýnist á öllu að hin tifandi tímasprengja ríkisstjórnarinnar sé evran og hæstv. viðskrh.