Pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:54:53 (6351)

2002-03-21 10:54:53# 127. lþ. 102.91 fundur 417#B pistill á heimasíðu viðskiptaráðherra# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:54]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég skildi ekki alveg orð síðasta ræðumanns um að sú sem hér stendur sé tifandi tímasprengja. (JB: Ríkisstjórnarinnar.) Ríkisstjórnarinnar, nú já.

Í sambandi við þessa umræðu þá er það þannig með mig að ég tala ekki af mikilli tilfinningasemi um þetta mál. Mér finnst þetta bara mál sem þarf að ræða, praktískt mál um hvernig hagsmunum okkar Íslendinga verði best borgið til lengri tíma litið. Þá kemur alveg til greina að mínu mati að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Við útilokum það ekki fyrir fram. Það þarf bara að fara í þessa vinnu og við þurfum að átta okkur á því hvernig okkar hagsmunum er best borgið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við tökum ekki upp evru nema að ganga í Evrópusambandið.

Þegar ég skrifa þennan leiðara að loknu iðnþingi er ég er auðvitað fyrst og fremst að hugsa um atvinnulífið, um iðnaðinn. Hvernig getum við skapað þær aðstæður á Íslandi að íslenskur iðnaður sé samkeppnishæfur við iðnað annarra þjóða sem við erum í samkeppni við á hinum innri markaði? Þetta er ekkert flókið mál. Mér finnst þeir sem útiloka fyrir fram að eitt af því sem við þurfum að skoða sé aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru horfi ekki af nógu mikilli víðsýni á málið. (Gripið fram í.) Ég trúi því að málshefjandi, sem var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, vilji ekki útiloka aðild að Evrópusambandinu. Ég trúi því alveg að hann vilji það ekki. Spurningin er bara um hvernig menn tala. Ég er einhvern veginn þannig gerð að ég tala bara beint út. Það geri ég sérstaklega á heimasíðunni minni og fæ dálitla útrás þar.

Um Íbúðalánasjóð vil ég segja við hv. 1. þm. Norðurl. e. að hann heyrir ekki undir iðn.- og viðskrn. Þar af leiðandi er ég ekki með miklar yfirlýsingar um það á þessu stigi málsins en allt er breytingum undirorpið.