Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 10:57:11 (6352)

2002-03-21 10:57:11# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér hafur farið fram afskaplega mikilvæg og góð pólitísk umræða um heimasíðu hæstv. iðnrh., um krónur, evrur, vexti og þar fram eftir götunum undir liðnum störf þingsins. Ég varð ekki var við að í neinni af þessum ræðum væri verið að fjalla um störf þingsins heldur var þetta nánast eins og utandagskrárumræða.

Þetta var ágæt pólitísk umræða en ég vil af þessu tilefni, herra forseti, beina því til sitjandi forseta að hann taki það upp, m.a. við fyrsta forseta þingsins og forsn., að í þeirri ágætu nefnd verði fjallað um störf þingsins og fundarstjórn þingsins.

Ég hvet til þess að pólitísk umræða fari fram en þá undir réttum formerkjum og undir réttum liðum. Hér var ekki umræða um störf þingsins heldur ágæt pólitísk umræða. Ég beini því til hæstv. forseta að slík umræða fari fram undir réttum formerkjum.