Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:35:17 (6388)

2002-03-21 13:35:17# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Strax í upphafi vegna þessara síðustu orða þar sem hv. þm. vitnaði í Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann. Orð hans verða ekki tekin úr samhengi, hann var að svara dylgjum, sem hv. þm. gerði sig sem betur fer ekki sekan um en ýmsir aðrir hafa gert í fjölmiðlum, um að í minnisblaðinu kæmu fram áform ríkisstjórnarinnar um að hvetja til þess að ekki ætti að verða við dómi Hæstaréttar. Þannig hafa sumir óábyrgir menn kynnt þetta minnisblað. Hv. þm. gerði það ekki, sem betur fer, hann fór ekki inn á þá braut, enda ber minnisblaðið það mjög með sér að ekki er verið að leggja nein slík áform til við þessa nefndarmenn. En Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður sagði með þeim orðum sem vitnað var til: Til þess að átta sig á því að þessar dylgjur eru rangar verða menn nú, úr því sem komið er, að lesa þetta minnisblað, ekki fyrr.

Sú var skýringin. En þar sem hv. þm. nefndi ekki sérstaklega efnið, enda óþarfi þar sem eingöngu var verið að velta fyrir sér hvernig hægt væri að bregðast við dóminum og uppfylla hann, að sjálfsögðu, ekkert annað, ætla ég að fara yfir þau atriði sem snúa að því sem hann ræddi sérstaklega, um niðurstöðu upplýsinganefndarinnar, úrskurðarnefndarinnar, og Héraðsdóms --- hv. þm. gleymdi því að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi eins og úrskurðarnefnd um upplýsingamál, tók undir afstöðu forsrn. Það var ekki þessi nefnd eingöngu sem komst að niðurstöðunni. Varðandi þetta minnisblað var ekki um það deilt að það var tekið saman fyrir ríkisstjórnina. Það var gert til að undirbúa umfjöllun hennar um dóm Hæstaréttar um öryrkjamálið svonefnda og taldist því til þeirra gagna sem undanþágu eigi að njóta vegna þess að þar er um gögn ríkisstjórnarinnar að ræða skv. 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Ríkisstjórnin hafði hins vegar á grundvelli þessa minnisblaðs tekið ákvörðun um að skipa nefnd til að fjalla um málið og gera tillögu til sín um hvernig bregðast mætti við dóminum, og sendi nefndinni því blaðið til frekari vinnslu málsins, auðvitað í þágu stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar.

Í máli því sem hér er til umræðu var síðan deilt um það hvort umrædd undanþága hefði við þessa framsendingu minnisblaðsins fallið niður eða hætt að eiga við. Samkvæmt viðteknum skilningi á lögunum sjálfum, bæði hér og annars staðar á Norðurlöndum, getur einungis tvennt orðið til þess að þessi undanþága falli niður, annars vegar að ríkisstjórnin sjálf taki ákvörðun um að veita utanaðkomandi aðgang að þessum gögnum á grundvelli laganna og hins vegar vegna þess að allar undanþágur og takmarkanir á aðgangi að gögnum falli niður að tilteknum tíma liðnum, eins og segir í 8. gr. Hvorugt var hins vegar fyrir hendi í þessu máli.

Ríkisstjórnin hafði þó sýnt þeim trúnaðarmönnum sínum sem völdust í áðurnefndan starfshóp minnisblaðið til að vinna málið frekar í hendur honum svo sem fram hefur komið. Það að gögn sem ríkisstjórnin hefur haft til meðferðar eru send til frekari vinnslu í þágu stjórnarstefnunnar gat hins vegar ekki orðið til þess að áliti ráðuneytisins að umrædd undanþága félli niður, jafnvel þótt hún færi fram í nefnd sem að hluta til væri skipuð öðrum en föstum starfsmönnum Stjórnarráðsins.

Um þetta virtist hins vegar Hæstiréttur hafa búið til nýja reglu eftir miklum krókaleiðum sem er fólgin í því að undanþágan falli jafnframt niður ef ekki er gerður sérstakur áskilnaður um að hún eigi við þegar mál sem ríkisstjórnin hefur haft til umfjöllunar er sent til frekari meðferðar innan stjórnkerfisins sjálfs. Þetta er svona í grófum dráttum sú ályktun sem af dóminum verður dregin þótt ekki sé gott að átta sig á umfangi hennar í öllum atriðum vegna þess hve óljósar og mótsagnakenndar forsendur dómsins eru, og stundum ekki rétt farið með staðreyndir.

Þannig virðist rétturinn í öllum meginatriðum fallast á það markmið undanþágunnar að skapa vinnufrið um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar innan stjórnkerfisins. Á hinn bóginn eyðir hann miklu púðri í að komast að þeirri niðurstöðu að verkefni nefndarinnar hafi ekki verið liður í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og nefndin teljist, eins og þar segir, aðili utan Stjórnarráðsins en ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins sjálfs. Á því virðist niðurstaðan síðan velta, fyrst svo var ekki að mati réttarins og ráðuneytið hafði engan fyrirvara gert um meðferð minnisblaðsins gagnvart slíkum aðila gæti það ekki vænst þess að það nyti áfram verndar gagnvart upplýsingarétti Alþingis.

Um réttaráhrif dómsins sem hv. þm. spurði um sérstaklega verð ég að fá að svara í næstu umræðu því ég er búinn með þann tíma sem mér var ætlaður.