Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:41:54 (6390)

2002-03-21 13:41:54# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Einhvern tíma var sagt: Nú er stand á Goddastöðum. Og mikið lifandis ósköp er sá sem hér stendur feginn því að eiga ekki lengur heima á Goddastöðum. Ég minnist þess nefnilega ekki að hafa séð Sjálfstfl. liggja undir svo stanslausum áföllum eins og verið hefur undanfarnar vikur og mánuði, að standi á honum öll spjót ef svo má segja, og þarflaust er að rifja upp öll þau áföll. Svo ganga þau harðlega í skrokk á mönnum að hinum vígfima formanni Sjálfstfl. bregst nú bogalistin eins og átakanlega má sjá í viðskiptum hans síðustu daga við iðnaðarmenn.

Þegar rifjað er upp eitt stóráfallið eins og aðfarir ríkisstjórnar hæstv. við öryrkja, þessa okkar minnstu bræður, hlýtur það að vera eitt af því sem erfiðlega gengur að fást við í vopnaviðskiptunum. Það mál var eitt ömurlegasta skammarmál sem yfir nokkra ríkisstjórn hefur gengið, og raunar allt saman sjálfskaparvíti en þau eru ekkert betri. Menn ræða síðasta atburð þessa máls, afhendingu hins þekkta minnisblaðs en ég sé ekki hvað það skiptir miklu máli héðan af. Auðvitað var þetta allt samansoðið af þeim spilafélögum, hæstv. forsrh. og hans nánustu, bæði þetta minnisblað og allt það sem út úr þessum afbökuðu vinnubrögðum kom. Kannski má minna á það að á góðum stað stendur: Það sem þér gjörið einum af mínum minnstu bræðum, hafið þér og mér gjört.