Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:44:07 (6391)

2002-03-21 13:44:07# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Dómur Hæstaréttar um hið margfræga minnisblað er mikilvægur af fleiri en einni ástæðu. Í fyrsta lagi lýsir dómurinn örlitið inn á baksvið öryrkjamálsins svonefnda en þar vantar mikið á að atburðir hafi verið upplýstir að fullu. Vonandi á það einhvern tíma eftir að koma fram í dagsljósið allt saman, kannski í ævisögum eða játningum þegar kemur langt inn á þessa öld. Dómurinn er auðvitað í öðru lagi áfellisdómur yfir stjórnvöldum, yfir þeirri ákvörðun ráðuneytisins að neita afhendingu minnisblaðsins. Í þriðja lagi er dómurinn sigur fyrir hið opna upplýsta samfélag, fyrir lýðræðið, fyrir aðhald þings og þjóðar að framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslunni.

Þeir eru sambærilegir og fleiri, atburðirnir sem orðið hafa að undanförnu. Þetta mál er náskylt þeirri ákvörðun forsrn. frá því rétt fyrir jólin að neita Alþingi upplýsingum um ráðstöfun 300 millj. kr. í einkavæðingargæluverkefni. Þá varð reyndar líka sá fáheyrði atburður að forseti þingsins hljóp þeirri ákvörðun forsrn. til varnar en úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði svo fjölmiðli og þar með þjóðinni í vil og sagði: Almenningur á rétt á þessum upplýsingum.

Ég hef margoft á undanförnum árum, herra forseti, lýst áhyggjum yfir því hve miklu grófari tilraunir framkvæmdarvaldsins gerast sífellt, að hafa af þinginu hinn lögvarða og stjórnarskrárbundna rétt til þess að krefjast upplýsinga um opinber mál. Þetta verður allt að skoða í samhengi. Og þessir tveir atburðir á síðustu vikum, úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál og dómur Hæstaréttar ættu að verða öllum hvatning til þess að vanda sig betur í þessum efnum.