Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:46:27 (6392)

2002-03-21 13:46:27# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Mér þykir sérstaklega undarlegt að heyra hv. þingmenn koma hér og herma það upp á hæstv. forsrh. að hann sé eitthvað andsnúinn öryrkjum og lífeyrisþegum og tala um slæma framkomu og þar fram eftir götunum. Ég vil minna á að íslenska velferðarkerfið er í dag sterkara og öflugra en það hefur nokkru sinni verið í Íslandssögunni. Ef við mundum setjast niður og reikna það út hve stór hluti af lífskjörum öryrkja eða lífeyrisþega hefur orðið til í forsætisráðherratíð hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, þá hygg ég að við mundum komast að því að kannski 20--25%, kannski meira, af lífskjörum þessara hópa hafa orðið til á þessum árum sem hann hefur gegnt þessu starfi. (Gripið fram í: Noh!) Og meira en það, öll stjórnarstefnan hefur gengið út á það að skapa forsendur fyrir því að lífskjör í landinu gætu batnað og að velferðarkerfið styrktist í leiðinni. (ÖJ: Þá ertu að tala um skattleysismörkin?) Ég er að tala um lífskjör almennings í landinu og þar með er ég líka að tala um velferðarkerfið, lífskjör öryrkja og aldraðra. Þessi ríkisstjórn hefur framkvæmt hvern stóra áfangann eftir annan í að bæta velferðarkerfið. Menn geta séð það í fjárlögum og ríkisreikningum með því að fletta þeim hér ár eftir ár. Þetta hefur verið mikill sigur fyrir fólkið í landinu.