Minnisblað um öryrkjadóminn

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 13:48:26 (6393)

2002-03-21 13:48:26# 127. lþ. 102.94 fundur 420#B minnisblað um öryrkjadóminn# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala um lífskjör. Ég ætla ekki að tala um öryrkja. Ég ætla að tala um þetta minnisblað og hvað það opinberar okkur.

Það er oft talað um norræna módelið þegar horft er til Norðurlandanna. Þá er átt við lýðræðislega stjórnarhætti, opna stjórnsýslu, réttlátt þjóðfélag, rétt neytenda til upplýsinga, almannaréttinn, félagslega ákvarðanatöku, já, yfirleitt alþýðlega innviði samfélagsins. Þetta eru grunnviðhorf sem endurspeglast í stjórnsýslulögum hinna Norðurlandanna, þessi ríki réttur til að hafa aðgang að opinberum skjölum og fá að vita hvað lagt er til grundvallar ákvörðunum sem varða almenning. Og þetta á að vera svona. Við viljum vera hluti af hinu norræna módeli.

En af hverju erum við öðruvísi, því það erum við? Er ríkisstjórnin hrædd við opna stjórnsýslu? Þarf hún að túlka sín eigin upplýsingalög að vild?

Eitthvað er bogið við það að ríkisstjórnin fær á sig hæstaréttardóm. Nú segir hæstv. forsrh. að forsendur hafi verið óljósar og að Hæstiréttur búi til nýja reglu. Það er umhugsunarefni fyrir okkur hvernig brugðist er við dómum. Það er í raun efni í sérstaka umræðu. Þessi ríkisstjórn þarf að taka sér tak. Ef hún fær á sig úrskurð Samkeppnisstofnunar þá eru helstu viðbrögð þau að breyta lögum um Samkeppnisstofnun. Og fái hún á sig dóm þá er það oftast nær vegna þvergirðingsháttar við að fara að reglum og þá er eitthvað að dómnum.

Herra forseti. Þetta er í raun alvarlegt mál, afskaplega vandræðalegt ferli og fáránleg viðbrögð hvað varðar ríkisstjórnarfundina og ég velti fyrir mér hvort aðrar ákvarðanir hafi verið teknar um að skrá ekki hjá sér upplýsingar.