Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:27:02 (6426)

2002-03-21 16:27:02# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var í fyrsta lagi að vísa til málflutnings þingmanna Samfylkingarinnar varðandi Eyjabakkamálið. Þar lá málið þannig að þar ætlaði framkvæmdarvaldið ekki að fara með framkvæmdina í umhverfismat. En við gerðum um það mjög skarpa kröfu og mörg okkar greiddu atkvæði gegn frv. á þeim forsendum.

Núna liggur það hins vegar fyrir að farið verður með allar þessar framkvæmdir í umhverfismat. Það stendur meira að segja í lagafrv. Ef hv. þm. hefði lesið 2. gr., sem er einmitt um Kröflu, þá stendur þar, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 MW ásamt aðalorkuveitum, enda liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.``

Þetta stendur hér í textanum. Ég veit satt best að segja ekki hvort við getum fengið öllu betri tryggingu þegar þetta er bæði skrifað inn í almenn lög og auk þess áréttað sérstaklega í þeim texta sem við erum að vinna með. Lái mér því hver sem vill þó ég hafi byrjað á að svara hv. þm. þannig að ég skildi ekki alveg spurninguna vegna þess að mér fannst svarið allan tímann hafa legið fyrir í þeim texta sem við erum að vinna með.