Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:52:58 (6432)

2002-03-21 16:52:58# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um ábyrgðarlaust tal sem fór fram hér í gær um kröfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að fresta lagasetningunni þar sem Norsk Hydro er með miklar efasemdir um dagsetningar sem nú eru í gildi.

Herra forseti. Er ekki verið að draga okkur á asnaeyrunum? Er það ekki að láta draga sig á asnaeyrunum að halda áfram með málið eins og ekkert sé? Eigum við ekki að bíða eftir þessari yfirlýsingu og er ekki ábyrgðarfyllri afgreiðsla að heyra yfirlýsinguna áður en við afgreiðum lagasetninguna? Mér finnst réttara að tala um ábyrgðarlaus gönuhlaup en ábyrgðarleysi við að fresta umræðunni.

Ég leyfi mér að taka undir allar efasemdir um arðsemi. Ekkert er í hendi í þessu máli. Það eru spádómar hjá öllum hvað varðar framtíðarverð á áli, markaðssetningu og framleiðslu og uppi eru mjög háværar efasemdarraddir um að þessi framkvæmd muni skila þeim arði sem þarf til að standa undir framkvæmdum, bæði álversins og virkjunarinnar, og ég leyfi mér að taka undir þær raddir.

Hvað varðar mengun frá áliðnaði og hugsanlegri ferðaþjónustu, að af jeppum, flugvélum og umferð sé meiri mengun en af álinu, segi ég að jarðraskið er ekki svo mikið af álverinu, jarðraskið og umhverfisspjöllin eru af virkjununum sem tilheyra álinu.