Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:56:08 (6434)

2002-03-21 16:56:08# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Þuríður Backman (andsvar):

Já, herra forseti. Við þessar aðstæður á að vísa málinu frá að svo komnu máli.

En ég vil aðeins halda áfram með aðra þætti sem komu fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals. Hann talaði um mengun og umhverfisspjöll, sagði að umhverfisspjöllin á hálendi Austurlands væru ekki alvarleg enda tilheyrði þetta svæði ekki Austurlandi. Ja, mér er sem ég sjái svipinn á þeim íbúum sem búa á Norður-Héraði ef þetta svæði verður tekið undan þeirra sveitarfélagi því að sannarlega tilheyrir svæðið Austurlandi.

Svæðið er engin eyðimörk. Því er þveröfugt farið. Það sem á að fylla, þar sem lónið á að koma, eru sannarlega djúp gljúfur. En þar er líka gróið land og mikil víðerni og þeim svæðum á að sökkva. Það mun verða þarna fok úr jökulleir sem breytir þessum grónu svæðum í Kringilsárrana og Vestur-Öræfum í eyðimörk eða örfoka land. Það verður óviðráðanlegt leirfok, og svo er ekki hægt að tala um að græða eigi upp með einhverjum aðferðum. Þær aðferðir eru ekki til. Þar sem núna eru gróin svæði verða að örfoka svæðum.

Þetta er stórt og mikið inngrip í náttúruna. Því viljum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði mótmæla. En ég tek undir áhyggjur og mótmæli hv. þm. Péturs Blöndals varðandi ströndina hér í kringum höfuðborgarsvæðið. Það er búið að skemma hana á mörgum stöðum. Það er búið að fórna fallegum náttúruperlum og ég tek undir að þar hefði átt að vera búið að sporna við fyrir löngu.