Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:23:01 (6440)

2002-03-21 17:23:01# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að ég skyldi ekki vera viðstaddur upphaf þessarar umræðu. Það var einfaldlega vegna þess að ég átti ekki von á því að málið mundi koma á dagskrá í dag. Þegar ég fór út úr þinginu fyrir tæplega klukkustund var verið að ræða fyrsta mál á dagskrá og nú erum við komin í níunda dagskrármál. Þetta gerist auðvitað oft og ég var umsvifalaust látinn vita að málið væri komið á dagskrá og er því mættur til umræðunnar.

Það sem helst virðist vera gagnrýnt við þetta frv. er ekki að það þurfi að hafa eftirlit með eldi nytjastofna sjávar heldur að það eftirlit skuli ekki falið öðru ráðuneyti en því sem að öllu jöfnu fer með nytjastofna sjávar og þau mál er þær tegundir varðar.

Þessi deila er ekki ný. Hún hefur verið í gangi allt frá því að fiskeldi hófst á Íslandi eða við Ísland. Lengst af hefur deilan staðið um það hvort ekki væri rétt að færa eldi vatnafiska, aðallega laxfiska eins og reyndin hefur verið, frá landbrn. og til sjútvrn. vegna þess að eðlilegra væri að hafa eldi og vinnslu og umsýslu með tegundum fiska, hvort sem það væru vatnafiskar eða sjávarfiskar, hvort sem þeir kæmu úr eldi eða væru veiddir, hjá einu og sama ráðuneytinu. Reyndar er það svo að víðast í nágrannalöndum okkar er þessu þannig háttað en þó ekki alls staðar. Deilan um þetta var svo mikil á sínum tíma að meira að segja komu fram tillögur um hvort ekki væri rétt að láta eldi laxfiska heyra undir forsrn. Það varð ekki niðurstaðan. Laxeldið var áfram í landbrn. og eldi nytjastofna sjávar eða sjávarfiska hefur verið í sjútvrn.

Eldi laxfiska og vatnafiska hefur verið umfangsmeira en eldi sjávarfiska. Þar af leiðandi hefur þar verið byggt upp kerfi til að hafa eftirlit með þeirri starfsemi. Ég held að það sé ágætt kerfi þótt ég segi sjálfur frá. Ég kom að því á sínum tíma að byggja upp það kerfi og mestallri minni starfsævi þar til ég tók sæti á Alþingi eyddi ég í að hafa eftirlit með eldi laxfiska á vegum landbrn.

Það að umsýsla með eldi hinna ýmsu tegunda fisks sé í mismunandi ráðuneytum er því ekkert nýtt. Ég hef ekki orðið var við að það hafi að undanförnu verið umdeilt fyrr en núna bara alveg á síðustu dögum eða þá að nokkrum hefði dottið í hug að flytja eldi nytjastofna sjávar yfir í landbrn. Ég held að mjög lítið ef nokkuð hafi borið á þeirri hugmynd í umræðu um þessi málefni á fyrri stigum eða á fyrri árum.

Það sem kallar hins vegar á það núna að frv. sé flutt um eldi nytjastofna sjávar og að gert sé ráð fyrir eftirliti, er að nú eru uppi meiri og stærri hugmyndir um eldi sjávarfiska en áður. Er þar bæði um að ræða eldi lúðu sem mjög góður árangur hefur náðst í á undanförnum árum hjá Fiskeldi Eyjafjarðar og síðan eldi þorsks sem víða hafa verið gerðar tilraunir með að undanförnu og svo ræktun kræklings. Síðan eru tilraunir með eldi hlýra og eldi skeldýra í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Þess vegna varð að ráði að flytja þetta frv. Það var flutt í tengslum við það að á sama tíma var verið að breyta lögum um lax- og silungsveiði sem fjalla um eftirlit með laxfiskum. Til þess að auðvelda og samhæfa þessa starfsemi var gert ráð fyrir því í báðum frv. að fiskeldisnefnd yrði sett á fót til þess að fjalla sameiginlega um ýmsa þá þætti sem snerta þetta eldi sameiginlega. Síðan er hins vegar gert ráð fyrir því að hvort ráðuneytið um sig beri ábyrgð á sínum hluta eldisins eftir tegundum.

Það þýðir hins vegar ekki að koma þurfi upp neinum dýrum aðskildum eftirlitskerfum. Ég held t.d. að það væri algjörlega ástæðulaust fyrir sjútvrn. að koma sér upp sérstökum dýralæknum til að hafa eftirlit með sjúkdómunum. Það ætti að vera hægt að nota þjónustu sömu dýralæknanna til að hafa eftirlit með eldi sjávardýra eins og eldi vatnafiska.

Hins vegar þarf ýmislegt annað eftirlit í þessu sambandi. Það er nú þegar, þ.e. samstarf sem komið var á þegar ég gegndi embætti dýralæknis fisksjúkdóma, samstarf um eftirlit með afurðunum. Fiskistofa hefur eftirlit með afurðum sem koma frá fiskeldi laxfiska í vinnslu og til útflutnings þannig að það samstarf er ekki nýtt.

[17:30]

Síðan kemur þriðji eftirlitsaðilinn inn í þetta, þ.e. Hollustuverndin. Það er samkvæmt algjörlega sjálfstæðum lögum sem ekkert tengjast þessu frv. sérstaklega og því sem almennt á við um atvinnustarfsemi í landinu og byggir þá á því hvernig að málum er staðið vegna umhverfisins og heilnæmis þess er undir Hollustuverndina fellur. Síðan er það sjálfstætt mál sem verið hefur til umræðu í þingsölum og víðar hvernig haga eigi matvælaeftirliti hjá þjóðinni og gæti auðvitað orðið til einföldunar og þæginda fyrir alla ef einhver lausn og niðurstaða fengist í það mál. En það er sjálfstætt mál.

Í stjórnsýslunni eru ekki neinir erfiðleikar, vandamál eða togstreita um þessi eftirlitsmál. Þegar kemur að því að skipuleggja þurfi eftirlitið og það þarf að fara að vera virkt vegna þess að eldi sé að fara af stað í einhverjum þeim mæli að því þurfi að fylgjast vel með, þá mun verða um að ræða starfsemi af þessu leytinu til þótt það heyri undir tvö ráðuneyti vegna þess að um er að ræða mismunandi tegundir fiska sem heyra undir mismunandi ráðuneyti eins og fram hefur komið.

Það mætti hugsa sér að þetta væri öðruvísi. Það mætti hugsa sér að þetta væri allt saman í einu ráðuneyti og það mætti hugsa sér að landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn væru í einu ráðuneyti. Þá væru engin svona vandamál uppi. En hins vegar er líka um það að ræða hjá nágrannaþjóð okkar í Noregi þar sem umfangsmesta fiskeldi er á norðurhveli jarðar, að eftirlit með vatnafiskum og sjávarfiskum er aðskilið, þ.e. eldið heyrir undir mismunandi ráðuneyti. Það sem snýr að veiðum í ám og vötnum heyrir þar ekki undir sjútvrn. þó að eldi í sjó, líka á vatnafiskum, heyri undir sjútvrn. En þá gætu komið upp önnur vandamál hjá okkur ef við færum að breyta því og færa t.d. laxeldi í sjó frá landbrn. til sjútvrn. Þá værum við búin að aftengja þá hluta af eldi vatnafiskanna eða lífsferli vatnafiskanna frá landbrn. sem eftir sem áður bæri ábyrgð á veiðum á laxi í ám og vötnum. Hagsmunir laxeldisins og þeirra sem hafa hagsmuni af veiði á laxi og silungi í ám og vötnum fara ekki alltaf saman. Ég efast um að það væri eitthvað betur til þess fallið að leysa þau hagsmunamál ef laxeldi í sjó væri fært yfir til sjútvrn. Ég held að landbrn. hafi tekist fram til þessa að leysa þau mál ágætlega og því engin sérstök ástæða til að hreyfa við þeim málum þar.

Ég held hins vegar að það væri til mikils óhagræðis ef við færðum eldi á nytjastofnum sjávar, þorski, lúðu, hlýra og kræklingi, þessu hefðbundna sjávarfangi okkar, yfir til landbrn. Ég held að þeir sem í þessari starfsemi standa væru því ekkert sérstaklega hlynntir. Það sem ég hef heyrt reyndar um þessi mál hefur frekar verið á hinn veginn, að réttara væri að færa laxeldi í sjó yfir í sjútvrn. En ég hef hins vegar fært þau rök sem ég hef hér flutt fyrir því að það hafi bæði kosti og galla og að ekki væri víst að þeir gallar sem á því væru og ég nefndi áðan mundu vega upp að einhverju leyti á móti kostunum.

Því held ég að við þær kringumstæður sem við störfum í dag þar sem um þetta er gott samstarf á milli ráðuneytanna sem grundvallast á fiskeldisnefndinni, eftirlitið sé hjá hvoru ráðuneytinu fyrir sig, ráðuneytin síðan gæti þess að nýta þá þekkingu og þá starfsemi sem fyrir er í landinu til að fylgja eftirlitinu eftir, að ekki þurfi að vera nein vandamál í þessu eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur látið liggja að í ræðu sinni. Ég tel því að um óþarfa áhyggjur hjá honum sé að ræða.

En auðvitað er það oft þannig þegar verið er að fjalla um svona mál að einhverjir þeir aðilar sem að þeim starfa telja að sér vegið, að verið sé að taka eitthvað frá þeim, eða þá þeir væru betur til þess fallnir að gera þetta og hitt heldur en aðrir og þeir ættu að bera ábyrgð á því frekar en hinir.

Aðalatriðið er að menn starfi að þessu af heilindum og í samstarfi og finni á þessu réttu og praktískustu lausnina á hverjum tíma. Þá mun þetta koma vel og vandræðalaust út fyrir okkur.