Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:37:40 (6442)

2002-03-21 17:37:40# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig enginn reginmunur á þessu. Ef fylgja ætti þessu eftir til hins ýtrasta væri þess vegna réttast að eldi allra fiska væri í sjútvrn. af því að það er starfsemi sem er miklu líkari innbyrðis en eldi fiska og húsdýrahald á landi, þó það sé auðvitað heldur ekki óskylt. Ég sé hins vegar ekki nein stórkostleg vandkvæði á því og tel jafnvel ákveðið hagræði í því eins og ég lýsti hér áðan að laxeldið eða laxfiskar séu hjá landbrn. eins og helgast af hefðbundnum tengslum bújarða við laxveiðiréttindi og veiðiréttindi almennt í ám og vötnum. Ég lít svo á að eldi nytjastofna sjávar, þeirra stofna sem við veiðum villta, sé jafnframt sjávarútvegur og beri að heyra undir sjútvrn. Ég var eiginlega mjög hissa að sjá nál. hv. þingmanna um að það ætti að vera á einhvern annan veg. Það hafði nánast ekki hvarflað að mér að lagt yrði til af hv. þingmönnum að slík breyting yrði gerð á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins.