Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 17:43:17 (6448)

2002-03-21 17:43:17# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ef menn eru að tala um að eitthvað sé hallærislegt þá er náttúrlega hallærislegt að snúa út úr, því ég hef aldrei sagt að annar hvor þessara tveggja kosta væri eitthvað betri en hinn. Ég hef einfaldlega sagt að þetta væru hvoru tveggja kostir sem gætu vel gengið. En þriðji kosturinn, að færa eldi nytjastofna sjávar til landbrn., er versta niðurstaðan. Ég held að við eigum vel að geta unað við stöðuna eins og hún er í dag og verið er að útfæra í frv. Um hana hefur akkúrat ekki nein togstreita verið í ríkisstjórninni og óþarfi er fyrir okkur á hv. Alþingi að skapa einhverja togstreitu sem ekki er fyrir hendi í Stjórnarráðinu og þaðan af síður að snúa út úr orðum mínum til þess að kynda undir eitthvað sem ekki er fyrir hendi.