Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:22:01 (6461)

2002-03-21 18:22:01# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er í hópi þeirra sem telja að hér sé nokkur vandræðagangur á ferðinni í frágangi á þessu máli, og eiginlega leyfi ég mér að segja að svolítill misskilningur hljóti að vera uppi. Mér fannst t.d. hæstv. sjútvrh. nálgast þetta mál hér áðan út frá því að deilan stæði um það hvort hann væri sjútvrh. Það er engin deila um að hæstv. sjútvrh. er sjútvrh. Þetta snýst ekki um það eða að sjávarkvikindi sem slík í sjónum heyra undir hann.

Mér finnst þetta snúast um það hvort þessi búgrein, þessi atvinnugrein, eldi, á að vera á einum stað í stjórnkerfinu eða ekki og hvort skynsamlegt er að kljúfa það í tvennt. Það held ég að geti skapað ýmis vandamál. Ég held að það væri t.d. ekki gott ef ferðaþjónustan væri þannig meðhöndluð að þegar gert væri út á innlenda ferðamenn heyrði það undir eitt ráðuneyti en útlendir ferðamenn undir annað. Þetta er svipað fyrirkomulag, að hafa mismunandi tegundir í eldi undir ólíkum ráðuneytum.

Ég held því að með því að skilgreina þetta öðruvísi og segja að við séum að leggja lagaramma að atvinnustarfsemi, búgrein í raun og veru, sem ég tel að ætti að vera mundi þessi misskilningur hverfa. Og ég held að margt mæli með því að landbrn. færi með forsvar eldismála sem væru flokkuð í raun og veru sem búgrein eða því sem næst. Þannig er það víða í nágrannalöndunum samanber orðsins hljóðan, ,,opdræt``, það er landbúnaður í raun og veru.

Hins vegar væri ekkert óeðlilegt við að sjútvrn. ætti aðkomu að málinu, t.d. í gegnum það að þegar alin væru sjávardýr í söltu vatni, ég tala nú ekki um úti í sjó, kæmi sjútvrn. að þeim málum. T.d. mætti hugsa sér að leysa þetta með deildaskiptri stjórnsýslu og framkvæmdastofnun sem færi með þessi mál, þau heyrðu undir eitt ráðuneyti en fleiri ráðuneyti gætu átt aðkomu að því máli. Slíkt fyrirkomulag er vel þekkt. Það hefði þann kost í för með sér að málin væru á einni hendi og þeim væri ekki dreift.

Rökin fyrir því að landbrn. kæmi líka þarna að væru jafnframt þau að þar hefur fram undir síðustu ár fyrst og fremst byggst upp þekking á mjög mikilsverðum þáttum þessa máls eins og sjúkdómum og eftirliti með slíku og fleiru. Þau rök sem hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála fór með hér áðan, að Hafrannsóknastofnun og sjútvrn. hafi komið að ákveðnum þróunarverkefnum á þessu sviði, þurfa ekki að þýða að það sé sjálfgefið að málefni atvinnugreinarinnar sem slíkrar, búskaparins, eldisins, heyri undir fleiri en eitt ráðuneyti.

Niðurstaðan virðist vera, eins og hér var lýst áður, hálfgerð hrossakaup stjórnarflokkanna, næstum að segja einhver helmingaskipti þar sem landbrn. fær eldi vatnafiska en sjútvrn. eldi sjávardýra. Birtist hér helmingaskiptareglan í nýrri mynd. Lengi má bæta við fornfræg smíðaverk eins og helmingaskiptareglan er, hún birtist hér allt í einu í spurningunni um forræði í fiskeldismálum.

Mér finnst þarna hafa verið gefið eftir. Ég þekki auðvitað svolítið til þessarar sögu og það er hárrétt að það þróaðist þannig, án þess að nokkurn tíma væri beinlínis á því tekið í lögum, að sjútvrn. leit svo á að undir það heyrði eldi sjávartegunda eða öllu heldur eldi úti í sjó. En þá spyr maður: Ætlar sjútvrn. líka að vera með puttana í eldi sjávartegunda uppi á landi? Ætlar sjútvrn. að vera með puttana í sjávartegundum sem aldar eru í hálfsöltu vatni uppi á landi? Ætlar sjútvrh. að koma og ráðskast í þeim kerjum fiskeldisstöðvar sem verður kannski með lax, bleikju og lúðu þó að það sé langt uppi á landi? Ég held að þetta sé ekki endilega mjög skynsamlegt.

Ég leyfi mér að spyrja t.d. þessa: Eru menn búnir að ákveða að þetta skuli fara alfarið eftir tegundunum, ekki eftir því hvar eldið fer fram? Vel kann að vera að þessi spurning sé óþörf því að það liggi hér einhvers staðar fyrir. Ég játa alveg, herra forseti, að ég hef ekki þaullesið þessi plögg og sat ekki í þeirri nefnd sem um þetta fjallaði. En þessar spurningar vakna a.m.k. hjá mér þegar ég fer að reyna að draga það upp hvernig þetta getur birst okkar úti í hinum praktíska veruleika.

Svo vil ég líka gera eina athugasemd, herra forseti, sem mig minnir að ég hafi gert áður, og það er að mér finnst leiðinlegt að taka til orða eins og gert er í upphafi 2. mgr. 2. gr.: ,,Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður`` o.s.frv. Mér finnst að ekki eigi að gefa orðinu ,,nytjastofn`` mismunandi inntak eftir því í hvaða lögum það orð stendur. Óskaplega er þetta kauðskt. Er ekki hægt að finna þá annað hugtak sem lýsir þessum sjávarstofnum, gróðri og fiskum, þannig að ekki þurfi að --- mér liggur við að segja, með leyfi forseta, klæmast á þessu og segja: ,,Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr`` o.s.frv.? Í einhverjum öðrum lögum þýðir orðið ,,nytjastofnar`` eitthvað annað o.s.frv. Þetta er ekki mjög vandað og ég held að menn hafi ekki legið nógu vel yfir orðalaginu. Það hlýtur að vera hægt að leysa þetta á hinu ástkæra ylhýra máli okkar með snjallari hætti en hér er gert.

Herra forseti. Út af fyrir sig er rétt hjá hæstv. sjútvrh., og það eru rök í málinu, að menn binda vonir við framgang í þessari atvinnugrein, eldi, og að til sögunnar komi eldi sjávartegunda á komandi árum. Vissulega er mikilvægt að svo verði og það takist. Ég er eindregið þeirrar skoðunar t.d. að það sé brýnt fyrir Íslendinga að leggja stóraukinn kraft í eldi á þorski. Ég held að það væri stórhættulegt fyrir Ísland með sjávarútveg sinn og afkomu jafnbundna veiðum á hinum villtu tegundum, þá sérstaklega þorskinum, ef við sætum eftir í því að eldisþorskur komi kannski til sögunnar á næstu 10--20 árum í stórauknum mæli og ryðji sér leið inn á markaðina og taki sér pláss, kannski sambærilegt við laxinn. Þá má það auðvitað ekki gerast að Íslendingar sitji þar algerlega eftir og búi kannski eingöngu við veiðar á villtum þorski sem getur átt eftir að lenda í harðri samkeppni á þessum mörkuðum. Hver veit? Sama mætti segja um fleiri tegundir sjávardýra. Ég er ekki einn um að binda miklar vonir við lúðueldi og jafnvel eldi fleiri flatfiska. Ef mönnum tekst að ná tökum á eldi lúðu, sandhverfu og jafnvel fleiri slíkum verðmætum erfiðum tegundum held ég að það geti orðið gríðarlega spennandi fyrir okkur.

[18:30]

Enn ein steypan og kjaftæðið, herra forseti, sem stundum heyrist að sá stjórnmálaflokkur sem ræðumaður tilheyrir sé á móti öllu fiskeldi. Í örvæntingu sinni lenda framsóknarmenn stundum í þvílíkum ógöngum að þeir hafa reynt að halda slíku fram. Það er sem sagt leiðrétt hér með, herra forseti. Sá misskilningur er hér með úr sögunni. Svo er ekki. Við gerum hins vegar kröfur til þess, að sjálfsögðu, að öll atvinnustarfsemi á þessum sviðum og stórákvarðanir um þauleldi á tegundum uppfylli kröfur um eðlilega umgengni við lífríkið, sæti mati á umhverfisáhrifum o.s.frv. Við teljum að menn verði að fara varlega ef þeir ætla að fara í eldi á framandi tegundum í lífríkinu. Sú stefna okkar er að sjálfsögðu jafneinörð á þessu sviði umhverfismála eins og annars staðar. Ég tel okkur hins vegar ekki lakari stuðningsmenn þess en hverja aðra, einmitt á þessum grunni, að menn sæki fram á álitlegum sviðum nýsköpunar í atvinnulífi að þessu leyti.

Ég verð að segja, úr því að maður er kominn á þetta flug á annað borð, að ég hef miklu meiri trú á að Íslendingar eigi sér bjarta framtíð í eldi verðmætra sjávartegunda og jafnvel eftir atvikum vatnafiska og hlýsjávartegunda en t.d. í laxi þar sem við erum þegar 10--20 árum á eftir. Við töpuðum ósköp einfaldlega þeim slag eða gáfumst upp í honum þegar erfiðleikarnir gengu hér yfir á níunda áratug síðustu aldar og komið var fram um 1990. Þegar þetta hrundi allt saman ofan í hausinn á okkur gáfumst við upp en aðrar þjóðir héldu áfram og sigruðust á erfiðleikunum, t.d. Norðmenn, Færeyingar, Skotar, Írar. Þeir hafa gert þetta að stóratvinnugrein hjá sér. Við eigum þetta forskot upp að vinna á mörkuðunum og í að afskrifa fjárfestingar og að sumu leyti að byggja hér upp þekkingu og færni og þjálfa starfsfólk. Þessar þjóðir hafa gert þetta allt á undan okkur. Ég hlýt að lýsa þessu eins og það kemur mér fyrir sjónir, herra forseti. Ég óska auðvitað þeim mönnum alls góðs sem reyna fyrir sér í þessu en á mig leita efasemdir um að það sé rétt áhersla hjá okkur að ætla að reyna að hella okkur út í keppni við þjóðir sem þegar hafa náð gríðarlegu forskoti, t.d. í laxinum. En við höfum forskot á öðrum sviðum. Það höfum við í lúðunni. Það gæti vel orðið ein af stóriðjum Íslands ef vel tekst til og eldi annarra sjaldgæfra verðmætra tegunda sem koma til með að skila háu verði, a.m.k. framan af. Þeir sem fyrstir verða með þær inn á markaðinn í miklu magni munu njóta upphafsforskotsins, það sýnir reynslan. Það hjálpar til við að afskrifa stofnkostnað, fjárfestingar- og þróunarkostnað.

Ég er mjög spenntur fyrir því að þarna verði sótt fram en þá má heldur ekki, herra forseti, lenda í stjórnsýslulegu klúðri, fánýtum landamæradeilum innan Stjórnarráðsins o.s.frv. Ég játa að ég hef svipaðar efasemdir og þeir sem hér hafa skilað minnihlutanefndaráliti um að að þetta sé ekki endilega heppilegasti kosturinn. Þarna hefði e.t.v. verið betra að skilgreina hlutina öðruvísi og segja: Jú, landbrh. fer með vatnafiskana, sjútvrh. fer með sjávartegundirnar, en búgreinin, atvinnugreinin, eldið á svo líka heima á einum stað. Hún á heima í öðru hvoru ráðuneytinu, segjum landbrn. og þegar búskapurinn snýst um sjávartegundir hefur sjútvrn. aðkomu að málinu.

Ég spyr að því líka: Hafa menn hugleitt, í staðinn fyrir að fela Fiskistofu hér hluta að málinu og landbrn. og einhverjum stofnunum þess aðra hluta, að setja á fót nýja stjórnsýslustofnun, framkvæmdastofnun stjórnvalda, sem fari með eldismálin og eftir atvikum bæði ráðuneytin gætu átt aðkomu að, þó að hún heyri undir annað þeirra? Einhvern veginn svoleiðis hefði ég haft tilhneigingu til þess að reyna að leysa úr þessum málum, herra forseti. Ég verð a.m.k. að segja að ég áskil mér allan rétt til að skoða aðrar útfærslur og aðra möguleika en þá sem hér eru upp dregnir.