Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:38:33 (6464)

2002-03-21 18:38:33# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég man í svipinn ekki eftir tegundum sem geta framleitt kyndblendinga þó að svo geti vel verið. Ég vil leggja áherslu á, um leið og ég þakka hv. þm. fyrir jákvæðan tón í garð fiskeldisins, að það er mjög gott samstarf milli ráðuneytanna og ráðherranna. Þar er full samstaða um að vinna að málinu á þessum grundvelli. Ég sé ekki, eins og málin standa núna, neina knýjandi ástæðu til að breyta þessu frá því sem verið hefur.

Við þurfum að setja ákveðnar reglur til þess að það sé hægt að þróa þorskeldið, eins og hann nefndi í ræðu sinni. Ég hef trú á því að það geti einhvern tíma orðið að verðmætri atvinnugrein fyrir okkur. En það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér og ekki í einu vetfangi. Við verðum að fara varlega eins og alltaf og gera hlutina rétt. Þetta frv. er flutt í þeim tilgangi að sjútvrn. geti einmitt gert hlutina þannig.