Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:39:56 (6465)

2002-03-21 18:39:56# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:39]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um eldi nytjastofna sjávar. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í sjútvn. og lýsti mig andvígan frv. og gæti ekki samþykkt það. Ég er á margan hátt sammála því nál. sem sett var fram af minni hluta nefndarinnar, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, Svanfríði Jónasdóttur og Guðjóni A. Kristjánssyni.

Ég hef aðallega áhyggjur af því í sambandi við frv. að þessi tvískipting, eins og hefur komið fram í ræðum margra hv. þm., sé ákaflega óheppileg til lengri tíma litið. Ég tel að við megum ekki kasta frá okkur þeirri reynslu og þeirri vísindalegu þekkingu sem er inni í landbúnaðargeiranum varðandi allt sem heitir eldi. Mér finnst það mjög mikilvægt og fyrir mína parta mundi ég vilja sjá fyrir mér að allt sem héti eldi, líka á nytjastofnum, heyrði undir og væri skilgreint sem landbúnaður og þá sjávardýrin líka. Við þurfum að samhæfa þetta allt saman og það eru og verða gríðarlega miklir árekstrar á milli aðila hvað varðar staðarval o.s.frv., hagsmunirnir eru svo gríðarlega mismunandi. Veiðiárnar og þeir sem eiga afkomu sína undir þeim hafa allt önnur sjónarmið en þeir sem vilja stunda þennan landbúnað í sjó. Þess vegna held ég að þetta sé mjög mikilvægt.

En það sem ég hef haft kannski mestar áhyggjur af, sem varðar ekki bara þetta mál, er sú tilhneiging okkar hér á hinu háa Alþingi að gera hlutina allt of flókna fyrir þá sem standa í rekstri. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að hafa aðhald, auðvitað eigum við að hafa skilvirkt og gott aðhald, en við megum ekki standa að því að hlutir verði það flóknir að starfsleyfi og þess háttar flækist fyrir mönnum. Þeir sem unnið hafa að fiskeldi --- það vill svo til að fjölskylda mín er í þessari atvinnugrein á fullu norður í Eyjafirði, þ.e. í lúðueldi, einn fjölskyldumeðlimur --- og ég hef talað við leggja mjög mikla áherslu á að það séu klárar og skýrar reglur og ekki þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus. Þeir sem eru í þessu af alvöru gera sér auðvitað grein fyrir því að það þarf að vera aðhald og þarf að sækja um öll rekstrarleyfi.

Þá er ég kominn að því sem veldur mér einna mestum áhyggjum. Það er afleiðing þess sem við höfum verið að samþykkja varðandi eftirlit hér á hinu háa Alþingi, þ.e. kostnaðinum. Það er óforsvaranlegt að við komum upp tvöföldu kerfi sem leiðir til stöðugt aukins kostnaðar á grunnatvinnugreinarnar þannig að menn herpist fjárhagslega árum saman vegna þess að yfirstjórnin er að drepa þá. Við megum hreinlega ekki standa þannig að málum að það sé erfitt og flókið fyrir aðila sem vill standa að fiskeldi í smáum stíl að fara í gegnum þetta kerfi. Við eigum líka að auka til muna ábyrgðina heima fyrir þannig að hægt sé að afgreiða ákveðna þætti þessara mála heima í héraði svo stjórnsýslan verði auðveldari og ramminn um hana skýr.

Virðulegi forseti. Það voru einkum þessi atriði sem ég vildi koma á framfæri. Það er hægt að standa mismunandi að eldi fiska og síðan er spurningin um þauleldi. Auðvitað horfum við björtum augum til framtíðarinnar varðandi ýmiss konar eldi. Það sem maður sér t.d. gerast núna norður í Eyjafirði varðandi kræklingaeldi, þar sem menn gera í sjálfu sér ekki annað en að dýfa niður köðlum og bíða eftir afurðinni, er auðvitað mjög vistvænn búskapur. Það er eðlilegt að við nýtum okkur slíkt og vonandi verður árangurinn af því mjög góður þegar til framtíðar er litið. Þarna eru gríðarlegir möguleikar.

Síðan er ég sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að auðvitað eigum við að einhenda okkur í eldi á þeim tegundum sem okkur hefur tekist vel upp við, t.d. lúðu, þar sem við erum fremstir í heimi, að mér er sagt, við að klekja út lúðu. Það er sorglegt til þess að vita að menn skuli í hastinu einblína á laxinn þegar fyrir liggur að mikið af þeim lúðuseiðum sem klakin eru norður í Eyjafirði eru flutt til annarra landa til áframeldis. Lúðan er tegund úr okkar vistkerfi og auðvitað ættu þeir sem huga að eldi fiska --- ég vil nú bara koma því að í umræðunni --- líta til þess að ala þessar tegundir úr okkar vistkerfi í staðinn fyrir að valda t.d. árekstrum með staðsetningu á stórum laxeldisstöðvum. Það er eiginlega furðulegt að sú staða skuli koma upp.

[18:45]

Auðvitað viljum við öll þróa og þreifa fyrir okkur í þorskeldi. Það er byrjað á Vestfjörðum og það er byrjað norður í Eyjafirði og við eigum að stuðla að því að við náum góðum árangri þar í góðri sátt við vistkerfið allt. Af viðræðum mínum við þá menn sem standa í þessum þreifingum t.d. varðandi þorskeldið þá hef ég í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því að þeir muni ekki vanda til verka vegna þess að þar eru menn sem virkilega láta sér annt um að vel takist til.

Af því að menn hafa talað um fiskeldið okkar eða laxeldið á sínum tíma þá vil ég að það komi fram hér að ég tel að það hafi í sjálfu sér ekki verið þekkingarleysi sem fór með það dæmi allt út um þúfur. Það var einfaldlega hið efnahagslega ástand í landinu sem gerði það, t.d. verðbólga og gríðarlega dýrt fjármagn. Þetta var atvinnugrein sem þurfti á fjármagni að halda með lágum vöxtum og margir hverjir fóru mjög illa út úr viðskiptum sínum við bankakerfið. Auðvitað kom margt til en það einn af stóru þáttunum. Við vitum öll hvernig nýsprotar í atvinnulífinu fóru á þessu árabili. Það voru mjög miklir erfiðleikar og víða fóru menn á hausinn og þá náttúrlega ekki síst í atvinnugreinum þar sem þarf að bíða í marga mánuði eða missiri eftir afurðinni til þess að selja á markaði.

Virðulegi forseti. Ég held að ég þurfi ekki að orðlengja þetta frekar. Það er óheppilegt að hafa mörg ráðuneyti við stjórn sama málaflokks. Ég held að við eigum að einfalda þetta. Ég held að við eigum að byggja á þekkingu innan landbúnaðargeirans. Þar eru vísindamennirnir í þessari grein. Þar er reynslan og þar er hugarfarið gagnvart svona atvinnustarfsemi að hún sé búskapur en ekki veiðiskapur. Ég held að við eigum að notfæra okkur það og þess vegna að skoða þessi mál í nýju ljósi. Og síðan þetta: Það er ákaflega erfitt að sætta sig við flókið kerfi og kostnaðarauka sem e.t.v. mun af þessu skapast. Mjög margir benda einmitt á þann punkt og við þurfum nú síst á því að halda hér í stjórnsýslunni að flækja málin þannig að menn gefist hreinlega upp við að koma á koppinn fyrirtæki sem hugur þeirra stendur til að fara í og þá í þessu tilfelli eldi nytjastofna sjávar.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til þess að skoða málið í nýju ljósi á grunni þeirra umræðna sem hafa farið hér fram. Margir hafa úttalað sig um að í raun þurfi sáralitlar sem engar breytingar á því fyrirkomulagi sem við höfum haft. Ég er þeirrar skoðunar að allt eldi eigi að fara á sömu hendi, líka eldi nytjastofna sjávar hvað þetta varðar. Mér fyndist ekkert óeðlilegt að þetta sem landbúnaður eða búskapur væri fært undir ráðuneyti landbúnaðarmála að öllu.