Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:51:12 (6467)

2002-03-21 18:51:12# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:51]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að hæstv. ráðherra reyni að fullvissa okkur um að þetta sé vel gerlegt fyrir lítinn kostnað þá er nú reynsla okkar önnur víðast hvar í þessu stjórnkerfi. Kerfið er þannig að það hnígur í þá átt að næra sjálft sig og blása út þannig að eðlilegt er að þingmenn hafi af þessu áhyggjur. Það er líka eðlilegt að þingmenn hafi áhyggjur af því að þetta verði flókið kerfi sem er á milli tveggja ráðuneyta. Þeir sem þurfa að vinna í kerfinu klaga undan því í stjórnsýslunni. Ég er ekki að tala um þetta mál heldur almennt séð þannig að það hlýtur að vera hlutverk okkar þar sem við getum komið því við að einfalda stjórnkerfið og þessi tvöföldun með samráðsnefnd getur nú varla talist tilburðir til þess að einfalda hlutina í þessu tilviki.

Ég held enn og aftur að hæstv. sjútvrh. ætti að skoða þetta. Hann gæti kannski --- það er til í dæminu að þetta færðist allt saman undir sjútvrn. Ég er ekki að segja það. En ég held að hæstv. landbrh. og hæstv. sjútvrh. ættu þá að ræða það sín á milli hvort ekki væri hægt að koma þessu fyrir á öðrum hvorum staðnum og þá með því fylgibatteríi sem þarf til þess að þjóna greininni hvað varðar vísindi og aðra þjónustu.