Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:53:38 (6469)

2002-03-21 18:53:38# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:53]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn reka nú líka upp stór augu í útlöndum þegar maður segir þeim þar að menn geti skroppið með 14--16 manna áhöfn í tíu tíma stím og komið að landi með 2 þús. tonn af fiski, þannig að það er nú ekki samanburðarhæft ýmislegt hvað varðar okkar litla samfélag og svo útlöndin.

Ég vil bara segja enn og aftur að ég hef áhyggjur af þessari samþættingu og hvet hæstv. landbrh. til þess að skoða málið upp á nýtt, sérstaklega í því ljósi að það er tilfinning okkar allra að jafnvel stjórnarþingmenn væru nú ekkert sáttir við málið þó að það væri afgreitt út. Manni fannst það. Þeir sem komu til nefndarinnar og veittu umsagnir voru alls ekki sannfærðir og margir mjög tvístígandi þannig að eiginlega áttaði maður sig ekki á því hvernig þetta mál varð til yfir höfuð. Ég met hlutina þannig að menn hafi nú bara gert þetta svona vegna þess að þetta kom úr ráðuneytinu en ekki af mikilli sannfæringu. Því tel ég fulla ástæðu til þess að fara yfir þetta aftur og skoða hvernig þessu verður best við komið, taka mið af umræðunni og taka aðra ferð.