Eldi nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 18:55:11 (6470)

2002-03-21 18:55:11# 127. lþ. 102.9 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Nú eru búnar að vera hinar skemmtilegustu umræður um þetta mál. Í raun hafa umræðurnar endurspeglað þau sjónarmið sem við urðum greinilega varir við í sjútvn. þar sem menn höfðu á því mjög misjafnar skoðanir hvort rétt væri að fara þá leið sem í frv. er lögð til.

Það varð nú niðurstaða okkar sem skiluðum minnihlutaáliti að ekki væri rétt að fara þá leið að skipa málunum þannig að þau heyrðu undir tvö ráðuneyti heldur var það meginniðurstaða í áliti okkar að fela skyldi einu ráðuneyti yfirstjórn þessara mála. Það er meginniðurstaðan í áliti okkar. Þar sem eldismálin hafa að stærstum hluta hingað til verið undir landbrn. þá væri kannski eðlilegt að sá þáttur sem hér er verið að ræða, eldi sjávardýra og fóðrun nytjastofna, eða eins og segir í 2. gr. frv.: ,,... geymsla, gæsla og fóðrun nytjastofna, hafbeit, klak- og seiðaeldi, ...`` o.s.frv. tilheyrði þá landbrn. þannig að við værum ekki að búa til nýja yfirbyggingu og með tvöfalt eftirlitskerfi. Það varð niðurstaða okkar sem skiluðum minnihlutaáliti að ekki væri rétt að stíga þetta skref að svo komnu máli og betra að yfirstjórnin yrði falin einu ráðuneyti. Það er búið að færa hér fyrir þessu mörg rök í dag. Ég þarf svo sem ekki að endurtaka þau sérstaklega. Ég ætla þó að víkja svona að einu og einu atriði.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það sem hæstv. sjútvrh. sagði sjálfur um eftirlit á vegum landbrn. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því úti á skrifstofu minni þegar ég var að hlusta á orð hans að hann hafi sagt eitthvað á þá leið --- ég vona að ég fari nokkuð rétt með --- að hæstv. ráðherrann hafi starfað hjá landbrn. og byggt þar upp ódýrt eftirlit á vegum landbrn. Ég vona að þetta sé rétt haft eftir, hæstv. ráðherra.

Það er nú kannski einmitt þess vegna sem margir horfa til þess að betra sé að vera undir eftirliti sem ráðherranum tókst, áður en hann varð þingmaður og ráðherra, að byggja upp á vegum landbrn., sem ekki kostar mikla peninga, og njóta þess heldur en að fara undir sjútvrn. og Fiskistofu. Við höfum séð hversu mikið Fiskistofa hefur þanist út. Það er nú kannski af öðrum orsökum. Það orsakast af því stjórnkerfi fiskveiða sem við erum með. Eigi að síður eru vítin til að varast þau og mönnum finnst ekki beint aðlaðandi að ef sama fiskeldisstöðin er annars vegar að ala þorsk og síðan er 50 metra í burtu eða 100 metra í burtu lax í sjókví á vegum sama fyrirtækisins, þá skuli eftirlitið í annarri kvínni vera sjútvrn. og Fiskistofu en í hinni landbrn. Ég held að þetta sé, hæstv. ráðherra, ekki eftirsóknarverð framtíð. Þess vegna komumst við í minni hlutanum að þeirri niðurstöðu að það ætti að reyna að finna það far í þessu að fela einu ráðuneyti yfirstjórn þessara mála.

Nú geri ég mér vel grein fyrir því að þegar veiddur er úr nytjastofnum sjávar t.d. smár fiskur til að setja í áframeldi þá mun auðvitað Fiskistofa eða menn á hennar vegum fara fram á að þeim sé gerð grein fyrir því með sannanlegum hætti hversu mikill kvóti var tekinn úr sjónum, þ.e. hvað þessi kvikindi vigtuðu þegar þau voru veidd og sett í kvína.

[19:00]

Í rauninni finnst mér að eftirlit Fiskistofu og sjútvrn. mætti enda þar. Ég sé ekki hvers vegna menn á vegum ráðuneytisins þurfi að vera með eitthvert eftirlit með því hversu vel mönnum tekst að ala þessa fiska eða hversu stórir þeir verða þegar þeir verða drepnir. Það er búið að reikna þá inn í kvótann þegar þeir voru veiddir. Ég sé ekki t.d. ef ég tek bara þennan einstaka þátt, áframeldið, að sérstök ástæða sé til þess að sjútvrn. haldi eftirlitinu áfram eða Fiskistofa á þess vegum. Með sjálfum mér finn ég ekki sérstök rök fyrir því að eldið sé betur komið undir eftirlitsþætti Fiskistofu en t.d. með því að nota það apparat sem við höfum nú þegar varðandi eldi laxfiska.

Þannig mætti einnig tala um aðrar fisktegundir. Örlítið hefur verið vikið að kræklingi í umræðunni. Nú er það svo að kræklingurinn elur sig eiginlega sjálfur með því að sett eru út ákveðin reipi sem hann festir sig á. En hver skyldi nú vera aðalóvinur kræklingsins? Ætli það sé ekki æðarfuglinn? Og hvar á æðarvarpið heima? Menn eru því alltaf í kross með þetta mál fram og til baka.

Það er því ekki að ástæðulausu að niðurstaða okkar í minni hlutanum varð sú að rétt væri að fresta því að fara þessa leið og taka málið til gaumgæfilegrar athugunar og miklu betri yfirvegunar.

Ég vil einnig segja varðandi frv. almennt að ég tel að þegar fram í sækir eigi að vera einhver gjaldtaka fyrir slíka aðstöðu. Mér finnst hún ekki eiga að vera fyrr en menn eru búnir að koma eldinu af stað og fá einhverja arðsemi af starfseminni. En eitt finnst mér eigi að vera skilyrði og það er þegar fyrirtæki eða einstaklingar fá leyfi til þess að setja upp eldi dýra í ákveðnum firði eða vík eða hvar sem það er, þá beri þeim að nýta slíkt leyfi innan einhvers ákveðins tíma, t.d. fjögurra eða fimm ára. Og ef þeir ekki nýta það og eru með starfsemi þá geti þeir ekki selt það leyfi heldur beri þeim að skila því inn aftur. Þeir geti eingöngu selt það svo framarlega sem þeir hafi komið af stað einhverri starfsemi en ekki sett bara tóma kví í sjóinn eða hent í hana tíu fiskum heldur raunverulega staðið fyrir eldi. Þá geti þeir sem sagt selt aðstöðuna og aðrir tekið við, en að menn geti ekki fest sér framtíðarnýtingu í hverjum firðinum á fætur öðrum eða hverri víkinni á fætur annarri með því að sækja þar um leyfi og fá leyfunum úthlutað og síðan sé þeim í sjálfsvald sett hvenær þeir vilja fara í nýtingu á þessum leyfum eða setja upp einhverja málamyndanýtingu til að geta gert þetta að sérstakri verslunarvöru. Ég hefði sagt sem svo að ef menn væru ekki komnir á alvörurekstur, búnir að framleiða, þá geti þeir ekki selt leyfin heldur beri þeim að skila þeim inn aftur.

Þetta er svipuð hugsun og ég hef oft haldið fram varðandi fiskveiðarnar, að þetta er nýtingarréttur og menn geta jú selt fyrirtækin sín en eiga ekki að selja sérstaklega þann rétt sem þeim er úthlutað. Ég held að það sé sanngirnismál að hugsa þetta á þeim nótum, að ekki verði til sérstakur forgangshópur manna sem eigi leyfi til þess að ala fisk.

Ég ætla svo sem ekki að teygja lopann við þessa umræðu. Það er margt sem hefur komið hér fram. Niðurstaða mín er sú að vera með hinum tveimur hv. þm. á minnihlutaálitinu og að eldið sé betur komið á einum stað, það tel ég vera. Ég tel einnig að það eigi að vera svo að menn eigi ekki að þurfa að leggja í mikinn kostnað við það að stofna til eldis sem er undir einhverri ákveðinni tonnatölu, segjum t.d. 30--80 tonn. Ég tel að góður hagur gæti verið að því t.d. fyrir bændur að geta veitt smáfisk að vori og alið hann yfir sumartímann og slátrað að hausti og fengið vöxt út úr því upp á kannski 2--2,5 kíló á hverjum fiski sem þeir hafa látið í kvíarnar. Þetta gæti verið aukabúgrein og ekki á að gera mönnum allt of erfitt fyrir að fara í slíkt takmarkað eldi. Ég hef a.m.k. horft til þess að bændur sem byggju ekki fjarri ströndinni, eins og víðast hvar er á því landsvæði sem ég kem frá, gætu nýtt sér þetta til tekjudrýginda og búdrýginda og ekki veitir nú af varðandi tekjur bænda.

Þetta er nú aðallega það sem ég vildi láta koma fram um þetta og vil að lokum vekja athygli á því að nýtingarrétturinn getur orðið að miklu verðmæti og ég tel óeðlilegt, ef menn hafa ekki beinlínis farið í reksturinn og rekið eldisstöð, þá eigi þeir, vegna þess að þeim var úthlutað þessum rétti, sérstakan forgang á að fénýta fjörðinn eða víkina. Mér finnst að setja eigi ákveðin skilyrði í lög um það hvers vegna menn geti endurselt réttinn en skilgreiningu á því vantar.