Eldi nytjastofna sjávar

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:06:26 (6504)

2002-03-22 11:06:26# 127. lþ. 103.1 fundur 333. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv. 33/2002, SvanJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:06]

Svanfríður Jónasdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í því nál. um þetta mál sem fulltrúar Samfylkingarinnar standa að er lagt til að málið verði fellt. Með þessu frv. er verið að skapa lagaramma um það fyrirkomulag að stjórnsýsla og eftirlit með fiskeldi sé skipt á milli tveggja ráðuneyta með því óhagræði sem fylgir og þvert á ráðleggingar þeirra sem gerst þekkja til.

Ég veit ekki hvort þetta segir meira um úreltan hugsunarhátt eða úrelt stjórnkerfi, úrelta skipan Stjórnarráðsins. En málið er ótækt að okkar mati.

Samkvæmt þessu frv. er auk þess hvorki gert ráð fyrir því að innheimta gjald fyrir leyfin né heldur fyrir þau afnot af sameiginlegum auðlindum sem það sannarlega er að fá að nýta firði og flóa undir fiskeldi. Þar er líka byggt á gamaldagshugsun og (Forseti hringir.) ekki litið til reynslu t.d. Norðmanna sem hafa gert sér grein fyrir því (Gripið fram í.) af fenginni reynslu að leyfi til slíkrar nýtingar eru verðmæti í sjálfu sér.

(Forseti (HBl): Hv. þm. er að gera grein fyrir atkvæði sínu.)

Við þessa atkvæðagreiðslu munum við sitja hjá við einstakar greinar frv. og þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til. En við lokaafgreiðslu málsins munum við greiða atkvæði gegn frv.