Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:18:13 (6507)

2002-03-22 11:18:13# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Afstaða Íslands til átakanna í Miðausturlöndum er skýr og hefur komið fram á norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Við höfum fordæmt ofbeldisverk beggja aðila og krafist þess að deiluaðilar semji vopnahlé og hefji friðarviðræður sem leiði til stofnunar sjálfstæðs ríkis Palestínu um leið og öryggi Ísraels verði tryggt innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra.

Stjórnmálaþróunin í Miðausturlöndum hefur löngum einkennst af átökum og ófriði. Ekkert lát hefur verið á ofbeldinu og öryggisleysinu á því svæði. Það er því miður bæði gömul saga og ný. Óhófleg beiting hervalds Ísraels gegn Palestínumönnum á hernumdu svæðunum ætlar engan endi að taka og hefur leitt til mikils vonleysis meðal Palestínumanna. Sjálfsmorðsárásir Palestínumanna á saklausa borgara hafa einnig vakið mikinn óhug og öryggisleysi innan Ísraels og eru algerlega óverjandi.

Eftir marga dimma mánuði er loks vonarglæta að vopnahlé komist á, a.m.k. skulum við vona það, fyrir atbeina Bandaríkjamanna, erindreka þeirra, Zinni, hershöfðingja. Allar friðarviðræður hafa runnið út í sandinn. Hvert samkomulag lítið meira en orðin tóm og vopnahlé hafa ekki verið haldin. Áframhaldandi ofbeldi og neitun samningaviðræðna styrkir eingöngu þau öfl sem hvorki vilja framhald friðarferlisins né pólitíska lausn á átökunum í Miðausturlöndum.

Við megum ekki gleyma því að Vesturbakkinn, Gaza og Austur-Jerúsalem eru hernumin af Ísrael og Ísraelsmönnum ber að skila þessum svæðum aftur til Palestínumanna samkvæmt fjölmörgum ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Krafa okkar hlýtur að vera sú að deiluaðilar fallist á tafarlaust vopnahlé og hefji strax án allra skilyrða samningaviðræður á grundvelli tilmæla Mitchell-skýrslunnar frá 30. apríl sl. Friðarferlið hefur verið í uppnámi og vonir okkar um varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafs hafa fram að þessu að engu orðið. Neikvæð ummæli forsætisráðherra Ísraels um endalok Óslóarferlisins valda einnig mjög miklum áhyggjum. Ógnaratburðir undanfarinna mánaða hafa ekki gefið tilefni til mikillar bjartsýni og báðir aðilar verða að koma í veg fyrir beitingu frekara ofbeldis.

Það liggur alveg ljóst fyrir að lausn deilumála fyrir botni Miðjarðarhafs getur aldrei orðið hernaðarleg. Hún getur aðeins orðið pólitísk. Því er full ástæða til að fagna aðkomu Bandaríkjamanna á nýjan leik að málefnum Mið-Austurlanda og það liggur í mínum huga alveg ljóst fyrir að friður mun ekki komast á án atbeina Bandaríkjamanna þó fleiri þurfi þar að koma að málum, Evrópusambandið, lönd eins og Egyptaland, Jórdanía og síðast en ekki síst framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan.

Ástæða er til að fagna öllum nýjum tillögum sem hafa komið fram. Ástæða er til að fagna tillögum utanríkisráðherra Frakka og tillögum Abdullah, krónprins Sádí-Arabíu, sem hefur lagt fram athyglisverðar hugmyndir. Það er kannski ekki það sem í þeim stendur heldur aðallega hvaðan þær koma. Það er alveg ljóst að Arabaríkin hafa ekki í heild sinni verið tilbúin til að viðurkenna öryggi Ísraelsríkis. Þess vegna eru það viss vatnaskil að sá tónn skuli heyrast frá þeim.

Ég vil einnig leggja áherslu á hversu mikilvægt það er að Ísraelar hleypi Arafat úr því stofufangelsi sem þeir hafa haldið honum í í Ramallah og ekki síst til þess að hann eigi þess kost að sækja fund Arababandalagsins í Beirut þar sem hann getur lagt mikið af mörkum og lagt á það áherslu að Arabaríkin styðji friðarferli og Arabaríkin styðji örugg landamæri Ísraels.

Herra forseti. Þetta er eitt af langalvarlegustu málunum sem nú er við að glíma á alþjóðavettvangi og þau tengjast mörgum öðrum málum. Ég vil ítreka skýra stefnu ríkisstjórnar Íslands í þessu máli. Við teljum að vinna verði að pólitískri lausn, það verði að gera tafarlaust vopnahlé. Við fordæmum allt ofbeldi á svæðinu hvort sem það er af hálfu Ísraelsmanna eða Palestínumanna og höfum ávallt hvatt deiluaðila til að hefja alvarlegar samningaviðræður.

Lausnin á þessari deilu liggur nokkurn veginn fyrir. Hún liggur í því að tryggja landamæri þessara ríkja. Hún liggur í því að hætta öllu ofbeldi. Hún liggur í því að Ísraelsmenn skili hernumdum svæðum og þeir sem hafa verið að byggja þessi svæði á vegum Ísraelsmanna fari tafarlaust af þeim og snúi til annarra heimkynna. Það er að sjálfsögðu erfitt mál en það er nauðsynlegt og forsenda þess að friður geti skapast á því svæði.