Sjálfstæði Palestínu

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 11:48:29 (6512)

2002-03-22 11:48:29# 127. lþ. 103.2 fundur 336. mál: #A sjálfstæði Palestínu# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[11:48]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Við höfum öll áhyggjur af þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafsins og þeirri óöld sem þar hefur ríkt um langt árabil. Það hefur komið fram í umræðunni hér í dag og það hefur margoft komið fram í umræðum á liðnum árum, bæði á Alþingi og annars staðar. Umheimurinn stendur á öndinni yfir fregnum af voðaverkum nánast hvern dag og heimsbyggðin, hvort sem er í nágrenni átakanna eða óravegu frá þeim, veltir fyrir sér hvernig unnt er að binda endi á blóðsúthellingar og ofbeldisverk. Þetta er alvarlegasta málið á alþjóðavettvangi sem þarfnast úrlausnar.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun þar sem í fyrsta sinn er talað um ísraelskt og palestínskt ríki í sömu andrá. Ályktun þessi er ekki síst merkileg fyrir það að hún er runnin undan rifjum Bandaríkjamanna sem undanfarna tvo áratugi hafa verið tregir, svo ekki sé fastar að orði kveðið, til að taka undir ályktanir um málefni Ísraels- og Palestínumanna og hafa iðulega beitt neitunarvaldi til að þagga niður í gagnrýnendum Ísraels.

Að þessu sinni brugðust Bandaríkjamenn hins vegar við tillögu Sýrlendinga um ályktun um málefni Miðausturlanda með því að leggja fram eigin drög að ályktun. Eins og greint hefur verið frá er í ályktuninni talað um sýnina um svæði þar sem tvö ríki, Ísrael og Palestína, þrífist hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra. Þetta orðalag er sótt í ræðu Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Það er auðvitað ástæða til að fagna þessari ályktun öryggisráðsins og sömuleiðis aðkomu Bandaríkjanna að málinu. Um leið er ljóst að friður er langt undan fyrir botni Miðjarðarhafsins og verða báðir aðilar að taka til í sínum ranni til að raunverulegur friður geti komist á. Þrátt fyrir dagleg ofbeldisverk sem við höfum orðið vitni að í fjölmiðlum að undanförnu er þó núna komin vonarglæta sem er komin til fyrst og fremst vegna aðkomu Bandaríkjamanna og annarra þjóða að málinu, svo sem Sádi-Araba.

En eitt af því sem verður að fylgja varanlegri lausn málanna hlýtur að vera sjálfstætt ríki Palestínu og örugg landamæri Ísraels. Það er alveg á hreinu að Palestínumenn munu ekki sætta sig við minna en að Ísraelar hverfi nokkurn veginn inn fyrir landamærin eins og þau voru fyrir sexdagastríðið árið 1967.

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum mátti varla nefna hugmyndir um sjálfstæði Palestínu í Ísrael en nú kveður þar við annan tón og skynsemisraddir skilja að hjá því verður ekki komist vilji menn á annað borð frið í þessum heimshluta.

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld hafa undir forustu hæstv. utanrrh. sett fram skýra stefnu í málefnum Miðausturlanda og þar hefur að mörgu leyti kveðið við nýjan tón. Samfélag þjóðanna sættir sig ekki við óbreytt ástand og það gerum við Íslendingar ekki heldur. Það er því ástæða til að brýna íslensk stjórnvöld og hv. Alþingi til að halda áfram á þeirri braut sem mótuð hefur verið og taka höndum saman við önnur ríki í þeirri viðleitni að koma stríðandi aðilum að samningaborðinu svo að friður komist á fyrir botni Miðjarðarhafs í eitt skipti fyrir öll.