Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 13:31:14 (6518)

2002-03-22 13:31:14# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Ég náði ekki að ljúka máli mínu fyrir hádegisverðarhlé enda málið stórt og margt sem leitar á hugann í tengslum við það. Ég hafði aðeins hlaupið yfir ýmislegt sem lýtur að almennum kringumstæðum málsins og sögunni. Mér finnst mönnum skylt að halda henni til haga og segja má að það sé öðrum þræði uppeldislegt atriði að menn hafi í huga, ef þeir eru fullyrðingasamir, að einhverjir kunni að nenna að leggja á sig að afla sér gagna, setja sig inn í málin og láta söguna njóta sannmælis, ef svo má að orði komast. Menn geti ekki vaðið áfram með fullyrðingar út og suður og gildishlaðna framsetningu mála þvert á staðreyndir sögunnar í trausti þess að enginn hafi fyrir því að leiðrétta það sem þar kann að vera missagt. Því miður virðist það æðioft vera svo að mönnum finnist þeir hafa sjálfdæmi gagnvart því og geti sagt hvað sem er um hluti strax og liðin eru 5--10, svo maður tali nú ekki um 20--40 ár frá því að atburðirnir gerðust. Þannig á það auðvitað ekki að vera. Menn eiga ekki að komast upp með að umskrifa söguna eftir geðþótta sínum og hag í pólitískri orrahríð á líðandi stundu. Menn eiga það þá a.m.k. á hættu að einhverjir kunni að taka þá í karphúsið og leiðrétta það sem þar er farið rangt með. Ég taldi þar af leiðandi óhjákvæmilegt að gera nokkrar athugasemdir við málflutning hv. þm. Hjálmars Árnasonar eins og hann kom mér fyrir sjónir í þessum umræðum. Reyndar hefur hv. þm. verið með svipaðan málflutning uppi í fjölmiðlum að undanförnu.

En ég ætla að snúa sjónum að Kárahnjúkavirkjuninni hinni miklu, fyrirhugðu, og ræða aðeins um þá framkvæmd og það svæði þar sem hún yrði staðsett. Ég passa mig að vanda mig á að tala jafnan í viðtengingarhætti því að ég bind enn vonir við að ekki verði af þessari framkvæmd því að ég held að hún sé ekki skynsamleg og ekki réttlætanleg, herra forseti, með þeim miklu fórnum sem henni yrðu samfara.

Það fyrsta sem menn verða auðvitað að líta á er sú staðreynd að með því að ráðast í Kárahnjúkavirkjun og allar tilheyrandi framkvæmdir og mannvirkjagerð þá hefjast menn handa um mannvirkjagerð og röskun á stærsta ósnortna víðerni landsins, hálendinu norðan og norðaustan Vatnajökuls, og þó víðar væri leitað. Þetta er eitt af stærri svæðum af því tagi sem eftir eru á byggðu bóli á jörðinni. Slík ákvörðun verður ekki aftur tekin. Það er ljóst að ef menn fara þarna í risaframkvæmdir með tilheyrandi mannvirkjagerð, vegalögnum, línulögnum, uppistöðulónum og vatnaflutningum verður þetta svæði aldrei samt aftur. Þessi ákvörðun er óafturkræf og hún er alveg gríðarlega stór.

Ég held að þessi ákvörðun sé stærst í þessu samhengi. Fjárfestingin er vissulega mikil. Það yrðu miklar skuldir sem þjóðarbúið fengi á herðarnar og efnahagslega óvissan og áhættan er mikil. En í mínum huga er þessi ákvörðun stærst í samhengi við að þarna yrði hafist handa og raskað þessu stóra svæði sem enn er lítt eða ósnortið. Því yrði aldrei aftur breytt. Þar af leiðandi er íslenska þjóðin, sem auðvitað á þetta land saman, stödd frammi fyrir gríðarlega stórri ákvörðun. Þannig er þetta sem ákvörðun í landnýtingar- og skipulagsmálum gríðarlega stór ákvörðun. Menn takast á um og deila oft um spurningar um einstakar framkvæmdir eða breytingar á umhverfi í sínu nærumhverfi. Þar verða heitar og harðar deilur um hvort byggja eigi hverfi á útfyllingu í þessari vík, leggja hraðbraut um þennan græna dal o.s.frv. En þar eru menn að tala um litla staðbundna framkvæmd sem hefur áhrif á umhverfi sem nær yfir nokkra ferkílómetra eða minna. En hérna erum við að tala um stórt svæði um miðbik landsins. Það má heita að eftir að hættir að sjá til mannvirkja á Sprengisandsleið ofan við Kvíslarveitur sé um ósnortið eða lítt snortið víðerni að ræða norður um Sprengisand. (PHB: Engir vegir?) Það eru vegaslóðar, ekki uppbyggðir, sem að miklu leyti hverfa, verða sandi orpnir og hverfa á 5--50 árum ef náttúran fengi að hafa sinn gang. Það sæi ekki mikið af slóðunum við Fjórðungsöldu í sandinum þar ef þeim væri ekki viðhaldið árlega, hv. þm. Pétur Blöndal. (PHB: Engir ferðamenn?) Ferðamenn jú.

Það er ekki verið að tala um, herra forseti, --- ef þessi frammíköll eiga kannski að standa til þess að spurningin hér snúist um hvort miðhálendið verði girt af og umferð bönnuð --- að mönnum verði bönnuð umferð þar. Það er enginn að tala um slíkt. Ég held að hv. þm. viti betur. Það að vegaslóðir liggi í landslaginu og láta lítið fyrir sér fara og um svæðið fari ferðamenn er algjörlega ósambærilegt við að ráðast í risamannvirkjagerð og gjörbreyta ásýnd og náttúrufari á tugum og hundruðum ferkílómetra, þúsundum ferkílómetra, ef vatnasviðin eru tekin.

En þetta er þannig, herra forseti. Þegar fer að halla í Nýjadal eða Jökuldal og við erum hætt að sjá til Kvíslarveitumannvirkja, komin fram hjá Versölum á Sprengisandsleið, þá komum við inn á þetta ósnortna svæði. Það nær niður í byggð í aðalatriðum. Eins og mál standa í dag nær það niður í byggð, hvort sem farið er niður til Eyjafjarðar, niður í Bárðardal, niður hjá Öskju og Herðubreiðarlindum eða yfir Brú við Upptyppinga og inn á norðausturhálendið og þá niður að byggð á Hólsfjöllum eða Jökuldal. Svæðið nær austur um með Vatnajökli, frá honum og niður að byggðum á Austfjörðum, á Austurlandi og Suðausturlandi. Inni á miðju þessu stóra svæði kæmi Kárahnjúkavirkjun nokkurn veginn miðja vegu, ef hún yrði reist, þ.e. stíflan og Hálslón.

Það þýðir ekkert, herra forseti, að halda því fram að þetta svæði verði samt á einhvern hátt eftir. Það verður það ekki. Með því er ég að sjálfsögðu ekki að segja frekar en nokkur annar að þar með sé svæðið ónýtt, hafi ekki áfram mikið gildi og þar séu ekki áfram verðmætar náttúruperlur sem skipta máli bæði innan þessa svæðis, sem verður fyrir áhrifum af virkjuninni sjálfri og í nágrenni við það. Að sjálfsögðu er það ekki svo. En það verður ekki samt aftur, það verður búið að plokka út úr því nokkrar fallegustu rúsínurnar, ef svo má að orði komast. Það kæmi gat í myndina eða hvernig sem við nú viljum orða það.

Er ekki líka hætt við því, herra forseti, að þegar menn væru einu sinni byrjaðir fyndist mönnum fórnarkostnaðurinn minni, þröskuldurinn lægri, gagnvart því að halda áfram? Auðvitað er það þannig. Staðreyndin er auðvitað sú að eitt af því sem hefur áhrif og maður finnur, t.d. þegar virkjanir á Þjórsársvæðinu eru á dagskrá núna, stækkanir eða viðbætur þar, er að allir skynja að þær framkvæmdir eru í allt öðru samhengi en ef við værum að nema land á því svæði.

Eðli þessa svæðis hefur breyst. Ég hef farið upp á Þjórsársvæðið flestöll ár, held ég, frá því að þar hófst meiri háttar mannvirkjagerð. Ég kom þangað einu sinni nánast sem unglingur þegar framkvæmdir voru á lokastigi við Búrfell. Ég hef komið þangað iðulega síðan, m.a. oft og iðulega á námsárum mínum, og fylgst með því hvernig þetta svæði hefur smátt og smátt breytt um eðli. Þar sem einu sinni sinni ríkti öræfakyrrðin og maður fékk þessa tilfinningu, að maður væri kominn inn á ósnortið land --- sú kyrrð er horfin með öllu. Að aka í fólksbíl malbikaðan veg með mannvirki á báðar hendur, hús, brýr, línur, sjoppur, ljósastaura, upplýst hverfi og hvað eina. Þar er bara allt önnur veröld og allt önnur tilfinning. Þannig er það. Þegar við ráðumst í svona framkvæmdir og opnum upp ný svæði þá verður þar eðlisbreyting.

Ég held, herra forseti, að það sé jafnframt óhjákvæmilegt að minna aðeins á hversu umhverfisáhrifin af þessari virkjun eru margþætt og gríðarleg. Mér hefur fundist, herra forseti, það þoka svolítið til hliðar. Sérstaklega vilja stuðningsmenn þessa máls líta svo á að það sé bara afgreitt mál, bara búið og þurfi ekkert að ræða um það meir, af því að umhvrh. hafi fellt úrskurð. En bíðum við, breytir hann eðli framkvæmdanna? Breytir hann þeim áhrifum sem þær hafa í för með sér á náttúrufar á svæðinu? Nei. Það eina sem úrskurður umhvrh. breytir er að það kann að verða ráðist í þessar framkvæmdir. Menn kunna að láta sig hafa þau náttúruspjöll sem þeim eru samfara en þau eru þarna áfram. Þau verða, ef framkvæmdin fer fram.

Eigum við ekki að rifja aðeins upp, herra forseti, hvað þar er á ferðinni? Þar tapast fyrir það fyrsta, herra forseti, tugir ferkílómetra af mjög sérstæðu grónu landi. Menn gefa kannski lítið fyrir það. Mikið af mólendi, valllendi og sumpart votlendi fer undir þetta lón eða raskast í næsta nágrenni þess, t.d. við lónmörkin. Gróður á Vestur-Öræfum getur þar til viðbótar skaðast svo nemur tugum ferkílómetra vegna aukins sandfoks og áfoks frá strönd lónsins, frá strandlengjunni sem verður opin árlega og síðan smátt og smátt í æ ríkari mæli frá sléttunum sem myndast þegar lónið fyllist upp innan frá jökli og út eftir lónsstæðinu.

Burðarsvæði hreindýra á Hálsi skerðast, vorbeitiland hreindýranna skerðist og farleiðir hreindýranna truflast. Varpstöðvar heiðargæsa skerðast. Það myndast rofbakki, strandlína. Sandfok inn á Vestur-Öræfi eykst og fokmistur frá aurasvæðunum. Allt yrðu þetta áhrif af tilkomu Hálslóns eins og sér. Jökulframburður sest til í lóninu og eyrar byrja að myndast strax á fyrstu árum og áratugum lónsins sem fyllist af framburði að mesta lagi á 400 árum. Það er nú einu sinni þannig, herra forseti, að Jökulsá á Dal er aurugasta stórfljót landsins svo nokkru nemur. Ef minni mitt svíkur ekki eru það 10 milljónir tonna af framburði sem áin ber til sjávar á ári hverju. Ég man ekki hvort það eru 10 eða 100 vörubílshlöss á klukkutímann eða hvað það nú er. Undir lón fara merkilegar jarðfræðimyndanir. Þar er stuðlaberg, sjaldgæfar bergtegundir og fleira.

[13:45]

Eitt af merkari friðlöndum landsins, hinn sérstæði Kringilsárrani, sem er landspilda girt jökulvötnum og var í raun og veru ósnortin af öðru en hreindýrum, viðkomu hreindýra hluta úr árinu, geysilega sérstakt gróðurlendi, í mikilli hæð yfir sjó, með jökla að baki og jökulvötn á báðar hendur, skerðist svo nemur um fjórðungi. Þar á meðal glatast einstæðar jarðmyndanir í heiminum sem aðeins eru til á tveimur stöðum öðrum svo vitað sé, við Eyjabakka og á Svalbarða.

Allmargir minjastaðir fara undir lónið og fornleifar glatast þar af leiðandi. Allmargir fossar í þverám Jökulsár á Dal hverfa, sumir hluta úr ári en sumir alveg. Loks hverfa margir þeirra endanlega með því að lónið fyllist af seti.

Herra forseti. Ég tel að í sambandi við Hálslón sem slíkt sé þrennt alvarlegast. Það fyrsta er auðvitað sú staðreynd sem merkilega lítið er talað um, að lónið á að mynda með stærstu jarðvegsstíflu í Evrópu, einni af stærstu jarðvegsstíflum sem nokkurn tíma hefur verið reynt að byggja í heiminum. Ég vil ekki vera með hrakfallaspár en svo mikið þykist ég vita að það er ekki alveg einfalt mál að byggja slíkt mannvirki. Það þarf að vanda verulega til verka þannig að engin áhætta sé tekin í sambandi við að undirstöður gefi sig, að jarðhræringar geti ekki valdið veikleikum eða veikingu slíks mannvirkis og að ekki sé tekin nein áhætta gagnvart því landi og þeirri byggð sem neðan við stífluna er.

Í öðru lagi, herra forseti, myndast mikil strandlengja vegna breytilegrar vatnshæðar í lóninu sem verður eiginlega einstök í sinni röð hér á landi. Vatnshæðarsveifla upp á tugi metra innan hvers árs er ekki algengt fyrirbæri. Mönnum þykir nóg um, held ég, þeim sem hafa nennt að rölta út úr bílum sínum þegar þeir hafa keyrt Kjalveg norður og skoðað strandlengjurnar sem smátt og smátt myndast við Blöndulón. En þær eru smámunir hjá því sem verður við Hálslón og vatnsborðssveiflan margföld. Það er algjörlega ljóst, herra forseti, að þessi strandlengja sem sker að verulegu leyti gróið land mun skapa mönnum gríðarlegan höfuðverk. Enginn reynir að bera á móti því. Þá hafa menn farið að tala um mótvægisaðgerðir en verða að gæta sín að fara ekki úr öskunni í eldinn því sum þeirra mannvirkja eru sjálf svo mikil og umdeilanleg að í raun og veru þyrfti að meta það sjálfstætt hvort umhverfisáhrifin af þeim eru ekki jafnvel verri en þau vandamál sem þeim er ætlað að leysa, skurðir eða hryggir eða hvað það ætti að vera.

Síðast og að mínu mati langalvarlegast við Hálslón er uppfylling þess og sú staðreynd að virkjunin er auðvitað ekki sjálfbær heldur verður hún ónýt og auðvitað löngu áður en lónið er að endingu fullt því það verður engin einasta leið að ráða við það þegar miðlunargeta þess er farin að minnka verulega og framburðurinn nálgast sífellt inntaksmannvirki virkjunarinnar. Þá verður ekki við neitt ráðið svo fremi sem Jökulsá á Brú breyti ekki í grundvallaratriðum um eðli, verði áfram aurugt jökulvatn, á þessum hundruðum ára sem fram undan yrðu þá í líftíma virkjunarinnar. Ég sé ekki hvernig menn ætla sér tæknilega eða verkfræðilega að ráða við það, að neitt annað blasi við en að virkjunin verði óstarfhæf, ónýt eins og það heitir á íslensku, einhverjum sennilega árhundruðum eða í öllu falli mörgum áratugum áður en lónið er fullt. Trúlega mætti vel við það una ef líftími virkjunarinnar yrði u.þ.b. hálfur sá tími sem það tekur lónið að fyllast.

Hvernig yrðu aðstæðurnar við innanvert lónið þegar áratugirnir mundu líða? Jú, þær verða þannig að smátt og smátt myndast í þessari miklu hæð yfir sjó gríðarlega miklar flatar leirsléttur, sléttur þar sem set, gróft eða fínt eftir atvikum, framburður, hefur sest til og smátt og smátt fyllt lónstæðið þannig að áin fer að renna þar á eyrum eða velur sér e.t.v. einhvern farveg og til hliðanna verða gríðarmiklar setsléttur. Menn geta aðeins reynt að gera sér í hugarlund hvernig aðstæður verða þarna, t.d. á þeim tíma árs þegar lónið er tómt eða a.m.k. fjarri því að vera fullt og þetta stendur langt upp úr. Þá verða þarna á yfirborði tugir ferkílómetra af lausu seti. Við getum ímyndað okkur að þetta séu sambærilegar aðstæður að einhverju leyti við þær sem ríkja t.d. á aurunum framan við Dyngjujökul á vorin nema að þarna má ætla að setþykktin verði miklu meiri og setið lausara í sér.

Ég þykist ímynda mér, herra forseti, og sjá að þessar aðstæður verði ekki mjög félegar við að eiga. Hafa menn trú á því að auðvelt reynist að græða upp þessar sléttur? Nei, það held ég varla. Ég á eftir að sjá að það reynist auðvelt. Og hvað er þá verið að bjóða upp á? Jú, þarna er verið að bjóða upp á miklar sléttur þar sem laust set hefur sest til sem getur sópast upp, fokið upp og myndað hættu á gríðarlegu áfoki, gríðarlegu mistri í lofti, sem berst aðallega væntanlega til norðurs, norðausturs eða austnorðausturs eftir því hvernig vindurinn blæs.

Menn þekkja vel þessar aðstæður sums staðar um norðan- og norðaustanvert landið, t.d. þekkja Norður-Þingeyingar þetta mjög vel og íbúar á Hólsfjöllum, og þykir þeim alveg nóg um ástandið eins og það er í dag, þegar mekkirnir taka sig upp í hlýrri og sterkri suðvestanátt af aurunum framan við Dyngjujökul þannig að mistur verður í lofti á stóru svæði, allt frá jökli á haf út yfir norðaustan- og austanverðu landinu. Stundum er sólin blóðrauð að sjá þótt um miðjan dag sé. Ég held að það gætu átt eftir að reynast smámunir borið saman við hitt sem menn gætu átt í vændum ef allt færi á versta veg á þessari miklu sléttu sem menn mundu búa til framan við Brúarjökul.

Og hverjum ætlum við svo að leysa höfuðverkinn? Landsvirkjun? Okkur? Nei, komandi kynslóðum. Þetta allt saman ætlum við að skilja eftir sem hausverk handa þeim sem vonandi koma til með að byggja þetta land eftir eitt, tvö, þrjú, fjögur hundruð ár. Og menn hafa ekki meiri áhyggjur af þessu en svo, þessir höfðingjar sem véla um af hálfu ríkisstjórnar, Landsvirkjunar og co., að virkjunin verði löngu afskrifuð. Hvað eru menn að röfla? ,,Virkjunin verður löngu afskrifuð,`` er sagt við okkur. Er það fullgild og boðleg röksemd? Nei. Ég kaupi hana ekki. Þannig höfum við ekkert leyfi til að umgangast þetta land. Við erum ekki herrar bæði nútíðar og framtíðar í þeim skilningi að við getum leyft okkur að gera hvað sem er og stíla reikninginn á börnin okkar og barnabörnin. Við skulum aðeins gæta að okkur, herra forseti.

Önnur megináhrif þessarar virkjunar í umhverfislegu tilliti eru tengd vatnaflutningunum. Þeir yrðu einstæðir í íslenskri röð og þeir yrðu einstæðir víðar í heiminum. Menn hafa að vísu sullast til með stórfljót hér og þar í heiminum en með afar misjöfnum árangri svo ekki sé meira sagt. Einhver sorglegustu og hroðalegustu umhverfisslys í heiminum eru einmitt tengd vatnaflutningum. Austur á sléttum Sovétríkjanna sálugu eru sennilega einhver mestu umhverfisslys heimssögunnar (EMS: Fleiri slys þar.) Fleiri slys, rétt hjá hv. þm. og frammíkallanda hér, Einari Má Sigurðarsyni, og þekkir hann auðvitað manna gerst til (EMS: Það er rétt.) þessa klúðurs kommúnistanna þarna í austrinu. (Gripið fram í.) Já, eru þar ekki núna saltsléttur þar sem áður voru frjósöm veiðivötn, þar sem ekkert þrífst af því að menn fluttu vatnið í burtu? Einhverjar brjálæðislegustu hugmyndir sem nokkurn tíma hafa komið upp í sambandi við inngrip í náttúruna voru hugmyndir um að snúa stórfljótunum í Síberíu við og senda þau suður í staðinn fyrir norður í Íshafið. Sem betur fer komust menn ekki til þess því að enginn veit hvaða hroðalegu áhrif það hefði haft, jafnvel hreinlega hnattrænt á loftslag og alla vega hafstrauma og aðstæður í Norðurhöfum.

Mörg af ljótustu umhverfisslysum sem sagan geymir, herra forseti, eru nefnilega tengd vatnaflutningum. Og það er auðvitað ekki hægt að hugsa sér svakalegri röskun og afdrifaríkara inngrip í náttúruna en það að taka í burtu heilt fyrirbæri eins og vatnsfall er, fara með það eitthvað annað og skilja bara eftir tóman farveginn. Þetta hafa menn lengi vitað. Þetta vissu menn á Alþingi 1926 þegar þeir settu vatnalögin. Og ég held að þessir höfðingjar sem afgreiða hlutina með því hugarfari að virkjunin verði löngu afskrifuð ættu að lesa vatnalögin, greinargerðina og umræðurnar sem urðu um þau. Það er mjög merkilegt fyrir okkur að átta okkur á því að fyrir hartnær 100 árum voru menn hér á Alþingi þó þetta framsýnir að þeir settu lög til verndar vatnsföllunum í landinu, og það gengur eins og rauður þráður í gegnum þau að allri röskun skuli haldið í lágmarki.

Í 7. gr. þessara laga stendur svo fallega orðað, með leyfi forseta:

,,Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.``

Og hvort sem vatn er tekið á grundvelli undanþáguheimilda í lögunum til áveitna eða virkjunar skal markmiðið vera að halda röskuninni í lágmarki og skila vatninu aftur í sama farveg.

Mætti ég biðja um nokkur stykki af þeim þingmönnum sem þá voru á Alþingi og afgreiddu þessi lög og þau viðhorf sem þarna voru uppi í staðinn fyrir suma sem hér eru núna.

[14:00]

Herra forseti. Ég held því fram að yrði af þessu óráði með flutning Jökulsár á Dal eða Brú yfir í Lagarfljót þá verði það einstæður atburður í heiminum því mér er ekki kunnugt um að nokkurn tímann og nokkurs staðar annars staðar hafi verið reynt að taka korgugt jökulfljót úr farvegi sínum og sulla því yfir á annað vatnasvið. Þær ár aðrar sem menn hafa yfirleitt flutt eru annars eðlis. Þær eru bergvatnsár eða stórfljót sem ekki eru sambærileg að eðli og einkennum og jökulárnar okkar íslensku sem eru auðvitað sjaldgæf fyrirbæri í heiminum og fyrst og fremst finnanlegar þar sem eru jöklar, þýðjöklar við aðstæður þar sem mikil bráðnun á sér stað og undan jöklunum streyma fljót. Það er fyrst og fremst á Íslandi, að nokkru leyti á Grænlandi og kannski að einhverju litlu leyti á Svalbarða sem slíkar aðstæður finnast. Á Suðurskautinu er vatnið frosið, jöklarnir gaddjöklar og yfirleitt ekki bráðnun við botninn. Við erum að tala um tiltölulega einstæðar aðstæður í heiminum því aðrir jöklar eru svo litlir að þó að frá þeim renni einhver lituð vötn þá eru þau hvergi sambærileg við stórárnar, stórfljótin okkar, Jöklu, Jökulsá á Fjöllum, Þjórsá eins og hún var áður og aðrar slíkar.

Herra forseti. Á þessu hafa menn að mínu mati verulega flaskað. Það hefur ekki fengið nægjanlega athygli og umræðu að við erum að glíma hérna við nánast einstæðar aðstæður í heiminum. Það er yfirleitt ekki um það að ræða annars staðar að menn séu að reyna að virkja jökulár. Svo er ekki, nema e.t.v. að einhverju litlu leyti séu ár í Noregi og mögulega Kanada eða einhvers staðar annars staðar blanda af slíku vatni.

Ég hef velt því æ meira fyrir mér, herra forseti, hvort það sé ekki í raun þannig að við ættum bara að hverfa frá því að ráðast í stærstu jökulvötnin vegna þess að því fylgja óleysanleg framtíðarvandamál. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að smátt og smátt búum við okkur til eða kynslóðunum sem landið erfa gríðarleg næstum óleysanleg vandamál með því að byggja uppistöðulón, safna öllu setinu saman, fylla þau og skilja eftir eyðimerkursléttur í mikilli hæð yfir sjó sem ég held að verði algjörlega óviðráðanlegar, verði að líflausum fokgjörnum og rokgjörnum eyðimörkum sem engin leið verði að hemja.

Herra forseti. Það er auðvitað ótal margt fleira sem mætti ræða af þessu tagi í sambandi við umhverfisáhrifin af þessum miklu framkvæmdum ef einhvern tímann yrði farið út í þær. En ég held ég láti hér staðar numið og tímans vegna. Ýmsir aðrir hafa gert þessu góð skil. Það vantar ekki gögn til þess að lesa sér til um þessa hluti ef menn vilja hafa fyrir því og nenna því. En ég bið menn a.m.k. um að gerast ekki svo forherta í sínum málflutningi hér að þeir reyni að gera lítið úr eða skauta yfir þennan þátt málsins eins og hann sé bara ekki til staðar lengur, hann hafi bara horfið efnislega í burtu með einum úrskurði eins umhverfisráðherra, einni pólitískri valdbeitingu þar sem faglegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar var snúið á haus með algerlega óframbærilegum rökum að mínu mati. Það var látið heita svo að sett séu þar skilyrði sem fæst breyta neinu í grundvallaratriðum um framkvæmdina sem er leyfð þvert ofan í niðurstöðu hins faglega úttektaraðila. Þó það sé í sjálfu sér til bóta, eða væri frekar en ekki neitt, að eltast við bæjarlækinn í Snæfelli þá breytir það ekki hinu að hæstv. ráðherra sneri niðurstöðunni við og féllst á framkvæmdina, og reyndar það sem merkilegra var og í raun og veru ótrúlegra, ráðherra gerði það þrátt fyrir að fallist væri á að ekki bæri að reikna til mótvægis hin efnahagslegu rök. Það var jú þannig að þegar Landsvirkjun setti fram sína skýrslu þá teiknaði hún vog og í annarri vogarskálinni voru umhverfisáhrifin, náttúruspjöllin sem Landsvirkjunarmenn viðurkenndu. Þeir viðurkenndu að umhverfisáhrifin væru umtalsverð, verulega neikvæð mörg hver og óafturkræf. En þeir sögðu: ,,Það er svo mikið gull í hinni skálinni að hún vegur þyngra.`` Það var réttlæting Landsvirkjunar fyrir því að ráðast í framkvæmdina. ,,Gullið í hinni skálinni vegur þyngra.``

Hvað gerist svo? Skipulagsstjóri kemst að því að þetta sé ekki rétt mat, umhverfisröskunin sé svo mikil og óafturkræf að meintur þjóðhagslegur ávinningur af verkinu dugi ekki til. Með öðrum orðum: Skipulagsstjóri segir: ,,Þetta er öfugt. Hin skálin er þyngri.`` Og hann fellir virkjunina. Hún fær falleinkunn. Þá fer málið til umhvrh. Þá gerast þau undur og stórmerki að ráðherra segir: ,,Það er rétt hjá Náttúruverndarsamtökum Austurlands að lögin um mat á umhverfisáhrifum gera ekki ráð fyrir því að þjóðhagslegum ávinningum eða tapi eftir atvikum af framkvæmdum sé blandað inn í matið. Það er annað og óskylt mál. Við hér í umhvrn. metum bara umhverfisáhrifin.``

Þá hefðu menn nú haldið að málið væri einfalt úr því skipulagsstjóri, matsstofnunin komst að þeirri niðurstöðu að umhverfisáhrifin ein væru þyngri en gullið og þá yrði nú ekki umhvrh. í vandræðum þegar gullið væri farið burtu, þegar sú skál er tóm. Það er ekkert eftir nema umhverfisáhrifin í annarri. Þá yrði umhvrh. ekki í vandræðum með að segja: ,,Þetta gengur aldrei því ég er hér með í höndunum niðurstöðu skipulagsstjóra um að það séu veruleg neikvæð óafturkræf umhverfisáhrif samfara þessari framkvæmd og það á ekki að blanda meintum þjóðhagslegum ávinningi neitt inn í það mál. Það er annað mál.`` En hvernig í ósköpunum gat þá umhvrh. komist að annarri niðurstöðu en þeirri að úrskurður skipulagsstjóra skyldi standa? Hvernig í ósköpunum gat hún það? Jú, bara með því að beita pólitísku valdi. Það var ekki hin faglega eða efnislega niðurstaða málsins sem átti að ráða ferðinni heldur pólitík. Og ráðherra var búinn að lýsa þessu yfir fyrir fram þannig að hún var auðvitað vanhæf í málinu. Hæstv. umhvrh. hafði sagt: ,,Ég er bundin af stefnu ríkisstjórnarinnar.`` Þegar úrskurður skipulagsstjóra lá fyrir sögðu hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh.: ,,Það er stefna ríkisstjóranrinnar að byggja þessa virkjun. Við höfum valdið. Það er stefna okkar að byggja þessa virkjun.`` Svo miklu skiptir eitt stykki skipulagsstjóri og vinna hans.

Svona er málið í hnotskurn, herra forseti. Þetta er einhver naktasta valdbeiting sem lengi hefur farið fram þvert á fagleg og efnisleg rök og sjónarmið í einu máli. Það er algerlega nakið og það sem afhjúpar það umfram allt annað er sú uppákoma í málinu að umhvrh. fellst á, sem eðlilegt og rétt er því þannig eru lögin um mat á umhverfisáhrifum, að það beri ekki að blanda þjóðhagslegum þáttum inn í matið, að eingöngu eigi að meta umhverfisáhrifin sem slík. Þess vegna var það auðvitað með ólíkindum að niðurstaðan skyldi geta orðið þessi.

Herra forseti. Um arðsemi þessa fyrirtækis hefur mikið verið deilt. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur farið þar með miklar þulur sem hv. þm. hefur lært um 10--14, eða hvað það nú er, margra milljarða arð af þessu öllu saman, gefnum miðað við tilteknar forsendur. En staðreyndin er engu að síður sú að fjöldi hagfræðinga, óháðra aðila sem á eigin forsendum og af sjálfsdáðum eða vegna verkefna sinna hjá stofnunum eða fyrir samtök hafa sest yfir að reikna þetta mál, hefur komist að gagnstæðri niðurstöðu. Og það rignir inn efasemdum ofan á allt annað um að ekki sé nokkur glóra í þessu dæmi þjóðhagslega, í fyrsta lagi vegna framkvæmdarinnar sem slíkrar óháð öllu öðru, að arðsemin af því að reisa og reka virkjunina og selja rafmagnið til álversins á Reyðarfirði, ef það yrði nú einhvern tímann, sé bara einfaldlega ekki nóg miðað við þá áhættu sem tekin er og miðað við þá fjármuni sem bundnir eru.

Ef þetta er nú svona eins og margir hagfræðingar hafa metið og í raun flestir, held ég, sem komið hafa að málinu á óháðum forsendum --- það eru fyrst og fremst hinir sem eru í vinnu við að hafa þá skoðun að þetta gangi upp sem hafa komist að þeirri niðurstöðu --- hvernig lítur þá dæmið út þegar við tökum heildarmyndina fyrir, þegar við munum eftir því að í reikniverkinu þar sem sumir fá út plúsa en aðrir mínusa er náttúran metin á núll, 0,0 krónur? Hún er ókeypis fyrir Landsvirkjun í þessu dæmi. Kringilsárrani er ókeypis. Lindur eru ókeypis. Dimmugljúfur eru ókeypis. Lagarfljót er ókeypis. Það er þannig. Er sú tilfinning sem menn hafa yfirleitt að þetta sé einskis virði? Nei, ég held ekki.

Síðan þurfum við að muna eftir því að þó að íslenska hagkerfið hafi stækkað frá dögum Búrfellsvirkjunar --- og það er rétt hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni --- þá er það nú samt ekki stærra en svo að þetta verður verulegur viðbótarskuldabaggi á þjóðarbúið, mældur í a.m.k. 100 milljörðum eða eitthvað vel inn á annað hundrað milljarða króna, því að verulegu leyti mun þetta fé koma erlendis að sem lánsfé. Þó menn horfi á lífeyrissjóði í landinu þá dugar það ekki til vegna þess að þeir mega ekki setja svo mikið fé í einstakt verkefni eins og þyrfti til þess að um þá munaði eitthvað að ráði í þessu dæmi. Landsvirkjun verður að taka sinn kostnað upp á kannski 120 milljarða, eða hvað það nú yrði, að langmestu leyti að láni erlendis. Ekki tekur hún það úr vasanum. Þó að fjármunamyndun í því fyrirtæki kunni að vera 4--6 eða jafnvel 8 milljarðar á ári þá dugar það skammt upp þá í 120 milljarða sem þarf að reiða fram á tveimur til þremur árum. Er það ekki? Síðan bætast auðvitað erlendar viðbótarskuldir á þjóðarbúið vegna álversframkvæmdanna, ef þær yrðu o.s.frv.

Þetta ber upp á tíma þegar íslenska þjóðarbúið er skuldsettara erlendis en nokkru sinni fyrr. Það er nú allur árangurinn af góðærinu margumtalaða að skuldir Íslendinga erlendis eru meiri en þær hafa nokkurn tíma áður orðið í sögunni og þær hafa aukist með ískyggilegum hraða á síðustu árum. Ofan á þessar skuldir mundu þessar framkvæmdir bætast.

Það er algjörlega ljóst að það mun hafa áhrif á lánstraust ríkisins út á við. Matsfyrirtæki munu horfa til þess ef ofan á erlendar skuldir sem mælast nú meiri en landsframleiðsla í fyrsta sinn í sögunni --- þær fóru fram úr því á miðju síðasta ári, eru orðnar um 240% af útflutningstekjum þjóðarinnar þannig að þó að við keyptum ekkert einasta hæti frá útlöndum og notuðum hverja einustu krónu sem inn kæmi vegna útflutnings í tvö og hálft ár þá dygði það varla til að borga upp skuldirnar að viðbættum vöxtum á þeim tíma. Við erum því ekkert í sérstaklega góðri stöðu til þess að ráðast í risafjárfestingu og risaskuldsetningu af þessu tagi. Það mun hafa áhrif á lánshæfismatsstöðu Íslands. Ég er algjörlega sannfærður um það og það mun hafa áhrif á margt fleira.

[14:15]

Fyrir liggur að hækka verður vexti um jafnvel allt að 2,5%, þ.e. stýrivexti sem yfirleitt leita nú beint út í útlánsvexti bankanna. Þess vegna heita þeir stýrivextir að þeir eru tæki til að hafa áhrif á vaxtastigið upp og niður. Ef menn skoða þróunina síðustu missirin af því menn hafa haft tilhneigingu til þess og tilburði uppi til að reyna að útlista það að stýrivextir hafi engin áhrif ... (HjÁ: Voru ekki bankarnir að lækka vexti núna?) Já, bankarnir að lækka vexti. Kætast þeir geysilega hér hv. þm. Hjálmar Árnason og Einar Már Sigurðarson, bankarnir voru að lækka vexti. (Gripið fram í.) En hvað eru þeir búnir að gera síðustu árin? Það er þannig að bankarnir hækkuðu vexti sína meira en Seðlabankinn hækkaði stýrivextina. Þeir fylgdu öllum vaxtahækkunum Seðlabankans upp á við sl. þrjú ár og 20--30% í viðbót. Þetta er birt í gögnum frá því í gær eða í fyrradag. Þannig að þó að Landsbankinn hafi allt í einu ákveðið að reyna að skora gullmark með þessari vaxtalækkun núna. (Gripið fram í: Íslandsbanki.) Íslandsbanki í kjölfarið að sjálfsögðu. Þetta var gert undir þeim mótmælum að það væri Seðlabankinn sem ætti að gefa tóninn en ekki Landsbankinn. Út af fyrir sig er það rétt. Almennt er talið heilbrigðara og skynsamlegara að Seðlabankinn sem hefur þá lögbundnu skyldu að reyna að stilla tækið gefi tóninn.

En hvað um það, þetta blasir við. Vaxtahækkun, aukin verðbólga og spenna á vinnumarkaði. Allt mun það fylgja þessum framkvæmdum ef í þær verður ráðist. Svo ræða menn um mótvægisaðgerðir, að draga úr öðrum opinberum framkvæmdum á meðan, skera niður ríkisútgjöld og guð má vita hvað. Þessi þáttur málsins, herra forseti, er því ekki mjög félegur í beinu framhaldi af náttúruspjöllunum og umhverfisáhrifunum.

Þá skulum við víkja að þeim þætti sem sumir hafa gert að aðalatriði þessa máls, rekið það eins og það snerist eingöngu um eitt, þ.e. byggðamál. Sumir hafa látið sem þetta sé eingöngu byggðamál. Vegna erfiðleika á Austfjörðum, eins og reyndar víðar í landinu, að þar hafi fólki fækkað og séu framtíðarhorfurnar ekki nógu góðar þá sé þetta rakið mál af því þessu muni fylgja atvinna og störf. Fyrir vikið á að ráðast í Kárahnjúkavirkjun og byggja risaálver á Reyðarfirði.

Er það þannig að það dugi okkur og nægi? (HjÁ: Það segir Byggðastofnun.) Er alveg sama hvað við gerum bara ef því fylgja störf, atvinna? Erum við á því stigi stödd i umræðum um umhverfismál og þjóðhagsmál á Íslandi að okkur nægi svo einföld röksemdafærsla? Við þurfum ekki að deila um að það er erfitt á Austfjörðum eins og víðast hvar á landsbyggðinni á Íslandi, byggðastefna stjórnvalda meira og minna ónýt og mislukkuð.

Við þurfum ekki að deila um að það er erfitt að vera í forsvari fyrir byggðarlög sem eru í endalausri vörn og menn gengnir þar upp að hnjám. Það skiljum við öll og með þeim mönnum höfum við samúð. En þar með er ekki komin réttlæting fyrir því að gera hvað sem er. Það getur aldrei verið svoleiðis. Við verðum að hafa kjark til þess að standa upprétt og skoða efnislega um hvað málið snýst þó að við vildum gjarnan geta rétt mönnum hjálparhönd sem eiga í erfiðri baráttu í atvinnu- og byggðamálum hvar sem er á landinu.

Þá kemur að því, herra forseti: Er þetta sérstaklega rakið mál til að nota sem inngrip í atvinnu- og byggðaþróun, hvort sem er í landinu almennt eða á einhverjum tilteknum svæðum? Ég held ekki. Ég held að það sé þvert á móti, herra forseti, eitthvað það allra vitlausasta sem menn geta látið sér detta í hug, að taka einstakar stórframkvæmdir af þessu tagi sem e.t.v. verður af og e.t.v. ekki og ætla að setja þær í hið almenna samhengi atvinnu- og byggðamála eða tengja það vanda landsbyggðarinnar í atvinnu- og byggðamálum. Þegar af þeirri einu ástæðu að það hlýtur að vera svo mikilli óvissu undirorpið hvort af svona framkvæmdum verður er mjög vont að menn einblíni á svona hlut. Eða hefur sagan ekkert kennt mönnum? Eru menn ekkert meiddir eftir að hafa beðið eftir álverum hér og álverum þar sem aldrei komu og þurfti að seinka aftur tímaáætlunum vegna? Hefur það ekki dugað mönnum til að átta sig á því að það er hættulegt að setja allt sitt traust á að eitthvað svona komi að lokum og leysi vandann? (KHG: Norðurál kom.) Það hlýtur að vera varhugavert.

Herra forseti. Kannski er þetta síðan að koma á daginn. Menn hefðu betur gáð að sér á Austurlandi. Þeir voru kannski ekki komnir til himnaríkis þó svo miklir kallar sem hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson riðu um héruð og byðu þar álver. Það er spottakorn síðan. Var það ekki síðsumars 1998 sem utanrrh. kom með álver í föðurhendi til Austfirðinga, sem enn bólar ekki á og er eina ferðina enn í óvissu?

Þetta reyndi maður að benda á og segja á sínum tíma: Er ekki svolítið hættulegt að treysta því og trúa á það að þetta komi og leysi vandann? Er ekki reynslan svolítið slæm af því að telja sjálfum sér trú um að eitthvað af þessu tagi komi og kippi öllu í lag, ég tala nú ekki um ef menn ganga lengra og sannfæra sjálfa sig um að ekkert annað komi til greina, ekkert annað sé í boði í staðinn og engir aðrir möguleikar uppi? Það er alltaf hættan þó menn ætli auðvitað ekki að hafa það þannig. Það vill fara þannig að menn setja allt traust sitt á svona tálsýn.

Nú er kannski, herra forseti, að koma upp í þessu máli sú staða --- það skýrist e.t.v. á næstu dögum eða mánuðum --- að aðrir þurfi að svara spurningunni sem iðulega hefur verið dembt á undirritaðan og hans flokkssystkin: Hvað ætlið þið að gera ef þið viljið ekki álver? Hvað ætlið þið að gera annað en að hafa álver? Getur verið að hæstv. iðn.- og viðskrh. hafi stundum spurt að því? Getur verið að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hafi stundum spurt að því eða hæstv. utanrrh.? (ArnbS: Nóg er af tillögum.) Hvað viljið þið ef þið viljið ekki álver? Það hefur átt að vera verkefni okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði umfram alla aðra flokka að svara því. Það er allt í góðu lagi með það, það skulum við gera. (ArnbS: Hver ætlar að svara því fyrir ykkur?) Það skulum við gera og það höfum við gert, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir.

En hvað ætlið þið nú að gera? (ArnbS: Við erum alltaf að svara því.) Hvað ætlar hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir að gera, sem hefur verið ötulasti talsmaður álvers eða dauðalínunnar um mörg undanfarin ár? Hvað ætlar hæstv. iðnrh. að gera? Hvernig gengur með fjarvinnsluna og annað slíkt? Hvernig er staðan á byggðareikningi ríkisstjórnarinnar ef álverið sem búið er að tala um sem stærsta byggðamál allra tíma kemur ekki? Ég spurði þá á Vestfjörðum um daginn hvort þeir væru ekki miklu nær, með ónýta sjávarútvegsstefnu og allt á niðurleið í landbúnaði, ef risi álver á Austfjörðum. Nei, þeir voru ekki vissir um að það mundi gjörbreyta byggðaaðstæðum á Vestfjörðum, það væri út af fyrir sig ágætt að Austfirðingar teldu sig mundu græða á þessu álveri, ekki sæju þeir eftir því. En þeir sáu ekki að það breytti miklu fyrir þá.

Hver er þá staðan ef ekki einu sinni álverið á Austurlandi kemur? Er þá enginn með móral yfir því að hafa í hartnær fimm ár, eða hvað það nú er, talað út í eitt líkt og þetta væri bjargráðið mikla? Og hæstv. utanrrh. hefur spurt með þjósti hvað annað ætti að halda uppi hagvexti í landinu ef álverið kæmi ekki. Hann setti fram þá merku kenningu að það væri sérstaklega erfitt viðfangsefni fyrir Íslendinga að halda hér uppi nógu miklum hagvexti vegna þess að þjóðin væri hlutfallslega ung og margt ungt fólk á leiðinni á vinnumarkað. Það er undarlegasta hagfærðikenning sem ég hef heyrt norðan Alpafjalla af því aðrar þjóðir líta á það sem auðlind að eiga fjölmenna árganga ungs og vel menntaðs fólks á leiðinni á vinnumarkaðinn. En það er af því menn hugsa þetta öðruvísi heldur en álnauðhyggjumennirnir. Menn hugsa sem svo: Ef við sköpum skilyrðin mun unga fólkið vinna úr þeim og skapa sér störfin sjálft, við þurfum ekki að búa þau til fyrir það.

Herra forseti. Ég tel að einna verstur við þessa þrönghyggju og nauðhyggjunálgun sé sá hugsunarháttur að það séu stjórnmálamennirnir, helst ráðherrar, sem eigi að koma með kassa, risafabrikkur, slengja þeim niður og búa til störf. En þó að undirstöðurnar séu allar að hrynja og það hafi aldrei verið erfiðara en einmitt nú, hlutfallslega, borið saman við höfuðborgarsvæðið að reka atvinnustarfsemi á landsbyggðinni er ekki tekist á við það. Flutningskostnaðurinn er hærri en nokkru sinni og annað í þeim dúr. Nei, það á að leysa þetta með verksmiðjum. Kössum. Komum með þessa og skellum henni hér. Störf til þess að unga fólkið okkar fái vinnu.

Þetta er að mínu mati einhver vitlaustasta nálgun sem hugsast getur í sambandi við atvinnuuppbyggingu og þróunarmál og algjörlega öfug við það sem aðrar þjóðir sem náð hafa árangri að undanförnu hafa gert.

Írar telja sig ekki þurfa að hafa vit fyrir sínu unga fólki og ákveða að allt eigi að vinna í álverum. Mér er ekki kunnugt um að það sé verið að byggja eitt einasta álver þar. En þar eru lagðir miklir fjármunir í menntun, samgöngur og í innviði samfélagsins. (ArnbS: Gerum við það ekki líka?) Nei, við gerum það ekki, hv. þm. Það þyrfti að gera miklu betur í því. Við erum mjög aftarlega á merinni í hópi OECD-þjóða þegar þær mælistikur eru skoðaðar, því miður. (Iðnrh.: Hvar á að taka peningana? Á tunglinu?) Mér sýnist að þar gætu ýmsir lagt svolítið í sameiginlega sjóði, hæstv. ráðherra, t.d. stjórn Landssímans. Hún er aflögufær, held ég --- getur borgað skatta og ýmsir fleiri. ( Gripið fram í.)

Herra forseti. Betra væri að menn hefðu manndóm í sér til þess að standa að því að leggja á skatta með eðlilegum hætti til að afla tekna í sameiginlega sjóði, reka hér öflugt samábyrgt velferðarkerfi og greiða götu nýsköpunar, menntunar, rannsókna og þróunar í landinu eins og aðrar þjóðir gera, kappkosta að gera og verja miklu fé til.

Tökum Finna sem dæmi. Þar eru meðaltekjur þó nokkru lægri en á Íslandi. Þar eru menn nýkomnir út úr gríðarlegum erfiðleikum sem leiddu af hruni Sovétríkjanna, þegar á einu bretti hurfu yfir 20% af útflutningstekjum Finnlands, gufuðu nánast upp á einu ári. En þeir gáfust ekki upp með markvissa stefnu sína í átt að því að hlúa að vísindum, rannsóknum og þróun. Þeir leggja miklu hærri hundraðshluta af ríkisútgjöldum sínum til slíkra hluta en við. Þeir uppskera líka bærilega. Halda menn að Nokia sé orðið það stórveldi í heimi fjarskipta sem það er í dag bara upp úr þurru, af tilefnislausu, það hafi bara dottið af himnum ofan eins og álver? Nei, slíkum hlutum rignir ekki af himnum. Nokia og það mikla net undirverktaka sem það byggir á er afleiðing af markvissri stefnu í Finnlandi um að leggja fjármuni í rannsóknir og þróun, veðja á hátækni og þekkingargreinar og reka framsækna stefnu.

Af einhverjum ástæðum, herra forseti, er það þannig að álver eru yfirleitt ekki efst á lista hjá þeim þjóðum sem þykja skara fram úr og reka framsækna atvinnustefnu.

Að lokum, í sambandi við álver sem byggðaaðgerð og til að skapa atvinnu: Er það ekki u.þ.b. þannig, herra forseti, að hvert starf sem verður til ef þessi virkjun yrði reist og þetta álver, kostaði um 400 millj. kr., um 400 millj. kr., sem að uppistöðu til yrðu teknar að láni erlendis? Það þarf nú pínulítið til að borga það niður. Þau þurfa að gera vel í blóðið sitt, þau störf, ef maður horfir á þetta þannig. Auðvitað er það þannig að það er leitun að dýrari aðferð í heiminum til að skapa atvinnutækifæri en þeirri að byggja álver.

[14:30]

Setjum þetta í íslenskt samhengi sem við skiljum vel. Það eru 400 milljónir hvert starf. Hvað skapast mörg störf? Er það rangt? Hver er talan? Er ekki pakkinn talsvert á þriðja hundrað milljarða króna? Það hlýtur einhver að vera með reiknivél hérna og geta slegið þetta inn. Ég er nú ekki með hana í ræðustólnum. Sú var tíðin að ég reiknaði hér út dæmi einu sinni við mikla hrifningu og fögnuð. En það er nokkuð síðan. En þetta er u.þ.b. svona. Stærðargráðan er alla vega þessi. Hvað kostar starf á nýjum frystitogara? Jú, þetta er sambærilegt við það, herra forseti, að þrír menn fengju vinnu ef keyptur væri inn í landið 1.200 millj. kr. frystitogari. Þá sjá menn kannski samhengið. En þeir eru náttúrlega 30--50 þegar áhöfn, afleysingamenn og umsvif í landi á bak við eitt stykki frystitogara eru tekin. (Gripið fram í.) Þá er ég ekki að tala um óbeinu störfin. Ég er bara að tala um þau sem eru beint á launaskrá vegna umsvifa í viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki. Ætli það sé ekki þannig að á stóru frystitogurunum með afleysingamönnum séu 25--30 manns og það er örugglega óhætt að reikna með að allmörg störf séu beint á launaskrá í landi vegna viðkomandi skips. Við erum því að tala um að í staðinn fyrir að þrír menn fengju störf með tilkomu nýs frystitogara þá séu það 30 eða fleiri, sem sagt a.m.k. tíu sinnum fleiri.

Það þykja nokkuð dýr tæki, stórir skuttogarar, er það ekki? Jú. Ég man eftir því að hér var einu sinni þingmaður sem hneykslaðist yfir því að rekstur Háskóla Íslands kostaði jafn mikið og tveir togarar. Hann taldi það til marks um fráleita ráðstöfun fjármuna. Sú var tíðin. En það er önnur saga. En það var nú til marks um það hvað togarar væru dýrir eða háskólinn óþarfur, held ég.

En þetta er svona, herra forseti. Það er auðvelt að sanna með dæmum að það er eiginlega leitun að dýrari leið ef menn vilja búa til störf, en að ráðast í svona stóriðju.

Í ferðaþjónustu, ef ég man rétt, herra forseti, voru kenningar uppi um að hvert ársverk kostaði í mesta lagi 10 milljónir vegna þess að þar er yfirleitt ekki um mjög fjárfestingarfreka atvinnugrein að ræða. Auðvitað verður að hafa í öllum þessum samanburði að afraksturinn eftir hvert starf er ekki endilega sá sami, að sjálfsögðu ekki. (ArnbS: Nú, er það ekki?) Nei, nei. (ArnbS: Nú, þarf að taka það með?) Vissi hv. þm. þetta ekki? (ArnbS: Þú varst að segja að ...) Það er gott að geta frætt hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um þetta. Það er ekki endilega víst að þjóðhagslegur ávinningur hvers starfs sé sá sami eða framleiðni. En þó er það þannig ef við erum að horfa á þetta sem spurningu um að skapa störf, að þá er ársverk ársverk. Tekjurnar eru eitthvað mismunandi og það er fullkomlega gilt að horfa á stofnkostnaðinn sem hverju ársverki í hverju starfi er þá samfara. Svo getum við farið út í víðtækari samanburð og skoðað framleiðnina á bak við störf í mismunandi greinum o.s.frv. allt saman. Það er verkefni fyrir Hagstofu og Þjóðhagsstofnun og aðra slíka aðila.

En ef við segjum að stofnkostnaður við ársverk í ferðaþjónustu t.d. sem er ört vaxandi atvinnugrein og skilar miklum gjaldeyristekjum og skaut m.a. stóriðjunni ref fyrir rass á árinu 2000 og varð gjaldeyrisskapandi landsins númer tvö, þá erum við að tala um að kostnaðurinn sé 1/40 á bak við ársverk af því sem hann er í stóriðjuuppbyggingunni. Þarf ekki eitthvað að huga að þessu? Jú, ég held það. Ég held það skipti máli. Sérstaklega af því að við erum ekki í þeirri stöðu, herra forseti, að geta leyft okkur hvað sem er. Við erum ekki skuldlausir olíubarónar á Íslandi. Ég segi nú eiginlega, sem betur fer því ég er ekki viss um að það væri öfundsvert hlutskipti. (Gripið fram í: Mundir þú styðja það?) Ja, ég mundi alla vega ekki styðja það, herra forseti, ef það þýddi samfélag af því tagi sem sums staðar fyrirfinnast í þeim ríkjum. Ég mundi ekki styðja það þar sem menn eru hættir eða hafa kannski aldrei unnið mjög mikið, flytja inn fólk til að vinna vinnuna og lifa á olíugróðanum og eyða miklum fúlgum í spilavítunum í Monte Carlo. Þar er sérstakt leðurherbergi, ef hv. þm. veit það ekki, sem er opnað örsjaldan á ári, fyrst og fremst þegar ættingjar sádi-arabísku konungsfjölskyldunnar koma í bæinn. Og þá er lagt mikið undir. (Gripið fram í.) Já.

Herra forseti. Ég held að það sé mjög hollt að gera sér grein fyrir því undir öllum þessum málflutningi um þetta mál sem byggðamál og að það sé eitthvað sérstaklega sniðug, einföld og ódýr aðferð til þess að búa til störf, að það er þvert á móti akkúrat öfugt, fyrir nú utan það að þó svo að þetta kynni að ganga eftir á eins og einum stað á landinu --- það verður nú varla meira að gert í þessum efnum á næstu tíu árum eða svo --- plús kannski eftir atvikum einhver stækkun annars staðar, hvað þá með alla hina? Hvað með alla hina? Það virðist aldrei mega nefna það --- en ég geri það nú samt þó það fari óskaplega í taugarnar á mönnum, veit ég, sem eru að reyna að selja mönnum þetta sem byggðamálið mikla --- að menn eru nákvæmlega engu nær og sennilega heldur verr staddir að óbreyttu annars staðar í landinu þó þetta gerðist þarna eystra. Það verður að ræða þessa hluti eins og þeir eru. Strax þegar kemur norður til Vopnafjarðar eða suður á Djúpavog þá viðurkenna menn það fúslega að þeir sjái ekki að þó þetta álver risi á Reyðarfirði mundi það breyta miklu fyrir þá. Það er frekar uggur í mönnum en hitt af því þeir sjá þann möguleika að þetta dragi eitthvað af starfskröftum frá þeim, gjarnan þá sem þeir síst mega missa, vélstjórana af skipunum eða tæknimennina úr fyrirtækjunum í landi og eftir stæðu menn jafnvel verr settir en áður ef eitthvað er, og svo hringinn í kringum landið, norður um og vestur um þangað til fer að gæta áhrifa frá höfuðborgarsvæðinu upp á Akranes og upp á Vesturland, og suður hringinn svona austur um Þjórsá og eitthvað lengra kannski, austur undir Eyjafjöll. En ætli menn telji sig njóta nálægðar höfuðborgarinnar mjög þegar lengra austar kemur.

Herra forseti. Ef engin breyting verður að öðru leyti á hinum undirliggjandi orsökum byggðavandans, atvinnu- og byggðavandans, þá þýðir ekkert að reyna að selja mönnum það að þetta einstaka verkefni geri menn betur setta annars staðar. Það er bara algjörlega ómögulegt. Það gengur ekki. Sú röksemdafærsla hrynur um sjálfa sig eins og spilaborg. Og er þá eftir sá þáttur málsins að það er boðað af fjmrn., af Seðlabankanum og af Þjóðhagsstofnun að óhjákvæmilegt verði að draga úr öðrum framkvæmdum og skera niður ríkisútgjöld á meðan þannig að í raun snýr málið svo að Vestfirðingum, Norðlendingum og Sunnlendingum og okkur öllum að það yrði sennilega að draga úr opinberum framkvæmdum og skerða ríkisútgjöld á meðan til að aftra því að hér færi eina ferðina enn allt á hvolf og við læstumst í vítahring þenslu, spennu á vinnumarkaði, vaxandi verðbólgu, hærri vaxta o.s.frv.

Hvað er hægt að skera niður? Örorku- og ellilífeyri? Ja, ég vona nú að menn hlífi því í lengstu lög. En þá eru það hlutir eins og vegaframkvæmdir og annað slíkt þar sem menn bera alltaf niður. Hverju frestuðu menn til að slá á þenslu hérna fyrir tveimur, þremur árum? Það var aðallega tvennt. Það var skálinn hérna við þinghúsið. Ekki verður hægt að fresta honum endalaust nema menn passi sig á að hætta strax til að sé hægt að halda áfram að fresta. Og svo eru það vegir. Ha! Skálinn og vegir! Er það þá það sem menn sjá fyrir sér? (Gripið fram í.) Nei, það verður engum sendiráðum frestað. Það var gefið í með þau, enda eru þau í útlöndum og valda þenslu í Japan en ekki á Íslandi. Þannig er nú þetta.

Herra forseti. Ég tel þess vegna í ljósi þeirrar óvissu sem orðin er uppi með þetta verkefni að menn eigi að horfast í augu við það að veruleg hætta er á því að mikið bakslag komi í þróun atvinnu- og byggðamála eystra ef heldur sem horfir og ekki verður af þessum framkvæmdum, einfaldlega vegna þess að þar hafa verið kynntar upp og byggst upp miklar væntingar. Og það er algjörlega skiljanlegt. Skárra væri það nú eftir allan málflutninginn um allt hið góða sem þessu ætti að fylgja. Þess vegna hlýtur það að verða áfall, a.m.k. fyrir þá forustumenn sem hafa lagt allt í sölurnar, lagt sjálfa sig gjörsamlega undir og tekið svo trú á þetta mál að um það mætti ýmislegt segja í sjálfu sér. Þeir hljóta að eiga um sárt að binda. Ég segi: Það er skylda okkar allra að reyna þá að standa þannig að málum að reynt verði að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem slíku verða samfara. Ég tel að stjórnvöldum sé skylt að huga strax að aðgerðum eystra til þess að fullvissa menn þannig að hvað sem þessari óvissu líði þá skynji menn ábyrgð sína á því að þarna séu að skapast sérstakar aðstæður sem þurfi að taka á.

Það er hægt að ráðast strax í jarðgangagerð milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Það er þörf og góð samgönguframkvæmd, tiltölulega arðsöm. Það á að mínu mati að drífa í henni algerlega óháð því hvað verður með þetta stóriðjumál og jafnvel setja á hönnunarborðið fleiri stórframkvæmdir þarna eystra sem líka er brýnt og þarft að ráðast í. Með því erum við að vinna það að þessar samgöngubætur koma, en við erum líka að segja við fólkið að það verði ekki skilið eftir. Þó að þessi áform gufi upp þá verða menn ekki skildir einir eftir.

Nú eru auðvitað nákvæmlega sambærilegar og mjög erfiðar aðstæður víða annars staðar í landinu. Það vitum við. En þetta mál og allt sem kynnt hefur verið upp í kringum það gerir aðstæður þarna eystra núna nokkuð sérstakar. Það held ég við hljótum að geta verið sammála um. Ég ætla nú ekki að fara að líkja þessu við einhverjar náttúruhamfarir eins og Vestmannaeyjagosið eða aðra slíka hluti sem gengið hafa yfir önnur byggðarlög. En í öllu falli er algjörlega ljóst að fyrir því eru ótal fordæmi að þegar sérstakar aðstæður skapast af þessu tagi sé gripið til sérstakra aðgerða.

Við höfum lagt þetta til. Hér er til meðhöndlunar í þinginu till. til þál. um sértækar byggðaaðgerðir, svæðisbundna byggðaáætlun fyrir Austurland, sem við hugsum að vísu sem lið í stærra átaki af því tagi sem taki til landsins í heild. En það mætti gjarnan og ætti að mínu mati og okkar að hefjast handa á Austurlandi eins og aðstæður eru þar nú.

Herra forseti. Tímans vegna held ég að ég snúi mér næst lítillega að framtíðaráformum og stöðu í virkjunarmálum sem tengist auðvitað efni þessa frv. og hafi það svona aðalinntakið í því sem ég læt hér sagt til viðbótar. Vísa ég þá m.a. í fylgiskjal með frv. sjálfu þar sem er greinargerð Orkustofnunar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði með hliðsjón af stækkun álvera á Suðvesturlandi og öðrum orkuþörfum. Ég tek það fram að prýðilegt er að fá þessa greinargerð því hún setur hlutina í mjög glöggt samhengi. En hún er líka afar áhugaverð lesning og þörf. Ég hvet hv. þm., ef einhverjir væru sem ekki hafa skoðað hana enn þá, að gera það hið snarasta, af því, herra forseti, að hún dregur upp þá mynd sem að óbreyttu blasir við mönnum í orkumálum ef --- og ég tek það skýrt fram --- ef öll áform stjórnvalda í þeim efnum gengju eftir.

[14:45]

Á bls. 23 í grg. með frv. er þetta dregið upp eins og það blasir við okkur núna. Með hliðsjón af áformum stjórnvalda um byggingu Reyðaráls, um stækkun Norðuráls í tveimur áföngum og um stækkun Ísals um þau 30.000 tonn sem álverið þar hefur þegar starfsleyfi fyrir, mundi þetta þýða, herra forseti, að raforkunotkun í landinu ykist á tiltölulega skömmum tíma, úr 8.400 gígavattstundum í 17.500 gígavattstundir. Sem sagt rúmlega tvöfaldast. Það er á borðinu, að rúmlega tvöfalda orkuframleiðsluna í landinu. Munum eftir því að þessi 17.500 gígavattastunda tala rímar við 30.000 gígavattstundir sem ég nefndi fyrr í ræðu minni í samhengi við markaðssetningu landsins erlendis í tilteknum skrautbæklingum. Við erum þar með að tala um að ef þessi áform mundu öll gengin fram þá væri búið að beisla helminginn af því vatnsafli sem menn hafa reiknað með að sé ásættanlegt að nýta og beisla.

Menn skyldu hafa í huga að 30 teravattstundir, 30.000 gígavattstundir, eru hátt hlutfall af öllu nýtanlegu vatnsafli í landinu. Þá yrðu fá vatnsföll á Íslandi eftir ósnortin ef framleiðslan hefði náð 30.000 gígavattstundum. Það sjá menn ef þeir fletta áfram og skoða töflurnar á bls. 24 og aftur á bls. 27, þar sem dregnir eru upp virkjunarkostirnir. Orkustofnun skráir þar af stakri samviskusemi virkjanirnar sem þarf að ráðast í ef þetta á allt að ganga eftir.

Það er ekkert smáræði, herra forseti, sem til þarf ef á að skammta þessum orkuhungruðu úlfum öllum saman rafmagn. Það er Kröfluvirkjun, bæði þriðji og fjórði og fimmti áfangi, þ.e. væntanlega nokkurn veginn fullnýting svæðisins við Kröflu. Það er Búðarhálsvirkjun. Norðlingaölduveita, það þarf hana líka. Hvað er Norðlingaölduveita? Jú, það eru Þjórsárver, herra forseti. Í Bjarnarflagsvirkjun á að fara inn á nýtt, viðkvæmt háhitasvæði sem m.a. hefur gríðarlegt náttúruverndargildi og er aðdráttarafl í ferðaþjónustu, samanber hveraröndina. Ef til vill má taka þaðan einhverja orku þannig að vel fari en svo mikið er víst að það er vandasamt og svæðið er viðkvæmt. Hér er einnig nefnt Reykjanes og Villinganes. Hvað er Villinganes? Það er Jökulsá í Skagafirði og gljúfrin þar. Nefnd er Fljótsdalsvirkjun, þ.e. Fljótsdalsvirkjun með stíflu, væntanlega rétt neðan við Eyjabakka, sú útgáfa. Þar tapast fossaröðin fallega fyrir neðan. Skaftárveita er einnig talin upp. Eru allir með það á hreinu hvað Skaftárveita er? Það mun vera að veita Skaftá í Langasjó, nota hann sem miðlunarlón. Áfram má telja nokkuð hrikalegar framkvæmdir, satt best að segja. Ég geri ráð fyrir að flestum finnist það sem hafa notið náttúrufegurðarinnar á þeim slóðum.

Áfram eru taldar Urriðafossvirkjun og Núps- og Búðarfossvirkjun, þ.e. virkjanirnar í Neðri-Þjórsá, sem ég tel vel að merkja að mörgu leyti sjálfsagt að nýta. Einhvers staðar verður virkjað. Segja má að úr því sem komið er séu fyrir því nokkur rök að nýta fallið í Þjórsá, að sjálfsögðu þannig að það sé ásættanlegt frá umhverfisaðstæðum á viðkomandi stöðum. En það hefur mikla kosti úr því sem komið er að nýta þá þá miðlun Þjórsár sem þegar er til staðar. Ekki þarf að reisa ný miðlunarlón vegna Núpa- og Urriðafossvirkjana. Svo fremi sem ásættanleg lausn finnst vegna nærumhverfisins vil ég láta koma fram að ég ég tel þær virkjanir að mörgu leyti heppilegri en að raska nýjum og ósnortnum svæðum eða ráðast í virkjun vatnsfalla sem enn renna ósnert til sjávar.

Þarna er og talin upp Hellisheiði, Hengillinn og Þeistareykir, þá þarf líka. Hvað eru Þeistareykir? Það er ákaflega sérstætt og fallegt háhitasvæði upp af Kelduhverfi. Það kemur hrollur í suma þegar talað er um að virkja þar. (Gripið fram í: Ertu ekki búinn að taka Torfajökulssvæðið?) Hann er nú ekki kominn inn í þetta enn þá --- þar er mikil litadýð.

Varðandi Þeistareyki veit ég auðvitað að heimamenn hafa lengi rennt hýru auga til jarðhitans á Þeistareykjasvæðinu. Þar hafa menn ekki síður verið að hugsa um að ná jarðgufu, leiða hana t.d. til Húsavíkur og nota í iðnað heldur en kannski endilega raforkuframleiðsluna eina og sér. Ég verð að segja alveg eins og er að það fyndist mér sorgleg nýting á svæðinu ef þar yrði eingöngu virkjað til að framleiða rafmagn og orkunni hent að öðru leyti. Það væri þá a.m.k. mun æskilegra ef hægt væri að gera hvort tveggja.

Í þetta þarf að sjálfsögðu Kárahnjúkavirkjun I og Kárahnjúkavirkjun II, einnig Hólmsárvirkjun. Það er Reykjanes, 2. áfangi, og það er Skatastaðavirkjun. Hvað er Skatastaðavirkjun? Jú, það er virkjunin ofan við Villinganesvirkjun í Jökulsá í Skagafirði sem er í raun sjálfgefið að þurfi að reisa ef ráðist verður í Villinganesvirkjunina sem slíka. Hún mun endast skammt nema til komi miðlunarlón ofar að fanga setið sem áin ber með sér.

En það er ekki allt búið enn, herra forseti, því að í þessari greinargerð Orkustofnunar er haldið áfram. Á bls. 28 er rætt um orkuþörf til vetnisframleiðslu. Það er í sjálfu sér ágætt að Orkustofnun fari líka yfir það. Það vantar nú ekki að hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., ætlar að vetnisvæða landið. En það þarf orku til þess. Þá bætast 4.300 gígavattstundir við. Þá erum við komin vel yfir 20.000 gígavattstundir, búin með meira en 2/3 af allri nýtanlegri vatnsorku sem Orkustofnun og slíkir aðilar telja að hér sé hægt að beisla með skikkanlegu móti. Ég hef vel að merkja alla fyrirvara á þeirri tölu því að ég tel að það sé nær að hún sé 20.000--25.000 gígavattstundir, ef við ætlum ekki að raska stórfljótum eins og Jökulsá á Fjöllum, Skjálfandafljóti, Hvítá og öðrum slíkum. Ég er andvígur því að raska þeim. Ég tel að við eigum að taka á dagskrá að friða nokkur verðmætustu og sérstæðustu vatnsföll Íslendinga frá upptökum til ósa með öllu sem því fylgir.

Þá kemur rúsínan í pylsuendanum, herra forseti, og Orkustofnun á þakkir skildar fyrir hreinskilnina. Kollegar mínir þar skulu teljast menn að meiri að vera jafnhreinskilnir og þeir eru. Þeir segja auðvitað, til viðbótar öllum langa listanum sem ég las upp áðan með Skaftá í Langasjó og öllu því, að meira muni vanta ef það eigi að vetnisvæða, hv. þm. Hjálmar Árnason vill og kannski hv. þm. Drífa Hjartardóttir líka. Nei, ekki endilega. (Gripið fram í.) Ég ætla nú ekki að gera hv. þm. upp skoðanir, ég tek það skýrt fram.

Eigi að vetnisvæða þarf meiri virkjanir, segir Orkustofnun, en bætir við að í töflu II, þeirri sem ég las yfir áðan, séu hvergi nærri allir orkukostir okkar upp taldir. Þeir séu taldir u.þ.b. tvöfalt meiri. Meðal annars er Jökulsá á Fjöllum ekki með í II. töflu en virkjun þess fljóts ein sér gæti nægt til að standa undir nánast allri vetnisvæðingunni. Aha, nema hvað? Ef þessi villtu áform öll um stóriðju eiga að ganga fram eru menn búnir að ganga svo nærri virkjunarkostunum, svo mikið á orkuforðann í vatnsaflinu og að hluta til í jarðhitanum, að það verður fátt annað til að benda á en Jökulsá á Fjöllum þegar á að fara að vetnisvæða. Það er nefnilega það. Svo mikið fer í Dettifoss og Jökulsárgljúfur og þjóðgarðinn þar. Það er nefnilega þannig að það er ekkert að verða óskaplega mikið eftir nema Dettifoss, Aldeyjarfoss, Goðafoss, Gullfoss, Dynjandi og einhverjir nokkrir slíkir, ef þetta á allt saman fram að ganga. Þá skiljum við börnunum okkar eftir þá stöðu að gera upp við sig þegar meiri orku vantar í framtíðinni: Ætlum við að verða án hennar eða að hjóla í þessa kosti?

Þetta, herra forseti, þarf að ræða hér. Það er ekki bara verið að taka afdrifaríka ákvörðun í þeim skilningi að hefja röskun norðausturhálendisins og taka mikla þjóðhagslega áhættu og allt sem því fylgir. Það er verið að ráðstafa gríðarlega stórum hluta af ónýttum orkuforða landsins í þessi risaverkefni og skilja eftir þær erfiðu aðstæður að menn standi frammi fyrir enn þá sársaukafyllra vali gagnvart forgangsröðun virkjunarkosta, friðun eða nýtingu, á komandi árum og áratugum. Hér er því ekkert smámál á ferðinni.

Einhver mesta blekkingin sem uppi hefur vaðið í þessari umræðu er að það sé bara nóg orka, þetta sé ekkert vandamál, við getum tekið álverin hérna inn á færibandi: Komið, komið, opið hús endalaust. Menn láta eins og það sjái hvergi högg á vatni. Það er ekki þannig. Ísland er hlutfallslega orkuríkt samfélag af því að við erum fámenn þjóð og ekki mjög iðnvædd enn þá. En þegar við setjum það í samhengi við orkunotkun í heiminum erum við dvergur. Möguleikar til orkuframleiðslu á Íslandi eru, að mér er sagt, eitthvað svipaðir og í fylkinu Hamborg, þ.e. ef öll nýtanleg vatnsorka og jarðhiti á háhitasvæðum yrðu beisluð þá yrði orkuframleiðslan sem út úr því kæmi svo sem 50 teravött, eitthvað svipuð og notuð er í fylkinu Hamborg. Það er allt og sumt.

Svo halda menn hér alveg endalausar ræður um framlag sitt til umhverfismála í heiminum með því að leggja fram hina umhverfisvænu íslensku orku, eins og hún sé drjúgur hluti, gæti orðið drjúgur hluti af orkunotkun heimsins. Það er nú óskaplega smátt þegar þetta er sett í eitthvert samhengi.

Herra forseti. Auðvitað ætti að ljúka vinnunni að rammaáætluninni Maður, nýting, náttúra. Það á að draga upp heildarmynd af virkjunarmöguleikunum og til hvers við viljum ráðstafa þeim. Það er ekki eins og okkur sé einhver nauð á höndum að rjúka í þetta allt núna. Það er heimatilbúin tímanauð. Ísland er í prýðilega stöðu til þess og hefur vel efni á að taka sér nokkur ár í að ljúka heimavinnunni, kortleggja möguleikana, forgangsraða virkjunarkostunum og leggja niður fyrir sér hvernig við viljum fara í hlutina. Hluti af þeirri ákvörðun á auðvitað að vera að friðlýsa tiltekin vatnsföll og háhitasvæði.

Af því að Torfajökulssvæði var nefnt áðan þá ég tel að það eigi að friðlýsa. Það er ákaflega sérstætt og fallegt svæði með mikla litadýrð og í raun allt svæðið frá Landmannalaugum og niður í Þórsmörk. Það svæði á ekki að hugsa sér til neinnar nýtingar. Það á að friðlýsa Jökulsá á Fjöllum og Kreppu, það á að mínu mati að friðlýsa Skjálfandafljót, a.m.k. vona ég að mönnum detti ekki Goðafoss í hug. Það á að friðlýsa Hvítá, með Gullfossi, og nokkur fleiri verðmæt vatnasvið.

Þetta hafa ýmsar nágrannaþjóðir þegar gert. Þekkt er tímamótaákvörðun Norðmanna frá því fyrir tveimur, þremur árum, að þar væri lokið uppbyggingu stórra vatnsaflsvirkjana og yrði ekki farið í fleiri slíkar og raskað fleiri vatnasvæðum. Í Svíþjóð gildir sama og hefur lengi gert, ég hygg að það séu ein 20 ár síðan Svíar friðlýstu þau fjögur stórfljót sem eftir eru í Svíþjóð og ekki er miðlað rennsli í. Það er nú allt og sumt í hinu stóra landi, Svíþjóð. Þar eru fjórar stórár eftir sem ekki hefur verið raskað náttúrulegum rennslisháttum í með stíflum, áveitum, skipaskurðum eða öðru slíku. Við verðum að fara að koma þessum málum á dagskrá, á blað hjá okkur.

Þegar menn skoða arðsemi svona verkefna, herra forseti, og skynsemi þess að ráðast í þau, er náttúrlega hægt að hugsa sér að gera þar á samanburð við ýmislegt, einhverjar aðrar framkvæmdir, við að gera þetta öðruvísi en einnig væri hægt að gera samanburðinn við það að gera þetta bara alls ekki. Ég sé það hvergi í þessum plöggum, herra forseti, ekki í nefndarálitunum, alla vega ekki frá meiri hlutanum, að það sem menn hafa þarna í hyggju sé borið saman við núllkostinn. Bíðum við, þarf ekki að reikna það út hvort kemur betur út að gera þetta eða gera þetta ekki? Eigum við ekki að reikna það út? Ég hélt að málið snerist ekki síst um það.

[15:00]

Hvar eru útreikningarnir á því að Landsvirkjun geri þetta ekki, að Landsvirkjun ráðist ekki í slíka fjárfestingu, noti núverandi tekjur sínar til að borga hratt niður skuldir eða eitthvað aðeins hægar og verði annaðhvort skuldlaus á 15 árum eða lækki rafmagnið strax um 20, 30, 40% og verði þá ekki skuldlaus fyrr en eftir 25 ár? Hvaða þjóðhagslegt gildi hefur það? Hvaða möguleikar opnast íslenskum iðnaði? Hvaða möguleikar opnast garðyrkjubændum, t.d. til stórfellds útflutnings í blómarækt, ef þeir fá allt í einu helmingslækkun á orku? Hefur þetta verið reiknað? Ég sé það hvergi.

Fleira getur ýtt undir hagvöxt en viðbótarfjárfestingar. Það getur líka ýtt undir hagvöxt að skapa atvinnulífinu hagstæðari skilyrði. Þeir muna eftir því, íhaldmennirnir, þegar þeir eru að rökstyðja lækkun skatta. Eða skapar það ekki atvinnulífinu hagstæð skilyrði að lækka orkuverð? Jú, og það er nákvæmlega það sem Landsvirkjun getur gert, mér liggur við að segja ef hún fengi frið til þess. Ætli það kæmi sér ekki víða vel ef við gætum stórlækkað hérna orkuverðið sem --- svo hlálegt sem það er --- er hátt, mun hærra en víða í Evrópu. Svo halda menn ræður og gefa út bæklinga um hið geysilega hagkvæma raforkuverð á Íslandi. Hagkvæmt fyrir hverja? Bara fyrir erlendu stóriðjuna sem verið er að lokka hingað inn en ekki fyrir okkur hin sem borgum fimmfalt verð, eða hvað það nú er, á við stóriðjuna.

Menn muna kannski eftir því að í pakkanum gagnvart vanda garðyrkjunnar í landinu, sem landbrh. var að baksast með hérna fyrr í vetur, var m.a. eitt atriði sem sneri að orkukostnaðinum hjá gróðurhúsabændum? Hvert var markmiðið? Það var að reyna að fara í aðgerðir til þess að ná rafmagnsverðinu niður í það sem það er í samkeppnislöndunum. Ergo: það er hærra. Hin græna stóriðja okkar, gróðurhúsin, er að borga hærra raforkuverð en úti á meginlandi Evrópu þar sem það er framleitt með kolum, olíu, jarðgasi eða kjarnorku. Og svo halda menn endalausar ræður og gefa út bæklinga um hinn hagstæða orkubissness á Íslandi --- já, hagstæðan fyrir erlenda stóriðju, sem verið er að reyna að lokka hingað inn, en ekki fyrir innlenda notendur.

Þarna hafa menn ekki unnið heimavinnuna sína, herra forseti, eins og á mörgum öðrum sviðum. Eða er það ekki t.d. svolítið nöturlegt og hlálegt að ein helsta stóriðja landsmanna, mjöliðnaðurinn, fiskimjölsiðnaðurinn, keyrir næstum allur á innfluttri olíu? Það eru kannski eitt eða tvö fyrirtæki sem að einhverju leyti nota rafskautskatla en hafa olíu til vara eða nota hana aðallega. Af hverju er það? Jú, það er af því að orkan er svo dýr. Jafnvel rofin orka, afgangsorka á þeim kjörum, er annaðhvort svo dýr eða illfáanleg að þessi stóri orkunotandi okkar, allar mjölverksmiðjurnar, sem hafa gengið á fullu núna í bráðum þrjá mánuði sem betur fer eða tvo og hálfan, eru allar á olíu. Þar væri nú verk að vinna til dæmis að bjóða þeim hagstæðari samninga og nota þar okkar vistvænu orku. Svo mikil eru ræðuhöldin um það hvað þetta sé allt saman óskaplega, einstaklega umhverfisvinsamlegt, eins og stendur í bæklingnum góða.

Herra forseti. Ég ræddi svo mikið við hv. þm. Hjálmar Árnason hérna fyrir hádegið að ég held ég sleppi því að bæta þar í. Það voru að vísu nokkur atriði sem hann kom inn á sem vöktu nokkra undrun mína, en það er kannski eitt atriði sem ég læt þá nægja að staldra aðeins við og það eru hugmyndirnar um virkjanaþjóðgarða, sem mér finnst vera nokkuð svona geðklofin hugmynd, ég verð eiginlega að játa það. Mér finnst það vera óskaplega mótsagnakennt í eðli sínu að baksast með það í farteskinu í sömu ferðinni að virkja og stofna þjóðgarða því að yfirleitt eru þetta heldur andsnúin markmið hvort öðru. Þau mál standa þannig, ef ég best veit, að um þetta er eitthvert orðalag í nál. meiri hlutans. En hvað er í hendi í þeim efnum? Hverju eru menn nær? Ég held ekki miklu.

Jú, það kann að vera að mönnum hafi verið lofað að nefnd verði sett í málið. Það er ekki eins og það sé algjörlega öruggt þar með að þjóðgarðurinn sé kominn, er það? Það hefur nú ein og ein nefnd verið að störfum eitthvað og ekki komið mikið út úr því.

Staðreyndin er sú að þær hugmyndir eru allar á floti og ekkert í hendi, ekki nokkur skapaður hlutur. Ég mundi ekki gera lítið úr því ef raunverulega væri í sjónmáli einhver árangur gagnvart því að friða svæðið að öðru leyti. Ef þessi ósköp ættu yfir okkur að ganga á annað borð væri það að sjálfsögðu árangur ef við fengjum t.d. gjörsamlega handföst, geirnegld, lögbundin, helst stjórnarskrárbundin ákvæði sem friðuðu Jökulsá á Fjöllum frá upptökum til ósa og allt svæðið þar í kring. En það er bara ekki í boði. Í sama frv., við hvert er skilað nál. þar sem þessar hugmyndir eru reifaðar, bendir Orkustofnun á Jökulsá á Fjöllum sem álitlegan virkjunarkost ef þurfi að vetnisvæða. Það er nú bara svona dapurlegt.

Hvað gerir Landsvirkjun þegar hún þarf að ná sér í viðbótarorku, t.d. um norðan- og austanvert svæðið eftir að Kárahnjúkavirkjun og Jökulsá í Fljótsdal væru virkjaðar? Það þarf ekki mikla hugmyndaauðgi til að sjá að áberandi mest spennandi kosturinn þar á eftir er Kreppa, ef ekki bara Jökulsá á Fjöllum eins og hún leggur sig, að taka hana inn í Fagradals- eða Arnardalslón og síðan austur. Og er það ekki ansi líklegt að það verði verkfræðingar og alls konar spekingar, pólitíkusar og leiðtogar í héraði sem sjái störfin og hagvöxtinn og allt sem því verður samfara að reisa nú annað álver eða Guð má vita hvaða fabrikku og taka til þess orku úr þessari geysilega hagkvæmu virkjun sem kemur með því að bæta Kreppu og Jökulsá á Fjöllum við Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal og sulla þessu helst öllu saman austur í Lagarfljót?

Ég treysti því varlega, herra forseti, þó að það séu einhver orð á blaði um að kannski verði sett nefnd í að skoða það að stækka þjóðgarð til norðurs frá Vatnajökli. Var ekki lofað friðun Þjórsárvera í eina tíð og hvar stendur hún nú? Landsvirkjun vinnur að því hörðum höndum, rær að því öllum árum að taka drjúga sneið af Þjórsárverum með Norðlingaöldumiðlun á næstu missirum. Svo mikið fyrir þau loforð. (Gripið fram í.) Já, við skulum rifja það upp, hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Ég er aldeilis ófeiminn í þá sagnfræði líka. Og það er ekki víst að hv. þm. færi mikið betur út úr þeirri viðureign en Hjálmar Árnason fór út úr því í morgun að saga Framsfl. væri rifjuð pínulítið upp fyrir honum, og var greinilega ekki vanþörf á. Ég held að ég kunni sögu virkjunarmála alveg þokkalega og tel mig ekki hafa flekkað mannorð í þeim efnum.

Að lokum, herra forseti, af því að ég hef talað í nokkurn veginn þær þrjár klukkustundir sem ég hafði hugsað mér og hafði glatt vini mína hér sem spurðu mig áður en ég fór í ræðustólinn með því að svo kynni að fara að mér dygði ekki minna en tvær til þrjár klukkustundir til að koma öllu frá mér, (Gripið fram í.) þá ætla ég að fara að ljúka máli mínu. Þetta er svona stútungsræða, eins og ég mundi segja á mannamáli, borið saman við ýmislegt annað sem flutt hefur verið og margar glæstar ræður einmitt í þessum málaflokki. Ég ætla mér ekki í þau föt að flytja eldmessur af því tagi sem t.d. hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði hér a.m.k. einu sinni, reyndar oftar, sem voru eins og ein samfelld kennslustund og fræðsla og við erum hér einhver enn á þingi sem sátum, ég held bara hverja einustu mínútu, undir sex klukkustunda ræðu þar sem farið var yfir þessi mál frá upphafi, í gegnum söguna og eiginlega meira og minna alla efnisþætti þess. Það var því magnaður fyrirlestur, magnað námskeið í þeim efnum. Ég hefði þurft meiri tíma til undirbúnings og þjálfun ef ég hefði átt að leika það eftir, herra forseti, og gæti það kannski ekki samt.

Það sem ég vil segja að lokum, herra forseti, um þetta mál er að best væri ef við gætum rætt það einarðlega og heiðarlega eins og það er og værum ekki í neinum feluleik hvort gagnvart öðru. Ég er auðvitað á móti málinu. Það er algjörlega ljóst, vona ég. Þá hefur til lítils verið talað í þrjá tíma ef það hefur ekki komist til skila. En einhvern veginn verður þessu auðvitað að ljúka og við verðum að lifa með niðurstöðunni. Það er ágætt að hafa það í huga. Í öllum svona málum sem umdeild eru verður einhvers konar niðurstaða, stundum óljós eða engin, stundum á annan veginn eða hinn og lífið heldur áfram. Þetta mál er fyrst og fremst pólitískt, enda hefur það verið keyrt áfram sem slíkt. Þetta er ekki faglegt mál. Þetta er ekki á forsendum markaðarins heldur er þetta pólitískt verkefni sem ríkisstjórn er að keyra áfram.

Umhverfisspjöllin sem af þessum framkvæmdum hljótast eru óverjanleg. Þau eru það vegna þess að þau eru svo umfangsmikil vegna þess að stóru ósnortnu svæði er raskað, og þau eru það ekki síst vegna þess að þau eru óafturkræf. Alls staðar þar sem þessum málum hefur þokað eitthvað áfram er það látið ráða miklu: Er um að ræða óafturkræfa hluti sem við getum aldrei bætt aftur ef við fórnum þeim einu sinni? Og svarið er já í þessu tilviki. Það er augljóst mál að þetta svæði verður aldrei endurheimt með sínum náttúrlegu gæðum eins og þau eru í dag ef ráðist verður í framkvæmdina.

Arðsemin í þessu verkefni er í þriðja lagi alls ónóg. Þjóðhagslega er þetta ekki spennandi kostur. Fyrir skuldsett íslenskt þjóðarbú er ekki ráðlegt að ráðast í risafjárfestingu fyrir erlend lán af þessu tagi þar sem hvert einasta starf kostar 400 milljónir. Það er heldur ekkert fjöldaatvinnuleysi eða neyð í landinu sem kallar á slíkt, og fjölmargir aðrir kostir eru miklu vænlegri en þessi hér. Hlúum frekar að þeim greinum sem eru álitlegar og í vexti, eins og ferðaþjónustu, lyfja-, heilsu- og snyrtivöruiðnaði, eða stöndum betur við bakið á öðrum sem eiga í vörn.

Er það hyggileg atvinnupólitík fyrir Austurland að láta sjávarútveg og landbúnað hrynja en byggja álver í staðinn? Nei. (Gripið fram í.) Hann á víða í miklum erfiðleikum, hv. þm. Það eru að vísu sem betur fer ein þrjú, fjögur sterk sjávarútvegsfyrirtæki á Austurlandi, en það eru líka miklir erfiðleikar þar í sjávarútvegi víða. Ef við lítum almennt á stöðu minni sjávarbyggðanna, þá er hún víða mjög slæm. Sögu landbúnaðarins ætti hv. þm. eitthvað að þekkja. Ég held að við eigum að horfa á hlutina og setja þá í þetta samhengi. Þetta er ekki skynsamlegur kostur í atvinnulegu tilliti.

Ofan í allt þetta, herra forseti, er málið svo enn þá í hengjandi óvissu. Það er afraksturinn af þessu brölti frá því síðsumars 1998, er það ekki, að enn er allt í óvissu? Finnst mönnum þar vel að verki staðið? Eru menn stoltir af því hvernig þetta hefur gengið, að Austfirðingar eru enn, og landsmenn allir, í sömu hengjandi óvissunni, í raun í heljargreipum málsins þar til niðurstaða fæst í það á annan hvorn veginn? Það væri held ég öllum fyrir bestu að það yrði sem fyrst.

Að lokum, herra forseti, tel ég að sú aðferðafræði, sá hugsunarháttur, sú nálgun mála sem ég hef leyft mér að kalla ,,álver eða dauði``, og eflaust sært einhverja --- en það var nú til þess gert að ýta við þeim og menn fara þá kannski að hugsa --- er ákaflega gallaður framgangsmáti. Reynum að forðast það eins og við mögulega getum í lengstu lög að setja okkur í þær stellingar að við setjum allt okkar traust á einn hlut af þessu tagi sem kannski verður svo ekki og við sitjum eftir eins og illa gerðir hlutir. Við ættum að reyna að læra af sögunni að standa öðruvísi að málum.

Herra forseti. Málið á að leggja til hliðar --- það var óráð frá byrjun og hefur ekki batnað eftir því sem tíminn hefur liðið --- og snúa sér að öðrum og uppbyggilegri, viðráðanlegri og skynsamlegri verkefnum en þeim sem hér hafa verið til umræðu.