Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:15:17 (6519)

2002-03-22 15:15:17# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er tvennt sem ég vildi gera athugasemd við eða fá nánari skýringar á hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég gat að vísu ekki gefið mér tíma til að hlusta á alla ræðu hans, í þessa þrjá klukkutíma, en ég vil bregðast við einhverju af því sem fram kom á þeim tíma sem ég gat hlustað á hann.

Það er þessi makalausi málflutningur Vinstri grænna, að verðleggja störf eins og við værum að leggja það fé fram úr ríkissjóði eða einhverjum ákveðnum sjóði sem ætti að borga þau. Auðvitað er verið að fjárfesta í atvinnutæki eins og álveri af því að arðsamt er að reka það fyrirtæki. Verið er að bera saman einhverjar tölur um að eitt starf í álveri kosti 400 milljónir en 10 milljónir einhvers staðar annars staðar. Þetta er náttúrlega algjörlega fráleitur málflutningur.

Eigum við ekki að hætta allri tæknivæðingu í landinu? Hvað t.d. með Síldarvinnsluna í Neskaupstað sem er búin að tæknivæðast mjög verulega? Átti hún ekki bara að vera enn þá með flökunarborðin, hætta að nota Baader-vélar og hafa bara fleira fólk til að sinna þessum störfum? Og hver skyldi þá framleiðnin vera á hvert starf? Ég spyr af því að slíkt kom lítillega fram í máli hv. þingmanns.

Síðan er þessi umræða um að ekkert annað sé verið að gera á Austurlandi. Mér er farið að leiðast þetta, sérstaklega af því að þessir ágætu þingmenn vita betur. Það hefur verið bætt í stuðning við ferðaþjónustuna, LTU ætlar að fljúga beint á Egilsstaði með stuðningi ríkisins. Einstaklingar vinna að mörgum góðum málum og verið er að stuðla að því að laxeldi og ýmiss konar fiskeldi geti orðið, skógrækt og fleira. Þessi umræða er auðvitað fráleit hjá Vinstri grænum.