Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:24:56 (6523)

2002-03-22 15:24:56# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur skilið ummæli mín um Búrfellsvirkjun og áhrif hennar þannig að ég hafi verið að veitast að félaga hans og einum hugmyndafræðingi Vinstri grænna, Hjörleifi Guttormssyni. Það var alls ekki svo. Það sem ég var að reyna að draga fram er sú staðreynd að heildaráhrif Búrfellsvirkjunar --- þrátt fyrir erfiða sögu hennar í byrjun --- og stóriðjunnar í Ísal við Hafnarfjörð og annarrar starfsemi sem hefur fylgt í kjölfarið af Búrfellsvirkjun eru þegar upp er staðið gífurleg verðmæti fyrir þjóðarbúið og munu skapa frekari verðmæti um ókomna tíð. Það er það sem ég var að draga fram. Ég er hins vegar ósammála mati hv. þm. um að Búrfellsvirkjun hafi verið þjóðarbúinu, þegar upp er staðið, erfið. Um það erum við ósammála.

Ég hef hér spurningar til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar af því að hann gerir mikið úr því að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé afskaplega vafasöm. Nú hefur það komið fram að stjórn Landsvirkjunar hefur lagt mikla áherslu á það og lagt fram afskaplega vandað mat, yfirfarið af eigin sérfræðingum og hlutlausum utanaðkomandi aðilum. Þeirra mat er að þetta sé mjög arðvænlegt. Telur hv. þm. að stjórn Landsvirkjunar, sem við höfum falið umboð til að fara með þetta mikla fyrirtæki, sé vísvitandi að brjóta lög?

Í annan stað hvað varðar byggðaáhrifin. Byggðastofnun og Austfirðingar, þar á meðal aðalfundir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem ítrekað hafa ályktað og telja að þetta sé ein árangursríkasta byggðaaðgerð hvað varðar Austfirði sem hægt er að grípa til. Telur hv. þm. að bæði Byggðastofnun og Samband sveitarfélaga á Austurlandi hafi rangt fyrir sér í þeim efnum?