Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:32:49 (6527)

2002-03-22 15:32:49# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla að lesa upp yfirlýsingu sem aðilar hafa orðið sammála um sem standa að Noral-verkefninu. Yfirlýsingin er óformleg þýðing úr ensku þannig að hún gæti átt eftir að breytast örlítið þegar hún hefur farið í gegnum lögformlega þýðingu.

Ég hef þá lesturinn, hæstv. forseti:

,,Noral-verkefnið um byggingu álvers á Austurlandi og tilheyrandi orkumannvirkja hefur gengið vel og í samræmi við markmið sem sett voru um að ljúka undirbúningsvinnu fyrir endanlega ákvörðun eigi síðar en 1. sept. 2002. Undirbúningsvinnan hefur rennt frekari stoðum undir trúverðugleika verkefnisins og niðurstöður hagkvæmniathugana eru uppörvandi.

Engu að síður hefur Hydro tilkynnt samstarfsaðilum sínum að fyrirtækið sé ekki í aðstöðu til þess að taka endanlega ákvörðun varðandi áframhald verkefnisins fyrir 1. sept. 2002 eins og gert er ráð fyrir í sameiginlegri tilkynningu sem tengdist yfirlýsingu um Noral-verkefnið. Ástæða þessarar ákvörðunar Hydro er einvörðungu sú að fyrirtækið þarf lengri tíma til þess að meta fjárfestingarstefnu sína til næstu ára í kjölfar kaupa þess á þýska fyrirtækinu VAW. Þessi þörf fyrirtækisins fyrir stefnumarkandi endurmat tengist ekki á nokkurn hátt mati á arðsemi Noral-verkefnisins. Í ljósi þessa munu aðilar að yfirlýsingunni halda áfram að starfa að verkefninu með það að markmiði að ákvarða endurnýjaða tímaáætlun.

Þátttakendur í Reyðaráli eru sammála um að það væri ákjósanlegt að fá nýjan aðila að Reyðaráli og þannig minnka eignarhlut íslenskra fjárfesta. Í þeirri vinnu sem er fram undan verði því einnig skoðuð aðkoma fleiri aðila. Sú vinna mun taka aukinn tíma sem erfitt er að setja nákvæm tímamörk.

Þetta millibilsástand dregur fram í dagsljósið ólíka hagsmuni. Hagsmunir íslenskra yfirvalda og Landsvirkjunar hvað varðar tímasetningar fara ekki saman við hagsmuni fjárfesta í sjálfu álverinu. Það er því skilningur þeirra sem standa að Noral-verkefninu að ríkisstjórn Íslands og Landsvirkjun hafi rétt til þess að leita nýrra samstarfsaðila að verkefninu þangað til núverandi aðilar hafa komið sér saman um nýja formlega yfirlýsingu. Þetta breytir hins vegar ekki þeim áformum allra samstarfsaðila að ganga eins skjótt og verða má frá vinnuáætlun til þess að ná endanlegri ákvörðun í Noral-verkefninu. Í samræmi við þetta verður fundur í júníbyrjun þar sem staða mála verður endurmetin.``

Þá hef ég lokið lestri yfirlýsingarinnar en mig langar til, hæstv. forseti, að nefna í nokkrum orðum þau atriði sem mér finnst mikilvægust og þarna koma fram.

Í fyrsta lagi það að samstarfið við Norsk Hydro heldur áfram.

Í öðru lagi. Verkefnið er hagkvæmt þannig að það stendur ekki í vegi fyrir áframhaldandi vinnu.

Í þriðja lagi. Norsk Hydro er ekki í aðstöðu til að taka endanlega ákvörðun fyrir 1. sept. 2002. Ástæðan er sú að fyrirtækið telur sig þurfa lengri tíma til að meta fjárfestingarstefnu sína til næstu ára.

Í fjórða lagi. Hydro og Hæfi hafa í hyggju að ljúka þeirri vinnu sem fram undan er við mat á stöðu mála eins fljótt og auðið er.

Í fimmta lagi. Það sem er mikilvægast er að stjórnvöld og Landsvirkjun hafa áskilið sér rétt til að leita nýrra samstarfsaðila, annarra en Hydro, að verkefninu þar til núverandi aðilar hafa komið sér saman um nýja formlega yfirlýsingu.

Í sjötta lagi. Engu að síður munu allir aðilar ganga frá vinnuáætlun um endanlega ákvörðun um Noral-verkefnið eins skjótt og auðið er.

Og í síðasta lagi. Í samræmi við það verður fundur í júníbyrjun þar sem staða mála verður endurmetin.

Þetta vildi ég að kæmi fram í umræðunni.