Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:44:35 (6534)

2002-03-22 15:44:35# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt vegna þess að við erum búin að tala svo lengi við Norsk Hydro að við teljum mikilvægt og það mikilvægasta í yfirlýsingunni einmitt vera það að við erum ekki bundin við það fyrirtæki núna. Við getum farið að tala við aðra aðila. Það er aðalatriði málsins og þess vegna legg ég áherslu á það sem ég sagði áðan að Kárahnjúkafrumvarpið þarf endilega að verða að lögum sem allra fyrst til þess að auðvelda okkur það starf sem nú er fram undan.

Það er ýmislegt hægt að nefna sem skiptir máli og er jákvætt, við höfum t.d. umhverfismatið. Við höfum ýmsar framkvæmdir sem farið hefur verið í fyrir austan, t.d. hvað varðar vegi og hafnir. Við höfum Kyoto-bókunina, fyrir utan það að vita að þessi framkvæmd er hagkvæm og arðbær. Það styrkir mig í þeirri trú að við munum ná þessu verkefni í höfn þó að það geti hugsanlega orðið eitthvað síðar en við ætluðum okkur.