Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 22. mars 2002, kl. 15:48:49 (6538)

2002-03-22 15:48:49# 127. lþ. 103.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Auðvitað hef ég verið að velta því fyrir mér síðustu dagana hvort þetta tímabil og þessi ár hafi öll verið til ónýtis. Auðvitað eru þau það ekki. Það hefur þó tekist á þessum árum og þessu tímabili að undirbúa málið og hvað varðar íslensk stjórnvöld og hvað varðar Landsvirkjun þá höfum við staðið okkur mjög vel. Í sjálfu sér er allt klárt af okkur hálfu. En þá gerist það að fjárfestarnir eru ekki tilbúnir að standa við tímaáætlanir.

Mér finnst, til þess að maður reyni að horfa á jákvæðu hliðarnar, alls ekki hægt að tala um að þessi tími hafi verið til einskis. Í rauninni, vegna þess hvað Landsvirkjun þarf að vera langt á undan uppbyggingu álverksmiðjunnar, er ekkert útilokað að tímaramminn breytist ekki svo mjög mikið. Það er reyndar ekki fyrr en á árinu 2004 sem hægt er að tala um að fjárfestarnir þurfi að fara að leggja fram fjármuni til álversins sjálfs. En Landsvirkjun hefði svo sannarlega þurft að byrja í sumar.