Norðurál

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 15:04:47 (6546)

2002-03-25 15:04:47# 127. lþ. 104.1 fundur 426#B Norðurál# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst raunar mjög eðlilegt að þessi fyrirspurn komi hér fram eftir umfjöllun helgarinnar. Mikil vinna hefur farið fram í iðnrn. sem snýr að því að sinna þessu myndarlega fyrirtæki, Norðuráli, sem hefur uppi áform um stækkun og að sú stækkun geti átt sér stað með þeim hætti að hún verði tekin í notkun á árinu 2004. Ég vil fara yfir nokkra þætti sem snúa að ráðuneytinu.

Þjóðhagsstofnun var fengin til að vinna úttekt á efnahagslegum áhrifum þess að farið yrði í bæði þessi verkefni, stækkun Norðuráls og uppbyggingu Norals á Austfjörðum. Niðurstaðan varð sú að byrjað yrði á stækkun Norðuráls. Ég endurtek, að byrjað yrði á stækkun Norðuráls. En Norðurál þarf orku og við höfum því í iðnrn. komið á viðræðum fyrirtækisins við orkufyrirtækin um að afhenda orku. Niðurstaða þess starfs er sú að einungis Landsvirkjun ráði við það verkefni miðað við tímaáætlanir fyrirtækisins. Það byggist á því að virkja Búðarhálsvirkjun og Norðlingaölduveitu.

Í sambandi við Norðlingaöldu er það að segja að drög að matsskýrslu eru nú til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun. Í sambandi við stækkun álversins hefur skýrslu verið skilað til Skipulagsstofnunar. Við fengum Pál Hreinsson til að vinna álitsgerð sem varðar réttarstöðu Þjórsárveranefndar áður en þetta ferli hófst og fleira mætti nefna. Mikið starf hefur verið í gangi í ráðuneytinu sem tengist þessu ágæta fyrirtæki og ég veit ekki betur en þeir sem að því standa séu mjög ánægðir.