Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:16:28 (6617)

2002-03-25 20:16:28# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:16]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það sem hér er sérstaklega til umræðu lýtur að gæðastýringu.

Ég verð í upphafi, virðulegi forseti, að láta það koma fram að ég er uppalinn við sauðfé og sauðfjárrækt og einnig við skýrsluhald í sauðfjárrækt alveg frá því að við vorum fyrst með sauðfjárrækt norður á Ströndum og síðar í Bjarnarhöfn og var það ávallt mjög ítarlegt skýrsluhald. Það var gert til þess að geta haft á fyrstu hendi hina ýmsu framleiðsluþætti og til vinnuhagræðingar og skipulagningar. Þetta var mjög nákvæmt skýrsluhald þannig að okkur var ávallt ljóst t.d. hvenær hver kind átti að bera og líka vissum við hvar hver kind gekk á afrétti yfir sumarið. Sauðféð var því okkur mjög nákomið og nákvæmt skýrsluhald, bæði skriflegt og einnig í meðvitundinni. Þetta var talið mjög nauðsynlegt og eðlilegt.

Ég man líka að úthaginn var ávallt skoðaður áður en fé var sleppt á beit á vorin, sleppt út. Var ávallt farið og kannað hvernig úthaginn væri staddur, hvort óhætt væri að sleppa fénu á beit eða ekki. Þetta var allt skoðað og gaumgæft.

Sama var síðan aftur upp á teningnum á haustin eða síðla sumars þegar féð kom heim. Þá var aftur metið hvernig ástatt var með haga í einstökum hlutum heimalanda eða beitarlanda, hvað mætti bjóða landinu af haustbeit. Þetta er ég uppalinn við og þótti alveg sjálfsagt. Heyforðinn var mjög vel metinn á haustin og þá var reiknað út hve mikið mátti ætla að gefa þyrfti hverri kind. Þætti heyforðinn eitthvað takmarkaður var hugað að því að bæta það upp með graskögglum eða öðru fóðri. Slíkar áætlanir voru allar unnar að haustinu. Ég þekki þetta eins og hæstv. landbrh. sem líka er uppalinn á miklu og góðu landbúnaðarbýli. Þetta kemur okkur ekki á óvart og teljum að ekki þurfi að beita okkur neinum lagasetningum til að gera þetta. Þetta gerðum við að eigin frumkvæði og þótti nauðsynlegt fyrir okkar búskap fyrir margra hluta sakir.

Ég skal líka til upplýsingar láta það koma fram af því að hæstv. landbrh. hefur ítrekað vakið máls á góðum sauðfjárbændum á Norðausturlandi, þeir eru reyndar víðar um land og víða eru sauðfjárbændur mjög góðir og hafa þessi tök í hendi sér. Ég hygg að sumum þeirra bænda sem hann vitnar til á Norðausturlandi hafi ég einmitt sjálfur kennt sauðfjárrækt á sínum tíma í bændaskóla, fóðurfræði, beitarmeðferð og þess háttar. Ég býst því við að allmargir þeirra sem hann hefur verið að vitna til hérna hafi farið þar í gegn og ég hef haft mikla ánægju af að kenna þeim og sjá ávöxt þess. Gæði og natni við framleiðslu og umgengni við sauðkindina sem skepnu og sem hluta af íslenskri menningu, sömuleiðis beitarlönd og aðrar náttúruauðlindir sem við umgöngumst um leið og við erum við sauðfjárræktina, er held ég megi fullyrða flestöllum sauðfjárræktarmönnum annars vegar í blóð borið, þeir hafi drukkið það með móðurmjólkinni eða hins vegar að þeir hafi lært það.

Ekki þar fyrir að þó að menn hafi ekki farið út í svona nákvæmlega ítarlegar skýrslur þekki ég líka mjög góða sauðfjárbændur sem ekki héldu neinar skriflegar skýrslur, en vissu nákvæmlega í smáatriðum allt um bústofn sinn, um ætterni kinda sinna, um afurðir þeirra á undanförnum árum, um frjósemi þeirra og allt sem verið er að tala um að skrá þurfi á bók. Ég þekki marga bændur sem höfðu þetta alveg fullkomlega í hendi sér og þeir eru enn til og verða. Þetta er hluti af þeirri umgerð sem skapar einmitt sauðfjárrækt á Íslandi og sem er hluti af þeim verðmætum sem í kringum þann búskap eru. Virðulegi forseti. Þetta vildi ég innleiða í ræðu minni.

Einnig vil ég segja, virðulegi forseti, að það var ekki aðeins að okkur væri annt um sauðkindina hvort sem væri á fengitímanum, við fóðrun yfir veturinn eða við sauðburð á vorin eða í að afla heyja að sumrinu eða að smala að haustinu, alls staðar þótti sjálfsagt að sýna þar alveg fyllstu nærgætni og við umgengumst sauðkindina af mikilli nærfærni.

Ég man líka að þegar við vorum að taka frá í slátrun á haustin var lögð sérstök áhersla á að þar væri vandað til, farið væri mjög rólega að fénu og þess gætt að það væri ekki stressað eða æst upp áður en það færi í slátrun og þótti jafnframt alveg nauðsynlegt að á fjárflutningabílnum fylgdi helst einhver sauðfénu til slátrunar sem bæri fullt skynbragð á að slíkri umgengni þyrfti að fylgja eftir alveg inn í sláturhúsið.

Ég man líka að faðir minn, sem var mjög nærfærinn við sauðfé, fylgdi öllu sláturferlinu eftir og hann var alls staðar á ferðinni um sláturhúsið meðan verið var að slátra til að gæta þess að alls staðar væri vel að öllu staðið og vel að farið. (Landbrh.: Gæðastýring?) Já, þetta var gæðastýring, hæstv. ráðherra. Hún var ekkert bundin í lögum, en þetta var sjálfsögð og eðlileg gæðastýring. Og ég man að þegar verið var að velja hvort sem það voru skrokkar til heimtöku eða í heimaslátrun, þá var því vandlega fylgt eftir alveg frá upphafi til enda, þ.e. gæðastýring, og ekki hvað síst inni í sláturhúsunum.

Ég rek þetta hér, herra forseti, vegna þess að í þeirri umræðu nú um gæðastýringu er verið að leggja til að þetta ferli sé allt lögbundið og það sé meira en lögbundið því einnig er búið að stofna feiknarlega mikinn eftirlitsiðnað sem á að fylgja því eftir að sauðfjárbóndinn vinni með þeim hætti sem ég var að lýsa. Það liggur í loftinu að kostnaður og fyrirhöfn við eftirlitsiðnaðinn verði miklum mun meiri en hugsanlegur ávinningur, sem er þó mikill, sem bóndinn sjálfur getur fengið.

Síðan rekum við okkur á að þeirri gæðastýringu, sem er svo sjálfsögð en á ekki að vera bundin í lög, sleppir um leið og dilkurinn er afhentur á bíl til slátrunar, því miður, því þá tekur annað við. Í uppbyggingu eða niðurröðun sláturhúsa er ekki verið að hugsa um neina sérstaka gæðastýringu hvað þetta varðar. Fé er flutt langar leiðir, hundruð kílómetra til slátrunar og þá er miklu síður verið að horfa til þess hvað verið er að gera. Gæðastýring er fólgin í ferlinu í heild. Slíkur flutningur á sér stað yfir markalínur, yfir sauðfjárvarnalínur og býður heim þeirri hættu að áratugaárangur í að berja niður smit og sjúkdóma í sauðfé geti gengið til baka vegna þeirrar þróunar sem nú er.

Ekki tekur svo betra við, herra forseti, í sláturhúsunum og kjötvinnslunum. Þar virðist gæðaeftirlitið því miður um of klikka og daprasta dæmið er það sem við ræddum fyrr í dag um útflutning á dilkakjöti til Evrópulandanna þar sem í kjötvinnslustöðvum, sláturhúsum og á þeim stöðum sem hafa verið að selja kjöt erlendis eru fjöldamargar gæðareglur margbrotnar. Þessu er slælega fylgt eftir og stefnir því þeim útflutningi í hættu sem þar hefur verið.

Herra forseti. Ég rek þessa gæðastýringu vegna þess að þetta er ekkert nýtt. En það sem er nýtt er að það á að fara að setja þetta í lög og það er nýtt líka að vörugæðin eru ekki höfð að leiðarljósi heldur ferillinn, hin tæknilegu atriði í ferlinum. Þau eru sett sem númer eitt en ekki gæði vörunnar sjálfrar og þar erum við því miður á rangri leið.

Herra forseti. Einnig það að markaðurinn fyrir dilkakjötið, meginmarkaðurinn, er innan lands, en hins vegar er það svo að varið er stórauknu fjármagni til markaðssetningar erlendis og það hefur ekki gengið vel, hefur aldrei gengið vel á undanförnum árum að verja svona stórum hluta fjármagnsins til að vinna markaði erlendis. Við stöndum nú frammi fyrir því að hugsanlega þurfi að tryggja um 20--30% af framleiðslunni erlendis. Þá fer maður að velta fyrir sér: Til hvers eru þá þær aðgerðir sem núna er verið að gera? Þær aðgerðir sem lúta að gæðastýringu og öðrum álagsgreiðslum eru jafnframt magntengdar þannig að þær eru ekki bundnar við gæði framleiðslunnar heldur eru þær bundnar á kíló í framleiðslunni og munu þar með virka beint og óbeint framleiðsluhvetjandi án þess þó að sá markaður sé fyrir hendi sem er reiðubúinn til að taka á móti því.

[20:30]

Tekjur sauðfjárbænda eru allt of lágar og ekki hefur úr ræst á undanförnum árum. Því er lítil bót fyrir sauðfjárbændur að láta ríkið vera að hvetja til framleiðslu sem skilar þeim ekki nema um hálfvirði af framleiðslukostnaði á hvert kíló. Það er lítil hjálp. Það í raun eykur vandann að hvetja til framleiðslu sem ekki skilar nema hálfvirði framleiðslukostnaðar.

Virðulegi forseti. Sú stefna sem hér er uppi er áhyggjuefni og það hefur verið rakið ítarlega í ræðum fyrr í dag og kvöld. Ég vil vitna til ágæts bréfs sem mér barst frá kunningja mínum Einari Gíslasyni bónda á Skörðugili, með leyfi forseta:

,,Trú manna að hægt verði einhvern tíma að selja íslenskt lambakjöt úr landi fyrir framleiðsluverð er gjörsamlega út í hött og tómt bjartsýnishjal. Með þessu ferli hef ég fylgst lengi og ég hef framleitt dilkakjöt í 40 ár og unnið mikið að félagsmálum sauðfjárbænda. Eitt aðalmarkmiðið með stofnun Félags sauðfjárbænda var að stórauka markaðinn erlendis. Við töldum þá að það væri SÍS að kenna að ekki fengist meira verð fyrir það erlendis. Við komumst að öðru og eftir að hafa sent hvern sérfræðinginn af öðrum til finna þessa góðu markaði, sem allir töluðu um en aldrei fundust, þá kom einfaldlega í ljós að þeir voru ekki til. Staðreyndin er sú að Nýsjálendingar voru alls staðar til staðar með úrvalsvöru sem gefur ekkert eftir gæðum íslenska lambakjötins.``

Svo segir þessi ágæti sauðfjárbóndi:

,,Ef sú stefna væri ofan á að greiða skuli út á framleitt kíló en ekki á greiðslumark verður stutt í að enginn geti búið við sauðfé á Íslandi. Okkur vantar einfaldlega tekjur til að borga brúsann.``

Þetta segir þessi ágæti bóndi og telur að þær aðgerðir sem verið er að grípa til í sauðfjárræktinni eigi að miða að því að treysta tekjugrunn bændanna fyrst og fremst og búanna en ekki verða til þess að stuðla að aukinni framleiðslu sem ekki eru markaðir fyrir sem skila nægilegu verði. Markaður innan lands er langmikilvægasti markaður okkar og það er tilfinning mín að honum hafi illa verið sinnt á liðnum árum. Það á að snúa sér og einhenda sér að því að styrkja og efla markaðssókn innan lands og vöruþróun á innlendum mörkuðum og nýta það fjármagn sem ríkið er að öðru leyti að verja til útflutnings í miklu meiri mæli bæði til tekjujöfnunar og til að styrkja tekjur bænda innan lands og styrkja markaðsstöðuna þar. Ég tel, og tek undir þá skoðun sem hér hefur komið fram, að menn eigi að doka við en keyra ekki þetta frv. fram, þetta gæðastýringarfrv. hæstv. landbrh. Menn eiga ekki að keyra það fram. Menn eiga virkilega að fara í það núna að skoða stöðu sauðfjárbænda og skoða stöðu sauðfjárframleiðslunnar, skoða hvað er að gerast og hver áhrif sá samningur sem nú er í gildi í rauninni hefur og hvaða áhrif þar eru á ferðinni áður en gengið verður til þess að setja þessa magntengdu gæðastýringarreglu inn í framleiðsluna í sauðfjárræktinni. Ég tel allt of mikla áhættu að stíga þessi skref. Menn eiga virkilega að taka út stöðuna og meta hvernig þeir geta annars vegar tryggt tekjugrunn bænda, hvernig þeir geta eflt og staðið að framleiðslunni innan lands og neysluni hér innan lands, en verja ekki fjármagninu eins og hér er verið að leggja til til þess að greiða niður framleiðsluna til útflutnings og láta innlendu neysluna greiða hana beint eða óbeint niður því að það er verið að gera með því að taka fjármagn úr þessum sauðfjársamningi til að greiða niður útflutninginn. En með þeim hætti erum við í rauninni að láta sauðfjárbændur greiða niður útflutninginn. Það tel ég vera alveg rangt.

Herra forseti. Ég vil svo að endingu vísa til þess sem kom fyrr fram í umræðunni. Það hefur komið fram bæði hjá hv. formanni landbn. og einnig hef ég heyrt það hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að ríkið hafi aldrei krafist þess að magntengd gæðastýring, þ.e. sem yrði greitt út af eftir magni, væri skilyrði fyrir því fjármagni sem sett væri inn í sauðfjársamninginn heldur væri það útfærsluatriði sem hefði komið frá bændum sjálfum. Um þetta er að vísu ágreiningur. Sumir bændur telja að samningurinn hafi verið kynntur þeim á fölskum forsendum, þ.e. hafa sagt að þetta hafi verið skilyrði af ríkisins hálfu. Ég tel að þetta eigi að skýra og að bændur eigi heimtingu á að fá að vita hver sé þeirra samningur hvað þetta varðar. Okkur liggur ekkert á að taka þessa gæðastýringu inn með þeim hætti að greiða eftir hana magntengt. Okkur liggur ekkert á því. Okkur ber að taka út stöðuna og kanna hvernig við getum styrkt innviði sauðfjárræktarinnar á Íslandi á mörkuðum innan lands.