Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:38:54 (6619)

2002-03-25 20:38:54# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um gæðamálin og gæðastýringuna. Ég er þeirrar skoðunar að hver einstakur bóndi vinni sjálfur innan síns bús að því að vera með sem best og nákvæmast skýrsluhald. Það sem honum ber að gera er náttúrlega að skila góðri vöru og hafa gert það og framleitt hana í sátt við þær náttúruauðlindir sem hann nýtir til þess.

Ég treysti mér ekki til að segja að ég hafi með bókhaldi mínu staðið neitt betur eða verr að máli en bóndinn á næsta bæ sem var með þetta nánast allt í kollinum en ekkert skrifað og bjó mjög vel og ég virti hans miklu þekkingu og gæðastýringu á búskapnum. Ég tel því að ég ætti ekkert að fá meira fjármagn fyrir kílóið af mínu kjöti en sá bóndi sem bjó við hliðina á mér og skilaði góðri vöru án þess að hafa um það allt þetta bókhald.

Ég skil hæstv. landbrh. vel hvað það varðar að það þarf að fylgja samþykktum samningi og uns þá honum hefði verið breytt með lagalegum hætti. Hann byggir náttúrlega á lögum og lagagrunni frá Alþingi og útfærsla hans. Það er líka svo að þegar samningar eru gerðir eru þeir gerðir eftir þeim forsendum sem best er vitað. Þar geta síðan hafa reynst hnökrar á eða annað komið upp á og þá þarf það að endurskoðast. Það er þá Alþingi sem ber ábyrgð á þeirri lagasetningu eða lagaumgjörð sem er tengd við þennan samning. Það er Alþingi sem ber ábyrgð á því að þessi endurskoðun fari fram. Þar tel ég, virðulegi forseti, að hæstv. landbrh. ætti að taka frumkvæði eða beita sér.